Um málefni útlendinga

Allt frá árinu 2014 þegar straumur flóttafólks til Evrópu jókst mikið hafði hann samsvarandi áhrif hér á landi, einkum frá 2015. Hámarki náðu umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi 2022 og 2023 en töluvert hefur dregið úr umsóknum síðan. Íslenskt regluverk hefur tekið breytingum á þessu árabili en núverandi lög um útlendinga eru frá 2016 með breytingum. Í lögunum hefur verið að finna ákvæði sem stundum hefur verið vísað til sem séríslenskra auk þess sem vantað hefur löggjöf um tiltekin úrræði sem er að finna í regluverki annarra þjóða. Það hefur ekki gefist vel að hafa hér á landi reglur sem eru frábrugðnar reglum nágrannaþjóða okkar og er þá einkum horft til Norðurlandanna.

Dómsmálaráðherra hefur lagt fram og boðað framlagningu nokkurra lagafrumvarpa til að koma regluverki um málefni útlendinga hér á landi í það horf að það sé sambærilegt regluverki nágrannaþjóða okkar.

Í frumvörpunum fjórum sem varða breytingar á lögum um útlendinga er m.a. að finna ákvæði sem heimila að alþjóðleg vernd verði afturkölluð og afnumin verður svokölluð 18 mánaða regla. Lagt er til að atvinnu- og dvalarleyfi verði felld í feril sem verður til hagsbóta fyrir umsækjendur og stjórnsýslu, aðgengi námsmanna að vinnumarkaði endurskoðað, skerpt á skilyrðum þeirra til atvinnuþátttöku og gerð verður breyting á heimild til fjölskyldusameiningar fyrir aðstandendur námsmanna. Gerðar verða nauðsynlegar breytingar á lögum um útlendinga vegna innleiðingar á Schengen-skuldbindingum Íslands í tengslum við breytingar á lögum Evrópusambandsins 2026. Innleiða þarf nýja reglugerð sem kemur í stað Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá verða lagðar til úrbætur á dvalarleyfiskafla laga um útlendinga til samræmingar við löggjöf á Norðurlöndum.

Í frumvarpi til laga um brottfararstöð er lagt til að heimilt verði að vista útlending á brottfararstöð í þeim tilvikum þegar tryggja þarf að viðkomandi sé til staðar vegna ákvörðunar um að hann skuli yfirgefa landið og mun þá ekki þurfa að úrskurða útlending í gæsluvarðhald til að tryggja návist hans.

Verði þessi frumvörp að lögum verður regluverk um málefni útlendinga, er lýtur að umsókn um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi, skýrari og þar með sanngjarnari en nú er. Umsækjendur munu geta gert sér betur grein fyrir hvernig regluverkið virkar en nú er og þau réttindi og skyldur sem þar er að finna og eiga við um umsækjendur. Séríslenskar reglur sem brotahópar nýta sér verði fáar sem engar. Á sama tíma mun vonandi verða meiri sátt í samfélaginu um þau mál sem við í daglegu tali köllum útlendingamál.