01 sep Vextir og veður
Það er eðlilegt að samtöl á milli fólks snúist mikið um það sem hefur áhrif á okkar nánasta umhverfi. Íslendingar tala mikið um veður og veðurfar, enda hefur það mikil áhrif á líf okkar. Þannig hefur það alltaf verið og verður alltaf. Við stýrum ekki veðrinu heldur reynum að lifa með þeim dyntum sem því fylgja. Enda ekkert annað að gera. Náttúran hefur sinn gang.
Íslendingar tala ekki síður mikið um verðbólgu og vexti. Þessi hugtök eru svo inngróin í vitund okkar að það má heita stórfurðulegt að íslensk tunga skuli ekki vera jafnauðug af orðum um þau og veðrið og veðurfar. Enda hefur verðbólgudraugurinn leikið okkur grátt í gegnum tíðina. Vegna verðbólgunnar búum við að jafnaði við mun hærri vexti en íbúar í nágrannalöndunum. Það eigum við ekki að sætta okkur við enda er það ekki náttúrulögmál eins og rigningin. Það er heimatilbúinn vandi sem á sér margar skýringar, ekki síst þá að örmyntin íslenska ýkir hér upp allar sveiflur í efnahagslífinu.
Vextir hækkuðu mikið í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þeir hækkuðu reyndar um allan heim en vextir hafa verið hærri mun lengur hér en í nágrannalöndunum. Svona er þetta alltaf, því miður. Stundum er því haldið að fólki að þessi séríslenska vaxta- og verðbólgustaða sé óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að búa í auðlindadrifnu hagkerfi og að aðrir þættir vegi þetta upp. Við eigum bara að sætta okkur við þetta, rétt eins og rigninguna og hríðarveðrið. Þessu trúa fæstir og þetta upplifir enginn. Öll viljum við stöðugra verðlag og lægri vexti til lengri tíma. Það á við um heimilin, fyrirtækin, ríkissjóð og sveitarfélög. Þessar ýktu sveiflur eru meinsemd og við klæðum þær ekki af okkur.
Það voru vonbrigði að vextir héldu ekki áfram að lækka síðast þegar Seðlabankinn tilkynnti ákvörðun sína. Á móti má segja að það hafi verið gleðilegt nú fyrir helgina að sjá að verðbólgan hafi hjaðnað á milli mánaða, þvert á spár. Einnig er það gleðilegt að erlend matsfyrirtæki hafa í dag betri trú á íslensku efnahagskerfi en áður og það eru mikilvæg skilaboð. Staðan er engu að síður sú að það þarf að stíga markviss skref til að auðvelda Seðlabankanum það verkefni að lækka hér vexti. Fyrsta fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar verður kynnt á næstu dögum og þar er grunnur lagður að hagræðingu sem mun skipta miklu máli í þeirri baráttu. Þær fjölmörgu hagræðingartillögur sem almenningur stakk upp á fyrr í vetur eru komnir í farveg og munu skipta miklu. Það er því full ástæða til bjartsýni þótt Seðlabankinn hafi hægt á sínu vaxtalækkunarferli.