Líflegt hringborð um evrópumálin

Á landsþingi Viðreisnar safnaðist mikill fjöldi saman til að fylgjast með fulltrúum verkalýðsforystunnar, atvinnurekenda og sjávarútvegarins ræða um komandi þjóðaratkvæðagreiðslu og aðild að Evrópusambandinu.

Hringborðið var skipað Finnbirni Hermannssyni, forseta ASÍ, Sigríði Margréti Oddsdóttur, framkvæmdastjóra SA og Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra Brims. Umræðum stýrði Sigmar Guðmundsson, þingflokksformaður Viðreisnar.

Í upphafi nefndi Sigmar að ríkisstjórnin hafi þegar ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðsla verði haldin um það hvort viðræðum við Evrópusambandið verði haldið áfram. Loksins muni þjóðin fá að hafa sitt að segja um þetta stóra hagsmunamál. Fyrir vikið þurfum við ræða hvað það feli í sér.

Guðmundur í Brimi sagðist telja algjörlega rétt að taka umræðuna núna og gera það faglega. Mikið lófatak braust síðan út eftir að hann sagði að ef hann væri stjórnmálamaður þá væri hann skíthræddur við að ganga inn í Evrópusambandið – því það myndi girða fyrir möguleika þeirra til að úthluta gæðum til vina og vandamanna. Þá nefndi hann einnig að ef við hefðum evru þá gætu stjórnmálin ekki þynnt kjörin okkar með því að fella gengið, við mikinn fögnuð fundargesta.

Finnbjörn hóf mál sitt á því að segjast telja að það hafi verið mistök við síðustu aðildarviðræður að halda enga þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann tiltók að ASÍ hafi ekki tekið afstöðu til aðildar núna en þegar kemur að atkvæðagreiðslu muni þau hvetja félagsfólk sitt til að taka þátt og greiða atkvæða út frá sinni sýn.

SA telur alþjóðaviðskipti mikilvæg fyrir hagsmuni þjóðarinnar, að sögn Sigríðar Margrétar. Hún sagði þó að þegar kemur að ESB skiptist þjóðin í tvennt og að meirihluti aðildarfélaga þeirra sé mótfallinn inngöngu. Þá kvað hún vera mikla þörf á jafnvægi í ríkisrekstrinum alveg óháð umræðunni um viðræður við Evrópusambandið.

Margt fleira var tekið fyrir, smæð þjóðarinnar, samningskaflarnir sem ekki voru opnaðir í síðustu umræðum og eignarhald þjóðarinnar yfir auðlindum sínum.

Sigmar lauk fundinum með þeim orðum að hann óttist ekki umræðuna í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðslu því hann trúi því að rökin sigri að lokum.