23 ágú Líflegar umræður um atvinnumál á landsþingi
Á landsþingi Viðreisnar voru hringborðsumræður um atvinnumál og þá atvinnustefnu sem ríkisstjórnin hefur í mótun. Til svara voru Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra. Umræðunni stýrði Sveinbjörn Finnsson, verkfræðingur sem starfar í forsætisráðuneytinu sem aðstoðarmaður ríkisstjórnarinnar.
Í máli Daði Más kom fram að við höfum staðið frammi fyrir ýmsum áskorunum, til dæmis vegna þenslu í efnahagslífinu og stöðnunar í orkuöflun. Þegar litið er fram veginn skipti þó lykilmáli að koma á öflugum almennum ramma. Við getum ekki vitað í dag hvaðan næstu vaxtatækifæri íslensks atvinnulífs muni stafa. Þau tækifæri verða sköpuð af framsýnu fólki sem þorir að taka áhættu. Verkefni stjórnmálanna er að tryggja að almenni ramminn styðji við slíka framtakssemi og leggi ekki stein í götu hennar.
Hanna Katrín sagði að tækifæri til vaxtar liggi meðal annars í gjaldmiðlamálum og einföldun regluverks. Hún tók undir skilaboð Daða og nefndi til viðbótar að atvinnustefna snúi ekki síst að aukinni framleiðni. Þá nefndi hún sérstaklega að verkefnið við endurskoðun á landbúnaðarstuðningi hafi farið vel af stað. Markmiðið sé að hanna kerfi sem sé öllum til gagns, bændum, öðrum sem starfa á sviði landbúnaðar og neytendum.
Við lok hringborðsins þakkaði Hanna Katrín fyrir umræðurnar með þeim orðum að þegar allt kemur til alls skiptir máli að fylgja hjartanu, hvort sem það er í námi, leik eða störfum.