Þjóðaratkvæði án þjóðarinnar?

Það er óneitanlega sérstakt hversu mikil orka fer stundum í að ræða sjálfsagða hluti hér á Íslandi. Íslendingar eru til að mynda almennt sammála um að lýðræði sé heppilegt fyrirkomulag. Að það sé gáfulegt að leiða deilumál til lykta með atkvæðagreiðslu. Í því felst að við virðum það við hvert annað að vera ósammála en jafnframt að á endanum ráði meirihlutinn. Þetta fannst Framsókn og Sjálfstæðisflokknum mjög eðlilegt á síðasta kjörtímabili þegar flokkarnir voru í meirihluta. En í stjórnarandstöðu vefst þetta lögmál fyrir þeim og það verður að sérstöku baráttumáli að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslur á Alþingi með endalausu málþófi. Líkt og við sáum á síðasta þingi. Sennilega er þetta bein afleiðing þess að flokkarnir tveir hafa afhent Miðflokknum forystuhlutverkið í stjórnarandstöðu. Sá flokkur festi sig auðvitað mjög í sessi á sínum tíma með Íslandsmeti í málþófi um þriðja orkupakkann. Sem var slegið fyrr í sumar með „glæsibrag“. Mælingar sýna skýrt að þjóðin kunni ekki að meta þetta málæði enda eru Íslendingar almennt þeirrar skoðunar að minnihluti þings eigi ekki að hafa neitunarvald gagnvart meirihlutanum.

Eftir þá sneypuför virðist nú nýtt haldreipi fundið. Sem, merkilegt nokk, gengur einnig út á að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslu. Ekki á Alþingi heldur meðal þjóðarinnar. Það kemur skýrt fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna um aðild Íslands að Evrópusambandinu fari fram eigi síðar en árið 2027. Nú er reynt að þyrla upp allskyns moldviðri í því skyni að grafa undan þessum áformum. Reynt er að halda því fram að umsóknin hafi verið dregin til baka þegar augljóst er að það var ekki gert. Loðið og illa orðað sendibréf frá framkvæmdavaldinu til Brussel í skjóli nætur getur auðvitað ekki núllað út vilja Alþingis sem samþykkti í atkvæðagreiðslu að sækja um aðild. Enda lítur ESB svo á að umsóknin sé í gildi og morgunljóst á þeim gögnum sem birst hafa síðustu vikur að ríkisstjórninni sem póstlagði bréfið á sínum tíma var rækilega bent á að ef slíta ætti viðræðunum þá þyrfti að gera það á sama vettvangi og þær hófust. Á Alþingi Íslendinga.

Þjóðin mun ráða för í þessu máli. Hún greiðir atkvæði um framhaldið og líka aðildarsamninginn sjálfan ef málið nær svo langt. Einhverjir orðaleikir stjórnarandstöðunnar um að verið sé að lauma þjóðinni í ESB að næturlagi, helst um bakdyrnar, eru fjarstæðukenndir. Það er nefnilega pólitískur ómöguleiki að halda þjóðaratkvæðagreiðslu án þjóðarinnar. Hvað þá í kyrrþey eða í skjóli nætur.