03 nóv Tempóvandinn og tungumálið
Ég hef verið hugsi yfir viðtali við grunnskólakennara með áratugareynslu sem lýsir undanhaldi íslenskunnar í kennslustofunni. Hnignun málskilnings og orðaforða sem hún hefur fylgst með um árabil. Raunveruleikinn, að hennar mati, er sá að kennarar þurfi að einfalda mál sitt og umorða setningar svo að nemendur skilji þá. Kennarinn telur í viðtalinu að mikilvægt sé að efla hlut foreldra enn frekar til að styrkja málumhverfi barnanna sinna. Það sé mikilvægt að lesa fyrir börnin og útskýra flókin orð, hugtök og nýta samverustundirnar til þess. „Ég myndi aldrei geta lagt fyrir þriðja bekk í dag það sem ég lagði fyrir þriðja bekk árið 2005“ sagði kennarinn í viðtalinu. Við hljótum öll að staldra við og spyrja okkur: Hvernig má það vera? Er þetta vandi foreldranna? Er samfélagsumgjörðin okkar eitthvað skökk? Of mikið stress? Hvað er það sem veldur þessu? Við hljótum að vilja vita svarið.
Ég veit því miður ekki svarið. Mín tilfinning er sú að við búum við ákveðinn tempóvanda í nútímasamfélagi. Takturinn er hraður, kröfurnar eru miklar og heimurinn galopinn. Á okkur dynur áreiti daginn út og inn. Persónulega er ég með stöðugan tékklista sem ómar í höfðinu á mér en tilfinningin er sú að ég næ aldrei yfir þetta allt. En dýrmætustu stundir dagsins eru þær þar sem ég næ að hægja aðeins á tempóinu og það geri ég allra helst þegar börnin mín hjúfra sig í faðminum mínum og ég les fyrir þau bók. Detta inn í ævintýraheim og leggja aðeins umheiminum á meðan. Sonur minn sem er sex ára og forvitinn að eðlisfari er duglegur að spyrja þegar hann skilur ekki flókin orð og við leikum okkur að því að nota þau í daglegu tali næstu daga. Að fara á bókasafnið og sækja nýjar bækur er ævintýraferð. Það var ekki fyrr en ég las viðtalið við kennarann að ég leiddi hugann að því að þetta væru mínar dýrmætustu stundir. Og leiddi hugann að því hvers vegna mér þætti svona vænt um þær. Það er líklega vegna þess að á þessum stundum hefur enginn annar og ekkert annað aðgang að athygli minni. Ég mæli heilshugar með því að við foreldrar gefum okkur þennan tíma. Við eigum hann alveg til. Setjumst niður og lesum með börnunum okkar. Pælum í fyndnum orðum. Búum til skemmtilega leiki og fléttum forvitni barnanna inn í okkar daglega líf. Það er alls ekki eina lausnin hér en hið minnsta ágætt meðal við tempóvandanum.