Sterk staða í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga

Það styttist í sveitarstjórnarkosningar og eftir aðeins átta mánuði ganga landsmenn að kjörborðinu. Spennan eykst með degi hverjum og ljóst er að Viðreisn ætlar að láta til sín taka. Flokkurinn á nú fulltrúa í sveitarstjórnum víða um land, ýmist í samstarfi við aðra eða undir eigin merkjum.

Á landsþingi flokksins var mikill áhugi á umræðum um sveitarstjórnarmál, sem leiddar voru af Róberti Ragnarssyni, fyrrverandi bæjarstjóra. Með honum sátu við borðið Lovísa Jónsdóttir, bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi í Reykjavík, Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs á Ísafirði, og Pétur Markan, bæjarstjóri í Hveragerði.

Umræðurnar snerust ekki síst um hvernig Viðreisn getur nýtt þann meðbyr sem fylgir sterkri stöðu í ríkisstjórn og þingmönnum í öllum kjördæmum. Rík samstaða var um að frjálslynd grunngildi flokksins – frelsi og jafnrétti – eigi erindi um land allt. Jafnframt var lögð áhersla á mikilvægi þess að Viðreisnarfólk hafi svigrúm til að setja staðbundna hagsmuni í forgang.

Fulltrúarnir deildu fjölbreyttum dæmum um árangur í heimabyggð. Lovísa kynnti verkefnið Börnin okkar í Mosfellsbæ sem hefur reynst afar vel. Gylfi og Pétur sögðu frá því hvernig opin og gagnsæ samskipti hafa eflt samstarf í bæjarstjórnum Ísafjarðar og Hveragerðis. Þórdís Lóa fjallaði um brýr sem Viðreisn hefur byggt milli ólíkra sjónarmiða í borgarstjórn, sem aukið hefur traust og samstarfsvilja allra lista. Hún lagði jafnframt áherslu á ábyrga fjármálastjórn og góða stjórnarhætti, meðal annars með eigendastefnu Reykjavíkurborgar.

Allir viðmælendur voru á einu máli: Sveitarstjórnarstigið býður upp á fjölmörg tækifæri til að hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Þau hvöttu landsþingsfulltrúa til að taka virkan þátt í næstu kosningum – því framtíðin mótast í nærumhverfinu.