30 okt Skýr stefna í varnar- og öryggismálum
síðustu viku kynnti ég í ríkisstjórn þingsályktunartillögu um stefnu Íslands í varnar- og öryggismálum. Stefnan byggist á vandaðri skýrslu samráðshóps þingmanna.
Nýr veruleiki kallar á endurmat
Það er eðlilegt að spurt sé hvers vegna þörf sé á sérstakri stefnu í varnarmálum. Svarið liggur í því breytta öryggisumhverfi sem blasir við í Evrópu og Norður-Atlantshafi.
Innrás Rússlands í Úkraínu árið 2022 markaði vatnaskil. Hún breytti heimsmynd okkar. Í fyrsta sinn frá lokum síðari heimsstyrjaldar geisar stórfellt landvinningastríð í Evrópu þar sem alþjóðlega viðurkennd landamæri eru virt að vettugi.
Stærsta ógnin sem steðjar að okkur er sú sama og steðjar að öðrum bandalagsríkjum, það er hernaðarleg ógn frá Rússlandi. Ísland er þannig staðsett að landið okkar mun nær óhjákvæmilega dragast inn í meiriháttar átök er kynnu að brjótast út í Evrópu. Aðstaða á Íslandi skiptir sköpum fyrir eftirlit með og stjórn á umferð flugvéla, skipa og kafbáta um Norður-Atlantshaf. Fyrir varnir Norður-Ameríku og Evrópu.
Á sama tíma stöndum við frammi fyrir nýjum hættum, svokölluðum fjölþáttaógnum á borð við skemmdarverk á mikilvægum innviðum, netárásir og tilraunir til að skapa ótta eða grafa undan trausti í samfélaginu. Nýleg atvik í Evrópu þar sem drónar hafa rofið lofthelgi, raskað flugumferð og flogið yfir herstöðvar eru dæmi um þessa ógn.
Nýr veruleiki í varnarmálum varð til þess að Danir ákváðu með miklum meirihluta að taka fullan þátt í varnarsamstarfi Evrópusambandsins (ESB). Finnland og Svíþjóð, sem höfðu verið hlutlaus ríki, Svíar allt frá Napóleónsstríðunum, gengu til liðs við Atlantshafsbandalagið. Við Íslendingar verðum einnig að endurmeta nálgun okkar í varnar- og öryggismálum.
Ísland – áreiðanlegur og traustur bandamaður
Ísland er herlaust en alls ekki varnalaust. Með aðild að Atlantshafsbandalaginu njótum við verndar bandalagsríkja og með varnarsamningi við Bandaríkin frá 1951 njótum við sérstakrar verndar öflugasta herveldis í heimi. Þetta eru meginstoðir varnarmálastefnunnar og allir þættir hennar miða að því að styðja við og styrkja þátttöku Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Það gerum við til dæmis með því að stórefla svæðisbundið og tvíhliða varnarsamstarf innan ramma Atlantshafsbandalagsins. Eins og við höfum nýlega gert með viljayfirlýsingum um samstarf um varnir með Finnlandi og Þýskalandi. Ég get einnig nefnt norræna varnarsamstarfið (NORDEFCO) og sameiginlegu viðbragðssveitina (JEF) og nánara samstarf við lykilbandamenn á borð við Bretland, Frakkland, Kanada, Þýskaland og ESB.
Samstarfið við Bandaríkin í varnar- og öryggismálum hefur líklega aldrei verið nánara og betra en nú. Ég verð vör við þann misskilning að samstarf við nágrannaríki okkar veiki með einhverjum hætti samstarfið við Bandaríkin. Því fer víðs fjarri. Bandaríkin styðja og fagna nánara samstarfi Íslands við nágrannaríki, enda öll bandamenn innan Atlantshafsbandalagsins. Bandaríkin fagna sömuleiðis auknu samstarfi og ábyrgð Evrópuríkja á eigin vörnum, þar skiptir ESB miklu máli.
Framlag Íslands er einnig mikilvægt
Það má ekki gleymast að varnarskuldbindingarnar við bandalagsríki okkar eru gagnkvæmar. Þau hjálpa okkur og við hjálpum þeim. Ísland á að vera og er áreiðanlegur og traustur bandamaður sem leggur sitt af mörkum bæði til eigin öryggis og sameiginlegs öryggis bandalagsríkja.
Mikilvægasta framlag okkar til sameiginlegs öryggis er aðstaða fyrir herafla bandalagsríkja á Íslandi. Það eru tæpir tveir áratugir liðnir frá því að Ísland tók við stjórn varnarsvæðanna af Bandaríkjaher. Þar undir er til dæmis rekstur á stjórnstöð Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli og einnig íslenska loftvarnakerfisins sem sinnir eftirliti með loftrými fyrir Atlantshafsbandalagið.
Svokölluð gistiríkjaþjónusta er ekki síður mikilvægt framlag til sameiginlegra varna. Í henni felst að taka við og þjónusta herafla er hingað kemur til dæmis í tengslum við kafbátaeftirlit og loftrýmisgæslu sem bandalagsríkin sinna.
Efling innlendrar getu og áfallaþols
Varnaráætlanir Atlantshafsbandalagsins, varnaráætlun Íslands og varnaráætlanir Bandaríkjanna gera kröfur um að við treystum eigin varnar og viðbragðsgetu. Í því felst meðal annars að auka getu samfélagsins til að takast á við áföll. Einnig þurfum við að styrkja innviði sem nýtast bæði í daglegu lífi og þegar hættuástand skapast. Þar skiptir miklu að efla getu innlendra viðbragðsaðila, ekki síst embætti ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslu og netöryggissveitarinnar CERT-IS. Við erum stolt af okkar magnaða almannavarnakerfi og einstakri viðbragðsgetu þegar náttúruhamfarir verða. Við þurfum einnig að styrkja getu samfélagsins til að takast á við áföll af mannavöldum. Þar má nefna að tryggja verður öryggi og aðgengi að orku, fjarskiptum, samgöngum, lyfjum, fæðu og vatni svo dæmi séu nefnd.
Við megum heldur ekki gleyma því að ein meginforsenda þess að hægt sé að styrkja öryggi okkar og varnir til framtíðar er að byggja upp nauðsynlegan mannauð, reynslu og sérfræðiþekkingu á þessu sviði hér á Íslandi.
Samstarf um þjóðarhag
Samstarf þingmanna úr öllum flokkum um inntak og áherslur fyrir stefnu í varnar- og öryggismálum var einstaklega gott, og framlag fulltrúa Miðflokksins einnig mikilvægt þó að flokkurinn hafi ekki staðið að niðurstöðu hópsins. Fram undan er umræða á Alþingi og í samfélaginu um stefnu í varnar- og öryggismálum sem ég treysti að verði upplýsandi og málefnaleg. Málið snýst um öryggi Íslands og allra Íslendinga.