Að verja fullveldið

Þegar Ísland hlaut fullveldi fyrir 107 árum vorum við ein fátækasta þjóð í Evrópu. Við vorum einangruð, okkur skorti aðgengi að umheiminum og höfðum fá tækifæri til að leysa úr læðingi þann sköpunarkraft, seiglu og framsýni sem er okkur svo eðlislæg. Fullveldið, og síðar lýðveldisstofnun árið 1944, voru sannarlega veigamiklir þættir í þeim umbreytingum sem samfélagið okkar hefur gengið í gegnum á síðustu öld. Sjálfbær nýting auðlinda, hugvit og tækniframfarir lögðu síðan sterkan grunn að þeim lífsgæðum sem við búum við í dag. En það er alþjóðlegt samstarf sem margfaldaði árangurinn. Sæti Íslands við borðið, hvort sem það hefur verið hjá Atlantshafsbandalaginu eða EFTA, hefur styrkt fullveldi Íslands. Jafnframt hefur þátttaka í viðskiptasamningum á borð við EES-samninginn opnað aðgengi íslenskra fyrirtækja að stærri mörkuðum, auknum tækifærum og meiri stöðugleika. Okkur varð kleift að stækka kökuna í stað þess að deila henni í sífellt minni sneiðar. Þessi blanda innlendra styrkleika og alþjóðlegrar samvinnu er í raun kjarninn í því fullveldi sem við fögnum í dag.

Fullveldi Íslands hvílir ekki á einangrun heldur á getu okkar til að skapa verðmæti, standa vörð um hagsmuni þjóðarinnar og eiga í öflugum samskiptum við aðrar frjálsar og líkt þenkjandi þjóðir. Í dag birtist fullveldið í því hvernig við bregðumst við hraðri tækniþróun, alþjóðlegum óstöðugleika og þeirri áskorun að tryggja lífsgæði framtíðarkynslóða.

Ísland hefur á síðustu árum byggt upp fjölbreytt og kröftugt atvinnulíf þar sem vaxtartækifærin eru víða. Ferðaþjónustan hefur tekið stórt stökk fram á við, gæðin aukist og verðmætasköpunin einnig. Ábyrgt lagareldi, líftækni og gagnaver eru dæmi um greinar sem gætu orðið næstu meginstoðir íslensks atvinnulífs og skapað störf um allt land. Skapandi greinar og hugverkaiðnaðurinn hafa fært Ísland á heimskortið og búið til verðmæt og mikilvæg störf. En til þess að við getum nýtt þessi tækifæri og styrkleika þurfum við aðgengi, ekki einangrun. Við þurfum sæti við borðið. Þótt okkur líki ekki allt sem er á boðstólum, þá verður það alltaf betra en að sitja ein yfir súrmat.

Hraði og fullveldi

Sterkir kraftar í alþjóðakerfinu reyna að grafa undan stöðugleika, alþjóðalögum, frelsi og lýðræðislegri umræðu með því að ýta undir sundrungu og tortryggni. Þetta er hugmyndafræði sem gengur út á skort og lokuð samfélög í stað sköpunar og opins samtals.

Þróun gervigreindar magnar enn hraðann á þessum breytingum. Áhrifin verða gríðarleg á öllum sviðum samfélagsins og það er engin ástæða til annars en að vera vongóð um að þau geti verið jákvæð – til dæmis fyrir opinberra stjórnsýslu, heilbrigðisþjónustu og menntakerfið. En tæknibyltingar sem þessar og hraðinn skapa líka nýjar hættur fyrir þessi sömu kerfi. Og ekki síst fyrir lýðræðislega umræðu og þar með fullveldið og sjálfstæðið.

Stórþjóðir keyra þessar breytingar áfram, nánast án siðferðilegra og tæknilegra takmarkana. Það er raunveruleg áskorun sem við verðum að takast á við í nánu samstarfi við aðra. Ellegar verða smáþjóðir undir og þurfa að gera sér að góðu þá brauðmola sem falla. Ef þeir þá á annað borð falla af því stórveldaborði.

Fullveldi Íslands felst ekki lengur í landamærum einum saman heldur í því að þekkja, skilja og verja hagsmuni okkar í flóknu alþjóðakerfi sem breytist á áður óþekktum hraða í átt að aukinni einangrunarhyggju og sérhagsmunagæslu.

Fullveldi byggist á samstarfi, ekki einangrun

Þess vegna skiptir mestu máli að Ísland standi við hlið vinaþjóða sinna. Við eigum djúp og sterk tengsl við Norðurlöndin og aðildarríki Atlantshafsbandalagsins. Mikilvægar grunnstoðir EES-samningsins og samstarf honum tengt þarf að rækta sem aldrei fyrr. Á tímum vaxandi óvissu þarf rödd Íslands að vera skýr og aðgerðir okkar hnitmiðaðar.

Það er ekki síst þess vegna sem samtöl, fundir og hagsmunagæsla hafa verið sérstaklega mikilvæg síðustu mánuði. Ég hef tekið þátt í ótal fundum á vegum samstarfsríkja okkar og tek það hlutverk af mikilli alvöru að standa vörð um íslenska hagsmuni í hvívetna. Síðar í vikunni tek ég þátt í utanríkisráðherrafundi NATO, þar sem ég tryggi að rödd Íslands heyrist hátt og skýrt. Rödd sem alltaf talar af virðingu fyrir alþjóðalögum, frelsi, friði og mannréttindum.

Fullveldisdeginum sjálfum ver ég þó í Madríd þar sem ég mun opna sendiráð Íslands á Spáni í dag. Það er mikilvægt skref til að efla bæði þjónustu við íslenska borgara og hagsmunagæslu íslenskra fyrirtækja. Um það sammæltust allir flokkar á síðasta kjörtímabili.

Þúsundir Íslendinga dvelja árlega á Spáni og íslensk fyrirtæki sækja inn á spænska markaði, m.a. í sjávarútvegi, hugverkum og tækni. Fyrir utan að löndin tvö eru náin samstarfsríki á sviði öryggis- og varnarmála. Það er ekki síður hluti af fullveldinu að standa vörð um þau gildi sem við trúum á og styðja þjóðir sem deila þeim með okkur. Þannig byggjum við upp til framtíðar.

Fullveldi framtíðarinnar: Sköpun, frelsi og réttlæti

Fullveldi Íslands er eilífðarverkefni sem þarf stöðugt að sinna og verja. Það er undir okkur komið að halda áfram að skapa samfélag sem er opið og frjálslynt en á sama tíma öruggt og réttlátt. Svo hægt sé að skapa störf sem byggjast á hugviti, þekkingu, sköpun og sjálfbærni. Það er einmitt þannig sem við tryggjum að framtíðarkynslóðir eigi ekki bara nóg, heldur haldi áfram að vaxa. Skipting gæða er ekki leikur þar sem einn vinnur og annar tapar. Saga okkar er lifandi dæmi um að svo er ekki. Alþjóðasamstarf í bland við innlenda krafta er það sem mun tryggja fullveldi Íslands næstu hundrað árin og um alla framtíð.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. desember 2025