Prófkjör í janúar í Hafnarfirði

Á fjölmennum félagsfundi Viðreisnar í Hafnarfirði  í gær var samþykkt með afgerandi meirihluta að efstu tvö sæti á lista flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar 2026 verði valin í bindandi prófkjöri í janúar. Það kom skýrt fram í máli félagsmanna að þeir töldu þetta bestu leiðina til að byggja upp sterkt og traust framboð í Hafnarfirði.

Næstu skref verða að kjósa annars vegar kjörstjórn og hins vegar uppstillinganefnd fyrir önnur sæti listans. Fólk sem er áhugasamt um að vinna með Viðreisn í Hafnarfiði í komandi sveitarstjórnarkosningum , sitja í kjörstjórn eða uppstillinganefnd er bent á að senda okkur línu á netfangið hafnarfjordur@vidreisn.is

Framboð Viðreisnar í Hafnarfirði mun leggja áherslu á ábyrga stjórnun og skýra framtíðarsýn fyrir Hafnarfjörð. Viðreisn hefur tvisvar áður boðið fram til sveitarstjórnarkosninga í Hafnarfirði, árið 2018 og 2022. Í bæði skiptin hlaut Viðreisn rúm 9% atkvæða og einn kjörinn fulltrúa.

„Það er mikill hugur í Viðreisn fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í Hafnarfirði,“ segir Sigurjón Ingvason, formaður Viðreisnar í Hafnarfirði. „Það vantar töluvert upp á að núverandi meirihluti sé að hlusta á raddir Hafnfirðinga til að gera sveitarfélagið okkar enn öflugra. Sem þriðja stærsta sveitarfélag landsins ætti Hafnarfjörður að vera leiðandi í því að skapa hér fjölskylduvænt samfélag, þar sem auðvelt er að sækja atvinnu og þjónustu.“