04 des Munurinn á aðildarþjóð og „lobbý-þjóð“
Líklegt er að verndaraðgerðir Evrópusambandsins í þágu járnblendiframleiðslu í þremur aðildarlöndum hafa aðeins verið forleikur að því sem vænta má á næstu árum í viðbrögðum þjóða á ólíkum markaðssvæðum við tollastríði Bandaríkjanna.
Umræðan hér heima og í Noregi varð æsileg. Ekki síst í ljósi þess að útfærslan styrkti stöðu íslenskra og norskra fyrirtækja á Evrópumarkaðnum. En nú hefur loftið lekið úr æsingablöðrunni.
Hvað svo? Forleik fylgir jafnan eftirleikur. Hver á hann að vera?
Forleikurinn
Það lýsir vel hversu pólitískir æsingar geta hlaupið með fólk í gönur að Miðflokknum tókst að draga þingmenn sjálfstæðisfólks til þess að ræða hefndaraðgerðir gegn Evrópusambandinu á sama plani og Rauði flokkurinn í Noregi.
Flestum varð samstundis ljóst að slíkar æsingaaðgerðir myndu tefla EES-samningunum í tvísýnu og bara koma Íslandi og Noregi í koll. Atvinnulíf beggja landa varaði sterklega við þeirri pólitísku stefnubreytingu, sem í þessum æsingaboðskap fólst.
Þingmenn Miðflokksins og Rauða flokksins í Noregi sitja fastir við sinn keip. En þingmenn sjálfstæðisfólks hafa snúið við blaðinu. Æsingaumræðan strandsigldi. Nú má ekkert gera sem veikt geti EES-samninginn.
95% aðild í stað 13%
Í mörg ár hafa þingmenn sjálfstæðisfólks sagt að EES-samningurinn fæli aðeins í sér 13% aðild að Evrópusambandinu og það væri andstætt íslenskum hagsmunum að tengjast öllum 87% sem eftir eru.
Nýr formaður sneri þessari kenningu við í fullveldisgrein á Vísi 1. desember. Þar segir að EES-samningurinn feli í sér 95% aðild og aðeins 5% séu andstæð íslenskum hagsmunum. Þótt niðurstaðan um fulla aðild sé sú sama er þetta allt annað og málefnalegra umræðuplan.
Verndaraðgerðir Evrópusambandsins voru einar og sér of litlar í sniðum til þess að draga mætti af þeim almennar ályktanir um stöðu Íslands og Noregs til lengri tíma.
Æsingaviðbrögð allra stjórnarandstöðuflokkanna hér heima og minnihluta stjórnarandstöðunnar í Noregi gefa aftur á móti tilefni til að ræða Evrópusamstarfið í ljósi þeirrar nýju heimsmyndar, sem við blasir.
Nýtt mat þingmanna sjálfstæðisfólks á umfangi Evrópusamstarfsins minnkar líka bilið sem þarf að brúa.
Viðvaranir raungerast
Langt er síðan ýmsir fóru að ræða að EES-samningurinn gæti reynst ófullnægjandi umgjörð til lengdar. Halldór Ásgrímsson vakti athygli á þessu þegar í utanríkisráðherratíð sinni.
Sérfræðingar bæði í Evrópu og Bandaríkjunum hafa í langan tíma bent á að áhrifin af Brexit, Ameríku fyrst stefnu Bandaríkjanna og stríðsrekstri Pútíns gætu kallað á endurmat á ýmsum sviðum alþjóðamála og hvernig þjóðir tryggðu hagsmuni sína.
Segja má að þessar skrifborðsviðvaranir hafi fyrst raungerst gagnvart okkur í járnblendi varnaraðgerðum Evrópusambandsins.
Allur þunginn í starfi forsætisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins hefur í nær heilt ár snúist um að verjast í þessu litla máli. Munurinn á því að vera „lobbý-þjóð“ og aðildarþjóð hefur verið mjög skýr.
Eftirleikurinn
Í eftirleik þessara umræðna þurfum við að gæta vel að tveimur atriðum:
Annars vegar hættunni af því að varnarviðbrögð við tollastríði Bandaríkjanna verði algengari á flestum markaðssvæðum heimsins á næstu árum. Hins vegar að erlendir fjárfestar treysti ekki EES-samningnum eins og áður.
Það er auðveldara að standa utan tollabandalags á tímum lækkandi tolla en í tollastríði.
Kalt mat á þessum aðstæðum er líklegt til að sýna að í breyttum heimi sé hagsmunum okkar betur borgið sem aðilar að öflugasta tollabandalagi heimsins fremur en að vera „lobbýistar“ í anddyri þess.