Trump, Grænland og Miðflokkurinn

Það er dapurt að fylgjast með hvernig Donald Trump og hans helstu meðreiðarsveinar tala um Grænland þessa dagana. Yfirlýsingar forsetans um að nauðsynlegt sé fyrir Bandaríkin að taka yfir Grænland með einhverjum hætti eru mikið áhyggjuefni. Ekki bara fyrir Grænlendinga eða Dani heldur líka okkur Íslendinga og reyndar öll ríkin sem eru í NATO. Rök Bandaríkjaforseta um að lega Grænlands skipti miklu fyrir öryggi Bandaríkjanna eiga nefnilega líka við um Ísland. Hingað til hafa forsetar vestanhafs tryggt öryggishagsmuni Bandaríkjanna með þéttu og öflugu samstarfi við vinaþjóðir, ekki síst í NATO. Það hefur gefist vel. Sá sem nú situr í Hvíta húsinu gengur lengra og útilokar ekki beitingu hervalds til að taka yfir Grænland. Afleiðingarnar af slíku fyrir okkar heimshluta yrðu geigvænlegar enda hafa ríki Evrópu og Norður-Ameríku hingað til viljað standa saman.

Eðlilega hafa leiðtogar á Íslandi og í Evrópu stigið með afgerandi hætti inn í þessa umræðu og sagt þetta ekki koma til greina. Það er Grænlendinga að ákveða sína framtíð, ekki Hvíta hússins. Það ætti að vera einstaklega auðvelt fyrir okkur Íslendinga að taka þessa sjálfsögðu afstöðu. Við erum lítil þjóð á eyju sem er hernaðarlega mikilvæg rétt eins og Grænlendingar eru lítil þjóð á eyju sem er hernaðarlega mikilvæg. Og reyndar er varla armslengd á milli þessara eyja. Við myndum ekki kæra okkur um svona gáleysistal um Ísland. Litlar þjóðir eiga auðvitað rétt á að talað sé um þær af virðingu af stórum vinaþjóðum frekar en að litið sé á lönd þeirra sem þúfur fyrir hergögn og vilji íbúanna skipti engu.

Í þessu ljósi hefur verið áhugavert að fylgjast með sumum Miðflokksmönnum bregðast við þessu. Einn þingmaður Miðflokksins sagði í vikunni að það væri skynsamlegt að anda með nefinu varðandi Grænland, rétt eins og hótanir um yfirtöku, jafnvel með hervaldi, séu eitthvert smámál sem kalli ekki á fordæmingu. Grænlendingar anda ekkert rólega með nefinu yfir þessu gáleysistali Trumps heldur bíða á milli vonar og ótta. Oddviti Miðflokksins í Mosfellsbæ gekk lengra og lýsti yfir stuðningi við þá hugmynd að Grænland yrði einhvers konar skiptimynt í hernaði, þvert á vilja Grænlendinga. Það er þó bót í máli að formaður flokksins tók skynsamlegri pól í hæðina en eftir situr sú óþægilega tilfinning að landvinningastefna Trumps eigi sér talsverðan stuðning í Miðflokknum. Tal Trumps um yfirtöku á Grænlandi, hótanir hans um bein afskipti af stjórnmálum í Evrópuríkjum og virðingarleysi fyrir lýðræði og mannréttindum gerir hann svo sannarlega ekki að þeim Bandaríkjaforseta sem helst deilir gildum með ríkjum Vestur-Evrópu.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. janúar 2026