Prófkjör hjá Viðreisn í Kópavogi

Fjölmennur félagsfundur Viðreisnar í Kópavogi samþykkti í gærkvöldi að halda prófkjör um fyrstu þrjú sæti á lista flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á næsta ári.

Með þessari ákvörðun leggja félagsmenn áherslu á lýðræðislega þátttöku og vilja byggja upp sterkt og öflugt framboð sem endurspeglar breidd og metnað flokksins í Kópavogi,  næststærsta sveitarfélagi landsins.

„Þetta er jákvætt og sögulegt skref fyrir félagið í Kópavogi. Í fyrsta sinn verður haldið prófkjör um efstu þrjú sæti með eindregnum stuðningi fjölmenns fundar. Við finnum mikinn baráttuhug og meðbyr meðal Kópavogsbúa og ætlum okkur stóra hluti í næstu kosningum,“ segir Elvar Bjarki Helgason, formaður Viðreisnar í Kópavogi.

Viðreisn í Kópavogi leggur nú áherslu á að virkja félagsmenn og stuðningsfólk til þátttöku í prófkjörinu og undirbúningi kosningabaráttunnar sem fram undan er.

Næsta skref er að boða til félagsfundar, þar sem félagsmönnum gefst tækifæri á að bjóða sig fram til að sitja í kjörstjórn eða uppstillingarnefnd. Kópavogsbúar sem eru áhugasamir um að starfa með Viðreisn í komandi kosningabaráttu eru eindregið hvattir til að hafa samband við okkur á kopavogur@vidreisn.is.