01 des Ólíðandi staða raforkumála á Vestfjörðum
Í vikunni sló út rafmagni í Mjólkárlínu 1 á Vestfjörðum. Fjórðungurinn framleiðir einungis 50% af þeirri raforku sem þar er notuð og restin er flutt inn á svæðið í gegnum gamla og veikburða línu. Þegar sama lína rofnar slær út eða kemur á hana högg. Þetta var hvorki í fyrsta sinn og líklegast ekki í það síðasta. Þá taka varaaflstöðvar í Bolungarvík og Mjólká við og sjá svæðinu fyrir rafmagni, keyrðar áfram með dísilolíu. Talandi um orkuskipti.
Það að upplifa rafmagnsleysi er óumflýjanlegur hluti af tilveru Vestfirðinga. Það er enginn landsbyggðarrómans yfir því þótt kertaljós geti vissulega verið falleg í skammdeginu. Raunveruleikinn er hins vegar sá að rafmagnsflökt og straumleysi fer afar illa með dýrmæta innviði, raftæki á heimilum sem bila eða eyðileggjast og síðan er það þannig í þessum landshluta að mörg hús eru hituð upp einvörðungu með rafkyndingu. Það þarf ekki frekari skýringar á því hversu brýnt hagsmunamál trygg og stöðug raforka er fyrir fólk á Vestfjörðum.
Staða raforkumála á Vestfjörðum hefur lengi verið til umræðu enda ærið tilefni. Ljóst er að styðja þarf rækilega við uppbyggingu innviða og orkuvinnslu á svæðinu. Það er bæði brýnt hagsmuna- og jafnréttismál að fjórðungurinn njóti sömu grunnþjónustu og aðrir landshlutar. Þar má þungt regluverk ekki koma í veg fyrir að hægt sé að fullnýta þau tækifæri sem eru á hverju strái.
Fyrr í mánuðinum féll dómur er varðar uppbyggingu Hvalárvirkjunar. Áformað er að hefja uppbyggingu í vor, sem er gríðarlega mikilvægt skref. Það er ekki síður brýnt að tryggja að flutningsgetan verði öflugri með bættum línum. Það er ekki nóg að virkja ef ekki er geta til að flytja orkuna. Hér þarf einfaldlega að fjárfesta til framtíðar.
Áratuga vanræksla fyrri ríkisstjórna hefur sett stóran þröskuld fyrir áframhaldandi atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á Vestfjörðum. Tryggar samgöngur eru síðan hin breytan sem öllu máli skiptir.
Þessa kyrrstöðu ætlar ríkisstjórnin að rjúfa. Hún sýnir það í verki með skýrum áformum um slíkt bæði í rammaáætlun og samgönguáætlun. Ríkisstjórnin ætlar að fjármagna verkin, einfalda regluverk og forgangsraða ríkisfjármálunum í þágu innviðauppbyggingar. Það er skýrt.
Með traustu orkuöryggi, öruggum vegum og sterkum fjarskiptainnviðum eru allir vegir færir á Vestfjörðum. Vestfirðingar geta vel séð um rest, það þykist ég vita. En það er með öllu óþolandi hvernig tafaleikir hafa hindrað uppbyggingu um árabil. Það er komið gott af tali um vandamálin og tími aðgerða er runninn upp. Svo einfalt er það.