Vextir og veður

Það er eðli­legt að sam­töl á milli fólks snú­ist mikið um það sem hef­ur áhrif á okk­ar nán­asta um­hverfi. Íslend­ing­ar tala mikið um veður og veðurfar, enda hef­ur það mik­il áhrif á líf okk­ar. Þannig hef­ur það alltaf verið og verður alltaf. Við stýr­um ekki veðrinu held­ur reyn­um að lifa með þeim dynt­um sem því fylgja. Enda ekk­ert annað að gera. Nátt­úr­an hef­ur sinn gang.

Íslend­ing­ar tala ekki síður mikið um verðbólgu og vexti. Þessi hug­tök eru svo inn­gró­in í vit­und okk­ar að það má heita stórfurðulegt að ís­lensk tunga skuli ekki vera jafnauðug af orðum um þau og veðrið og veðurfar. Enda hef­ur verðbólgu­draug­ur­inn leikið okk­ur grátt í gegn­um tíðina. Vegna verðbólg­unn­ar búum við að jafnaði við mun hærri vexti en íbú­ar í ná­granna­lönd­un­um. Það eig­um við ekki að sætta okk­ur við enda er það ekki nátt­úru­lög­mál eins og rign­ing­in. Það er heima­til­bú­inn vandi sem á sér marg­ar skýr­ing­ar, ekki síst þá að ör­mynt­in ís­lenska ýkir hér upp all­ar sveifl­ur í efna­hags­líf­inu.

Vext­ir hækkuðu mikið í tíð síðustu rík­is­stjórn­ar. Þeir hækkuðu reynd­ar um all­an heim en vext­ir hafa verið hærri mun leng­ur hér en í ná­granna­lönd­un­um. Svona er þetta alltaf, því miður. Stund­um er því haldið að fólki að þessi sér­ís­lenska vaxta- og verðbólgustaða sé óhjá­kvæmi­leg­ur fylgi­fisk­ur þess að búa í auðlinda­drifnu hag­kerfi og að aðrir þætt­ir vegi þetta upp. Við eig­um bara að sætta okk­ur við þetta, rétt eins og rign­ing­una og hríðarveðrið. Þessu trúa fæst­ir og þetta upp­lif­ir eng­inn. Öll vilj­um við stöðugra verðlag og lægri vexti til lengri tíma. Það á við um heim­il­in, fyr­ir­tæk­in, rík­is­sjóð og sveit­ar­fé­lög. Þess­ar ýktu sveifl­ur eru mein­semd og við klæðum þær ekki af okk­ur.

Það voru von­brigði að vext­ir héldu ekki áfram að lækka síðast þegar Seðlabank­inn til­kynnti ákvörðun sína. Á móti má segja að það hafi verið gleðilegt nú fyr­ir helg­ina að sjá að verðbólg­an hafi hjaðnað á milli mánaða, þvert á spár. Einnig er það gleðilegt að er­lend mats­fyr­ir­tæki hafa í dag betri trú á ís­lensku efna­hags­kerfi en áður og það eru mik­il­væg skila­boð. Staðan er engu að síður sú að það þarf að stíga mark­viss skref til að auðvelda Seðlabank­an­um það verk­efni að lækka hér vexti. Fyrsta fjár­laga­frum­varp nýrr­ar rík­is­stjórn­ar verður kynnt á næstu dög­um og þar er grunn­ur lagður að hagræðingu sem mun skipta miklu máli í þeirri bar­áttu. Þær fjöl­mörgu hagræðing­ar­til­lög­ur sem al­menn­ing­ur stakk upp á fyrr í vet­ur eru komn­ir í far­veg og munu skipta miklu. Það er því full ástæða til bjart­sýni þótt Seðlabank­inn hafi hægt á sínu vaxta­lækk­un­ar­ferli.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. september 2025