Ábyrg stefna eða upphrópanir í útlendingamálum?

Frá því að ný ríkisstjórn var mynduð fyrir tæpu ári síðan hefur margt gott gerst í útlendingamálum. Stjórnvöld gangast við því að úrbóta sé þörf innan kerfisins. Stefnan er skýr um að samræma reglur við nágrannaríki okkar. Það er heljarinnar verkefni og er komið vel á veg. Fimm frumvörp um útlendingamál eru nú á þingmálaskrá.

Eitt af mínum fyrstu verkefnum í embætti var að rýna dvalarleyfiskerfið. Skýrslan Ísland í örum vexti var nýlega kynnt og þar er m.a. bent á 25 dæmi um misræmi í löggjöf okkar um dvalarleyfi og framkvæmd okkar við Norðurlöndin. Allt eru þetta atriði sem verður tekið á í frumvörpum.

Flóknar reglur í nýju borðspili

Það er meira spennandi fyrir einhverja að tala bara um hælisleitendur sem stórfelldan vanda frekar en að ræða almennar brotalamir í dvalarleyfiskerfinu. Ástæðan er m.a. sú að kerfið er býsna ruglingslegt. Margar tegundir dvalarleyfa eru fyrir hendi og umræðan fer fljótlega að hljóma eins og upplestur á flóknum reglum í nýju borðspili.

Nálgun Viðreisnar og ríkisstjórnarinnar er ábyrg og í takt við Norðurlöndin. Dvalarleyfiskerfið á ekki að vera frumskógur með ýmsum glufum fyrir fólksflutninga á fölskum forsendum. Á sama tíma verður það að vera aðgengilegt fyrir mikilvæga starfskrafta til þess að halda uppi góðu atvinnulífi hérlendis. Ég nefni heilbrigðiskerfið, tækni- og nýsköpunarfyrirtæki og ferðaþjónustuna.

Flæði vinnuafls er mikilvægt fyrir öll samfélög. Íslendingar leita erlendis í nám og vinna. Útlendingar koma til Íslands í sömu erindagjörðum. Lokuð landamæri myndu einfaldlega lama íslenskt atvinnulíf.

Svarið felst í að marka skynsamlega stefnu sem tryggir velferð íbúa landsins til skemmri tíma – en ekki síður til framtíðar.

Upphrópanir og meintar töfralausnir skila engu

Ég geld varhug við þeim sem aðeins geta talað um alþjóðlega vernd þegar talið berst að útlendingum á Íslandi. Umræða sem einkennist oft af upphrópunum frekar en lausnum.

Það er óábyrgt að kasta fram fullyrðingum eins og að réttast væri að loka landinu og gera fimm ára hlé á móttöku flóttafólks. Það er umbúðapólitík en ekki raunhæf leið.

Hins vegar þarf að tryggja örugga landamæravörslu og kröftugar aðgerðir til að sporna gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Þar er alþjóðlegt samstarf algjört lykilatriði sem og efling lögreglunnar. Ríkisstjórnin er einmitt að gera það.
Á fyrsta ári ríkisstjórnarinnar höfum við markað ábyrga stefnu í málaflokki sem alltof lengi hefur verið án allrar stefnu. Á árunum 2017-2024 fjölgaði íbúum Íslands fimmtánfalt á við Evrópumeðaltal og næstum fjórfalt á við hin Norðurlöndin. Auðvitað skapar það togstreitu.

Stefna í grundvallarmálum verður að vera skýr og verður einnig að standast tímans tönn. Stefna í grundvallarmálum á ekki að mótast eftir því hvernig vindar blása.

Greinin birtist fyrst á Eyjunni 5. desember 2025