15 jan Öryggi Danmerkur og öryggisleysi Íslands
Umræður hér heima um viðbrögð við umpólun Bandaríkjanna á alþjóðasamfélaginu snúast mest um hervarnir.
Hin hliðin, sem snýr að efnahagslegu öryggi, er miklu minna rædd. Í raun er sú umræða þó brýnni því að ógnin er beinlínis yfirvofandi.
Í Grænlandsmálinu er áhugaverðara að skoða efnahagslegar varnir Danmerkur en hernaðarlegar brotalamir NATO.
Tíminn skiptir máli. Ekki er víst að tækifæri, sem eru opin í dag, verði opin á morgun.
Að hrökkva
Ríkisstjórnin setti í lok árs 2024 tímaramma til 2027 fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna að Evrópusambandinu. Á þeim tíma var áhættan minni. Hún jókst til mikilla muna á síðasta ári.
Þar af leiðir að ríkisstjórnin tæki núna óþarfa og óafsakanlega áhættu ef atkvæðagreiðslan dragist yfir á næsta ár.
Þeir sem eru andvígir því að þjóðin verji efnahagslega hagsmuni sína með því að láta reyna á möguleika á fullri aðild segja sem svo að Ísland eigi ekki að láta hræringar utan landsteinanna hafa áhrif á okkur.
Sósíalistar notuðu þessi rök gegn aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu 1949. Þeir töldu varlegra að hrökkva en stökkva.
Að stökkva
Að því leyti voru aðstæður með svipuðum hætti þá og nú að þjóðir heims stóðu andspænis algjörlega breyttri heimsmynd.
Ísland þurfti á þeim tímapunkti að taka miklu stærri prinsipp ákvörðun en þörf er á í dag.
Ísland fékk boð um að gerast stofnaðili að NATO eftir miðjan mars 1949. Fyrir lok þess mánaðar hafði Alþingi samþykkt aðildina. Ísland yfirgaf hlutleysisstefnuna og gerðist bandalagsþjóð.
Tíminn var knappur. Það var gæfa Íslands að þá voru þeir í minnihluta sem sögðu að við ættum ekki að láta ytri aðstæður þrýsta okkur til að taka ákvarðanir hratt.
Árið 2026 er ákvörðun um að verja efnahagslegt öryggi landsins með fullri aðild að Evrópusambandinu sams konar prófsteinn á stöðumat og framsýni ríkisstjórnarinnar eins og NATO-aðildin var 1949.
Áhættulítil staða verður áhættusöm
Það var áhættulítið fyrir Ísland að fylgja hlutleysisstefnu meðan friður ríkti. Þegar heimsstyrjöldin skall á kom hlutleysið að engu haldi. Eftir stríð sáu flestir að of mikil áhætta fylgdi hlutleysisstefnunni.
Á viðskiptalegum friðartímum þegar flestar þjóðir stefndu að afnámi tolla var að sama skapi áhættulítið fyrir Ísland að standa utan tollabandalags. Það verður hins vegar bæði snúið og áhættusamt þegar öflugasta efnahagsveldi í heimi hverfur frá hugmyndafræði frjálsra viðskipta og fer í tollaheimsstyrjöld.
Sú áhætta eykst með hverjum mánuði sem líður.
Efnahagslegar varnir virka
Bandaríkin hafa ekki árætt að beita tollaskrúfunni til að snúa upp á hendur Dana í Grænlandsmálinu. Ástæðan er sú að þeir eru í skjóli með aðild að tollabandalagi Evrópusambandsins.
Danir eru einnig með samning við Evrópusambandið um að tryggja stöðugleika dönsku krónunnar. Bandaríkin hafa þar af leiðandi ekki treyst sér til að þvinga Dani til undirgefni með því að skapa óróa á markaði með dönsku krónuna.
Þetta eru virkustu tækin sem Bandaríkin og önnur stærri ríki geta beitt gagnvart minni þjóðum í því alheims viðskiptastríði sem nú geysar. Sennilega væri Grænland þegar farið ef Bandaríkin hefðu getað sett Dani í þess konar efnahafsleg skrúfstykki.
Í dag er Ísland varnarlaust gegn slíkum þvingunarmeðulum. Með því að feta í fótspor Dana getum við tryggt okkur sömu efnahagslegu varnir og þeir njóta og Grænlendingar með þeim.