Tíma­bært að koma böndum á gjald­skyldu­frum­skóginn

Stöðum þar sem innheimt eru bílastæðagjöld hefur fjölgað ört undanfarin ár. Samhliða hefur þeim fyrirtækjum fjölgað sem bjóða upp á tæknilegar lausnir og þjónustu við gjaldtökuna og á sama tíma höfum við ítrekað heyrt frá neytendum sem kvarta yfir viðskiptaháttum á gjaldskyldum bílastæðum, skorti á upplýsingum, merkingum og handahófskenndri framkvæmd. Við vitum líka að málið hefur verið til mikillar umræðu innan ferðaþjónustunnar þar sem ferðamenn eru neytendur og fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa mörg hver lent í vandræðum vegna gjaldskyldra bílastæða.

Almennt má segja að regluverk sem snýr að gjaldtöku á bílastæðum hér landi hafi ekki fylgt þessari þróun eftir. Við í atvinnuvegaráðuneytinu töldum því ástæðu til að kafa dýpra í málaflokkinn og höfum frá því í haust haft hann til sérstakrar skoðunar, í góðu samstarfi við innviðaráðuneytið og Neytendastofu.

Við höfum fundað með helstu aðilum til að fá fram skýrari mynd á núverandi framkvæmd, kortleggja stöðuna og í framhaldi vinna tillögur til úrbóta út frá aukinni neytendavernd. Vinnan er enn í gangi en á opnum morgunverðarfundi í gær kynnti ég þær aðgerðir sem unnið er að, annars vegar til skemmri og hins vegar til lengri tíma.

Mikilvægi ákvæðis um bann við óhæfilegum samningsskilmálum

Í nóvember mælti ég fyrir frumvarpi til nýrra markaðssetningarlaga. Um er að ræða rammalöggjöf á sviði neytendamála og endurskoðun á lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Í því er að finna ýmis ný ákvæði sem m.a. taka utan um vandann þegar kemur að gjaldskyldu á bílastæðum en hér vil ég sérstaklega nefna ákvæði sem felur í sér skýra heimild fyrir Neytendastofu til að banna notkun samningsskilmála á milli fyrirtækis og viðskiptavinar sem eru taldir óhæfilegir gagnvart neytendum.

Afar mikilvægt er að slík heimild sé til staðar til að rétta af þann aðstöðumun sem kann að vera á milli neytenda og fyrirtækja sem semja skilmála einhliða á sínum forsendum frekar en neytenda. Fyrirséð er að ákvæðið muni nýtast í aðgerðum stjórnvalda þegar kemur að gjaldtöku á bílastæðum, og þá fyrst og fremst Neytendastofu við að fara yfir skilmála fyrirtækja sem sinna slíkri gjaldtöku, og banna skilmála ef þeir eru taldir óhæfilegir gagnvart neytendum. Dæmi um slíkt gæti verið ef vangreiðslugjald er margfalt hærra en fjárhæð upprunalegrar gjaldskyldu eða ef frestir til greiðslu bílastæðagjalds eru óraunhæfir. Frumvarpið er sem stendur í þinglegri meðferð að lokinni fyrstu umræðu og bind ég vonir við að það verði afgreitt fljótlega á komandi vorþingi.

Neytendastofa gefur út leiðbeiningar

Neytendastofa hefur ákveðnar heimildir skv. gildandi regluverki til að bregðast við óréttmætum viðskiptaháttum, m.a. með því að leggja á sektir. Líkt og greint var frá á síðasta ári tók stofnunin ákvarðanir gagnvart fimm fyrirtækjum sem sinna bílastæðaþjónustu við gjaldskyld bílastæði. Komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að þau hefðu brotið gegn neytendalöggjöf með ýmsum hætti.

Til að fylgja eftir þessum ákvörðunum, og í framhaldi af okkar vinnu, mun Neytendastofa í dag gefa út leiðbeiningar fyrir gjaldskyld bílastæði. Í leiðbeiningum koma fram þær kröfur sem Neytendastofa hefur sett fram í fyrri ákvörðunum sínum, auk leiðbeininga um önnur atriði, m.a. hvaða upplýsingar skuli veita og hvernig þær skulu veittar.

Heildstætt regluverk til lengri tíma

Ýmislegt fleira er í farvatninu varðandi tillögur til úrbóta. Í fyrsta lagi er ætlunin að búa til sérstaka heimasíðu þar sem fram kemur, á hverjum tíma, hvar á Íslandi gjaldskyld bílastæði er að finna, óháð því hvort þau eru í opinberri eigu eða einkaeigu, sem og upplýsingar um gjaldskylduna. Í öðru lagi verða gerðar auknar kröfur til innheimtufyrirtækja um að tilkynningar til bifreiðaeigenda um vangreiðslugjald birtist ekki eingöngu í heimabanka viðkomandi, án skýringa. Í þriðja lagi eru síðan í undirbúningi breyting á reglugerð um umferðamerki, sem er á forræði innviðaráðuneytisins, þar sem nánari og ítarlegri umfjöllun verður um P merki bílastæða.

Hvað varðar heildstætt regluverk til lengri tíma þá horfum við til tveggja þátta, annars vegar til innheimtulaga og hins vegar til nýlegrar reglusetningar í Noregi og Danmörku á þessu sviði. Til skoðunar er að sett verði sérstök heildstæð reglugerð hér á landi, að norrænni fyrirmynd, um gjaldskyld bílastæði sem næði jafnt til einkaaðila og opinberra aðila. Slíkt yrði gert í samráði við innviðaráðuneytið þar sem reglugerðin yrði sett á grundvelli umferðarlaga.

Í slíkri reglugerð kæmu fram heildstæðar kröfur til bílastæða og til fyrirtækja sem sjá um gjaldtöku á bílastæðum, þ.e. kröfur um upplýsingagjöf og merkingar, kröfur um fyrirkomulag innheimtu gjalda, kröfur til greiðslukerfa og kröfur um úrlausn ágreiningsefna. Nánari útfærsla á slíkri reglugerð er til frekari vinnslu og skoðunar innan atvinnuvegaráðuneytis, innviðaráðuneyti og Neytendastofu, og frekari tíðinda að vænta á næstunni.

Lærum af reynslu nágrannaþjóða

Öll miðar þessi vinna að bættum réttindum neytenda og skýrara regluverki. Ég tel okkur geta lært mikið af reynslu nágrannaþjóðanna í þessum efnum sem glíma að mörgu leyti við sömu vandamál og við varðandi að ná utan um þá öru þróun sem hefur átt sér stað á þessu sviði, út frá sjónvarhorni neytenda.

Það er sannarlega jákvætt að fram komi íslensk hugbúnaðarfyrirtæki með lausnir og þjónustu varðandi innheimtu bílastæðagjalda og upplýsingagjöf til neytenda, og flytji jafnvel út þá þekkingu og hugvit. Það er aftur á móti mikilvægt að tryggja að slíkt sé gert innan þess ramma sem stjórnvöld setja með lögum, reglugerðum og leiðbeiningum, út frá hagsmunum neytenda. Aðkoma atvinnulífsins að málefninu er því mikilvæg og að sem mest samstaða sé um markmið, tilgang og nauðsyn aðgerðanna.

Greinin birtist fyrst á Vísi 9. janúar 2026