Af hverju ekki?

Von bráðar verður íslenska þjóðin spurð hvort hún vilji ganga að samningaborðinu við Evrópusambandið og fá í hendur samning til synjunar eða samþykkis um aðild að því.

Spurningin um aðild að ESB hefur verið á dagskrá, með mismiklum þunga, í rúma tvo áratugi. Það er því engin nýlunda að fólk skiptist í fylkingar gagnvart afstöðu í þessu máli, sem er ekki í takt við það sem sumir andstæðingar aðildar hafa jafnan haldið fram við ólík tilefni, „að nú megi ekki sundra þjóðinni með Evrópuumræðunni“. Þjóðin er að ræða um aðild að ESB og skoðanir eru skiptar.

Það er heldur ekki rétt að þessar kosningar snúist um hvort Ísland skuli ganga í ESB eða ekki. Þær eru um hvort ljúka skuli viðræðum og fá fram aðildarsamning, sem þjóðin tekur svo aftur afstöðu til í öðrum kosningum. Enda væri í meira lagi undarlegt að spyrja þjóðina tvisvar að því hvort hún hefði hug á að ganga í ESB.

Þá situr eftir spurningin sem andstæðingar þess að Ísland ljúki aðildarviðræðum standa frammi fyrir. Af hverju ekki að spyrja þjóðina hvort hún vilji ljúka aðildarviðræðum?

Af hverju ekki fá fram með hvaða hætti hagsmunum Íslands sé best borgið í samstarfi með öðrum ríkjum? Af hverju ekki að sjá hvort við getum tryggt öryggi okkar enn betur með aðild að ESB? Af hverju að athuga ekki hvort við getum samræmt okkar auðlindanýtingu aðild að ESB? Af hverju megum við ekki fá fram hvort við getum enn betur stutt við íslenskan landbúnað með aðild að ESB? Af hverju ekki að sjá hvort tækifæri séu til að efla íslenska tungu með aðild að ESB?

Umfram allt, af hverju í ósköpunum óttast andstæðingar ESB að greidd séu atkvæði um áframhald viðræðna? Finnst þeim umræðan bara yfirhöfuð svona óþægileg? Óttast þeir það að aðildarsamningur myndi hreinlega vera afar fýsilegur?

Mann grunar orðið hreinlega að það sem andstæðingar aðildar óttist umfram allt sé að þeir vilji einmitt alls ekki komast að niðurstöðu í umræðunni um áframhald aðildarviðræðna við ESB. Þvælingur og rangfærslur um ESB eru helsta pólitíska erindi margra stjórnarandstæðinga, erindi sem hyrfi á sama tíma og umræðan.

Á endanum er þetta einfalt. Á þjóðin að fá síðasta orðið í spurningunni um áframhald viðræðna? Ef einhver telur að það sé ekki rétt leið að niðurstöðu í málinu, þá hlýtur viðkomandi að þurfa að svara spurningunni … af hverju ekki?

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. janúar 2026