Inngangur

 

Við í Viðreisn byggjum stefnu okkar á frjálslyndi og víðsýni og leggjum höfuðáherslu á að öllum líði vel í bænum okkar. Almannahagsmunir framar sérhagsmunum eru okkar einkunnarorð. Við leggjum ennfremur áherslu á ábyrga stjórnunarhætti og ábyrga fjármálastjórn, en það er forsenda þess að fjármunir bæjarins (okkar allra) nýtist sem best til góðra verkefna. Eftirfarandi eru stefnumál okkar í helstu málaflokkum.

Samgöngur – Vistvæn til framtíðar

 

Við hjá Viðreisn erum leiðandi afl í umhverfisvænum samgöngum og styðjum aðferðafræði Borgarlinunar. Við viljum skoða samgöngur heildstætt í tengslum við uppbyggingu húsnæðis. 

 

Til að hvetja til bíllauss lífstíl viljum við skoða aðrar leiðir með Strætó og teljum að hægt sé ná meiri hagkvæmni í rekstri fyrirtækisins. Við sjáum fyrir okkur hraðferðarvagn frá bænum til borgarinnar. Við viljum útfæra notkun lítilla vagna sem keyra innanbæjar um Hafnarfjörð. Við viljum að skipulag bæjarins sé barnvænt og alltaf sé tryggt öryggi barna á leið í og úr skólum/tómstundum. Hverfi bæjarins eiga að vera byggð í kring um grunnþjónustuna og því viljum við sjá fleiri hverfi sem byggjast í kring um skólana sem lágmarka gönguleiðir barna yfir fjölfarnar götur.

 

Við erum ekki að fara að útrýma einkabílnum, en við viljum að hann gangi fyrir vistvænu eldsneyti. Við viljum því auka aðgengi að hleðslustöðvum og laga það sem hægt er að laga í gatnakerfinu.

 

Mörg verkefni eru brýn en við teljum að þar tróni Reykjanesbrautin efst. Aðstæður við Reykjanesbrautina frá N1 við Lækjargötu og að Kaplakrika eru ekki boðlegar og skera fallega bæinn okkar í sundur. Þar þarf að skoða aðrar lausnir en þær sem bornar hafa verið upp, til að mynda ljósastýringu. Við teljum farsælast að setja hana í stokk. Þannig verður til byggingarland á mjög góðum stað og hægt er að sameina bæinn aftur.      

 

Reykjanesbrautina í stokk: Við viljum fá Reykjanesbrautina í stokk sem fyrst. Framkvæmdarhluti Hafnarfjarðar verður fjármagnaður með sölu lóða á byggingarlandinu sem verður til í staðinn.

 

Hjólabærinn Hafnarfjörður: Við viljum auka aðgengi hjólafólks í bænum með því að fylgja eftir og efla hjólreiðaáætlun Hafnarfjarðar. Við viljum margfalda fjármagn í að stækka og fjölga reiðhjólastígum 

 

Öflugri samgöngur: Með tilkomu Tækniskólans, flutningi fyrirtækja og stofnana til bæjarins og uppbyggingu Flensborgarhafnar, eykst þörf á öflugum almenningssamgöngum til muna. Það kallar á að við flýtum Borgarlínunni.

 

Næstu kynslóðar samgöngur: Aukin notkun ungmenna á almenningssamgöngum leiðir af sér aukin lífsgæði fyrir alla; minna skutl, minni mengun og minni umferð. Við viljum að Hafnarfjörður berjist fyrir því innan Strætó að frítt verði í vagnana fyrir öll börn til 18 ára aldurs. 

 

Vistvænt eldsneyti: Aðgengi að hleðslustöðvum fyrir rafbíla verði stóraukið.

 

Greiðum götuna: Malbikunarviðgerðum verði forgangsraðað og farið í átak í að laga skemmdir til að koma í veg fyrir eignatjón. Ljósastýringar verði bættar.

Húsnæðis og skipulagsmál – Byggjum blómlegan bæ

 

Í frjálslyndu samfélagi þarf fólk að hafa raunhæfa valkosti um hvar það býr sér heimili. Með því að auka tækifæri allra til þess að skapa sér bústað og atvinnu er stuðlað að sjálfbærri þróun Hafnarfjarðarbæjar. Styrkja þarf helstu innviði, auka þjónustu við bæjarbúa og halda áfram að styrkja bæjarbrag Hafnarfjarðar. Öflugir innviðir munu gera bænum kleift að laða til sín íbúa og fyrirtæki. 

 

Við viljum halda áfram að vera sjávarþorp á miðju höfuðborgarsvæðinu, ekki enn eitt úthverfið. Við  viljum skapa bæ sem er fjölbreyttur, grænn og skilvirkur. Við eigum að halda á lofti merkri sögu bæjarins með viðhaldi á minjum víða um bæ og setja upp upplýsingaskilti um sögu þeirra. 

 

Við viljum styðja við ungt fólk sem er að koma sér inn á leigu- eða fasteignamarkaðinn. Það þarf átak í því að byggja íbúðir fyrir fyrstu kaupendur og leigjendur. Það verða að vera raunhæfir kostir varðandi húsnæði í bænum. Við munum stuðla að fjölbreyttara lóðaframboði fyrir alla, bæði íbúa og atvinnurekstur.

 

Við viljum að öll hverfi bæjarins verði styrkt, bæði eldri hverfi og ný. Það verði markmið að byggja upp þjónustukjarna nær fólkinu, með því helsta sem bæjarbúar þurfa í hverju hverfi. Við munum berjast fyrir því að koma heilsugæslu á Vellina/Skarðshlíðina. 

 

Hafnarfjörður á fjölmarga áhugaverða staði sem hægt er að byggja upp sem fjölskyldusvæði og má þar nefna sérstaklega Óla Run tún og fleiri svæði þar sem fjölskyldan getur komið saman til skemmtunar og heilsueflingar. Það eru lífsgæði.  Ekki má svo gleyma besta vini mannsins sem þarf sín svæði einnig.

 

Sjávarþorpið Hafnarfjörður – góð tenging við sjóinn! Hafnarfjörður verði bær áfram en ekki úthverfi. Þegar við erum að stækka og fjölga húsnæði þá sé alltaf markmið að halda bæjarmyndinni, leyfa okkur að halda áfram að vera sjávarþorp með þeim sjarma sem því fylgir.

 

Lífsgæði bæjarbúa, virðing fyrir náttúru og menningu er okkur mikilvæg þegar kemur að umhverfis- og skipulagsmálum.

 

Fjölbreyttara húsnæðisframboð: Í dag reynist það ungu fólki eða öðrum sem eru föst á leigumarkaðnum erfitt að komast af stað í að fjárfesta í heimili. Við teljum mikilvægt að Hafnarfjörður haldi áfram að fjölga fjölbreyttum kosti húsnæðis með ýmsu móti. 

 

Við getum boðið upp á fjölbreyttari valkosti við búsetu. Fleiri óhagnaðardrifnar leiguíbúðir

 

Aukna þjónustu við Vellina/Skarðshlíðina, m.a. með því að koma á samningi um heilsugæslu í því hverfi. 

 

Horft sé til framtíðar í skipulagsmálum bæjarins. Það þarf langtímasýn, með lífsgæði að leiðarljósi. Kortleggja þarf framboð húsnæðis næstu 10 ár.

 

Athuga þarf hagkvæmni uppbyggingar strax við gerð rammaskipulags. Ef hagkvæmniathugun er gerð í upphafi er minni hætta á kúvendingum síðar í ferlinu. Viðamikil frávik frá rammaskipulagi geta leitt til mikils óhagræðis fyrir bæinn þegar innviðir sem áætlaðir voru í upphafi bera ekki aukið byggingarmagn. Þegar búið er að skipuleggja aðlaðandi og vistvæn hverfi í rammaskipulagi, þá á ekki að fórna hugmyndinni fyrir sérhagsmuni einstakra byggingaraðila.

 

Skýra skilmála þarf við lóðaúthlutun, um eðlilegan framkvæmdahraða að viðlagðri afturköllun.

 

Áður en við byggjum ný hverfi eða stækkum eldri hverfi þá styrkjum við innviði hverfanna. Það þarf að vera stutt í þjónustu innan hvers hverfis. 

 

Hafnarfjarðarbær styðji við og styrki húseigendur sem vilja kynna sögu húsa sinna með skiltum fyrir framan húsin. 

 

Þegar hverfi eru skipulögð þá verði skoðað hvernig samgöngum verði háttað þar, hjólastígar, göngustígar og aðgengi allra.

 

Eðlileg þétting byggðar verði í forgangi í stað þess að einblína á útþenslu.

Atvinnutækifæri

 

Undanfarin ár hefur orðið mikil uppbygging í veitingaþjónustu og menningarlífi í bænum. Við viljum halda áfram að byggja upp menningarlíf bæjarins og horfum sérstaklega til Flensborgarhafnar og Vallahverfisins í þeim efnum. Horfum til framtíðar og vinnum að vettvangi fyrir frumkvöðla og nýsköpun í bænum. Nú þegar er reynsla af Lífsgæðasetrinu sem hefur margsýnt sig og sett Hafnarfjörð í algjöra sérstöðu. Þetta getum við líka gert með Þekkingarsetri. 

 

Þekkingarsetur í Hafnarfjörð: Við ætlum að opna þekkingarsetur fyrir frumkvöðla og aðra í nýsköpun til að geta vaxið og dafnað, til að mynda í iðn- og tæknigreinum í samstarfi við Tækniskólann við Flensborgarhöfn.

 

Einn stærsti vinnustaður bæjarins er Hafnarfjarðarbær, við viljum að Hafnarfjarðarbær sé eftirsóttur vinnustaður. Þar sem þörfum starfsfólks er mætt, samtal  virt og bærinn verði samkeppnishæfur þegar kemur að kaupum og kjörum. 

 

Öflugra markaðsstarf: Við viljum endurskipuleggja markaðsstarf Hafnarfjarðar og vinna að því af krafti að fá öflug fyrirtæki til bæjarins. 

 

Menningarhús í Hafnarfjörð: Við viljum efla menningar- og listalíf bæjarins með því að Hafnarfjörður komi sér upp menningarhúsi, sem nýtist til að mynda Tónlistarskólanum, Gaflaraleikhúsinu og fleira listafólki. 

Fjörugan fjörð

 

Við megum ekki gleyma því að hafa gaman! Hafnarfjörður er staðsettur í miðri útivistarparadís þar sem stutt er í ýmsa afþreyingu. Við viljum styrkja útivistarsvæði og fjölga þeim til muna þannig að sem flestir geta fundið afþreyingu við sitt hæfi í fallegustu náttúruperlu landsins. Við viljum góða hjólastíga í náttúrunni. Bæta þarf skil á milli gönguleiða og hestaleiða svo eitthvað sé nefnt. Við viljum að allir fái pláss til þess að stunda sína útivist og að ekki komi upp árekstrar. Við viljum gera vel við hundana okkar og taka tillit til gæludýraeigenda við skipulag útivistarsvæða. Hafnarfjörður á fjölmarga áhugaverða staði sem hægt er að byggja upp sem fjölskyldusvæði og má þar nefna sérstaklega Óla Run tún þar sem allir geta komið saman til skemmtunar og heilsueflingar. Það eru lífsgæði. 

     

Skipuleggjum skemmtilegan miðbæ (heildstætt)

 

Betri stígar fyrir alla

 

Gerum fleiri og betri græn svæði

 

Körfubolti á braggagrunnana í Norðurbæ

 

Setjum glervegg á sundhöllina – sjávarútsýni úr pottunum og góða tengingu við sjósund

 

Fjölgum ruslatunnum við göngustíga

 

Lengjum opnunartíma Sundlauga. 

Snjallvæðing og aukið samtal

 

Snjallvæðing bæjarins getur hjálpað okkur á svo marga vegu. Rafrænar lausnir geta auðveldað bæjarbúum lífið, þær geta auðveldað bænum að veita góða þjónustu, sparað útgjöld og gert samtal  íbúa við bæinn sinn einfaldara. 

 

Einstaklingsmiðað þjónustukerfi bæjarins. Við viljum að notendur séu hafðir með í ráðum við uppsetningu á aðgengilegu efni. 

 

Endurskoða heimasíður bæjarins með það að leiðarljósi að hún sé aðgengileg fyrir alla, að  alltaf sé notast við auðlesið efni og myndefni sé þess kostur.

 

Hafnarfjarðar-app, snjallforrit sem myndi einfalda boðleiðir og bæta upplýsingaflæði

 

Rafræn stjórnsýsla bætir aðgengi að þjónustu og skapar tækifæri til hagræðingar og framleiðniaukningar í opinberum rekstri.

 

Einfaldari ferla í skipulagsmálum, meira gagnsæi, einfaldari ramma fyrir minniháttar breytinga einstaklinga og fyrirtækja eigenda á lóðum og húsnæðum. 

 

Betri Hafnarfjörður (kosið verði um hverfisbundin verkefni sem verða fjármögnuð)

 

Eiga samtal við nágrannasveitarfélög um tengingar á milli bæjarfélaga, tengingar í málefnum sem þvera sveitarfélög. 

Umhverfið okkar

 

Lífsgæði eru okkur hugleikinn og því viljum við efla þau eins vel og við getum hvort sem það er í leik eða starfi. Loftgæði eru lífsgæði og er mikilvægur þáttur í okkar daglega lífi. Umferðarþungi hefur áhrif á loftgæði bæjarbúa. Til að auka loftgæði í bænum okkar og til að draga úr svifryksmengun, þarf að hreinsa götur reglulega. Við teljum það vera forgangsmál að auka þrif á götum og gangstéttum bæjarins og meti þörf út frá tíðarfari hverju sinni. Þörf er á góðum loftgæðamælingum í öllum hlutum bæjarins. Þá viljum við horfa til umhverfisvænni leiða þegar kemur að malbikunarframkvæmdum og skoða slíkar framkvæmdir í samstarfi við önnur sveitarfélög á stór höfuðborgarsvæðinu og við Vegagerðina. Við viljum skoða hvort ekki sé hægt að auka endurnýtingar hlutfallið úr 30% í allt að 50%.

 

Grænu svæðin í bænum þarf að fullmóta og koma því í framkvæmd sem allra fyrst. Við viljum gera þau aðgengilegri og meira aðlaðandi svo þau nýtist bæjarbúum betur og gera þau fjölskylduvænni.

 

Náttúran í kring um bæinn er verðmæt auðlind sem á að vernda eins og kostur er og má þar sérstaklega nefna Krýsuvík og hraunið þar í kring.

 

Við í Viðreisn viljum skapa bæ sem er fjölbreyttur, grænn og skilvirkur. Lífsgæði bæjarbúa og virðing fyrir náttúru og menningu er okkur mikilvæg þegar kemur að umhverfis- og skipulagsmálum

 

Setjum okkur skýr markmið í umhverfis- og loftslagsmálum

 

Aukum vistvænar samgöngur

 

Gerum hjólreiðaáætlun

 

Bætum almenningasamgöngur

 

Fjölgum opnum grænum svæðum

 

Fjölgum hjólastígum í Hafnarfirði verulega og aukum gæði þeirra

 

Eigum samtal við nágrannasveitarfélög um tengingar stíga og gatna á milli bæjarfélaga

 

Eflum þekkingu almennings á flokkun sorps og gerum flokkun auðveldari

 

Styðjum við nýsköpun í endurvinnslu, m.a. með auknu samstarfi við Sorpu

 

Stuðlum að vistvænni verslun og atvinnustarfsemi

 

Koma trjáræktarstefnuninni inn í öll ráð og svið er fara með skipulagsmál og gróðursetningu

 

Gera trjáræktarstefnu fyrir upplandið í Hafnarfirði

 

Fjölga ruslatunnum við göngustíga og finna lausn á tunnum þar sem hægt er að hafa hundapoka fyrir þá sem þess þurfa.

Mennt er máttur

 

Við ætlum að auka frelsi grunn- og leikskóla Hafnarfjarðar og draga úr miðstýringu. Við viljum færa valdið aftur inn í skólana og til kennara. Viðreisn telur að helsta markmið skóla, á öllum stigum eigi að vera styrking sjálfsmyndar einstaklinganna. Í menntastefnu bæjarins eigi rauði þráðurinn að vera sterk sjálfsmynd og og vellíðan barna. Það er mikilvægt að börnunum okkar líði vel á þessum vinnustað sem þau eru föst á marga klukkutíma á dag. Að líða vel og hafa gaman af námi ýtir undir áhuga.  Með þessu viljum við undirbúa forvitna, lífsglaða og sjálfsörugga einstaklinga sem hafa getu til að standa á eigin fótum, rýna sér til gagns og taka virkan þátt í lýðræðissamfélagi. Við viljum að börnum sé tryggð dagvistun frá 12 mánaða aldri. Styðja skal sérstaklega við börn með ólíka færni og börn sem ekki hafa íslensku að móðurmál. Til þess að gera skólagöngu barna og ungmenna enn betri þarf að huga sérstaklega að velferð þar sem öllum er tryggð sú þjónusta sem þörf er á hvort heldur sem snýr að andlegri líðan, námserfiðleikum eða öðrum þáttum. 

 

Við viljum efla til muna stoðþjónustu leik- og grunnskóla þar sem höfuðáhersla verður lögð á snemmtæka íhlutun og ekki síður eftirfylgni. Við viljum að lagt sé fjármagn í það að fjölga stöðugildum innan skólanna til að styðja við skólastarfið, horft sé til þess að bæta inn fagmenntuðum iðju- og þroskaþjálfum, talmeinafræðingum og sálfræðingum.

 

 

Fyrsta skólastigið / Leikskólar 

Brúa bilið. Öll börn komist inn á leikskóla 12 mánaða

 

Hagstæðari leikskólagjöld – skoða möguleika á gjaldfrjálsum leikskóla

 

Við viljum meira frelsi og bætta þjónustu fyrir bæði foreldra og börn

 

Ýta þarf undir að Leikskólar í Hafnarfirði sé eftirsóknarverður vinnustaður

 

Skoða nýjar lausnir í dagvistun. Meðal annars skoða mögulegt samstarf milli sveitafélaga með leikskóla og líka ungbarnaleikskóla. Fólk geti jafnvel fengið leikskólapláss nær vinnunni sinni, burt séð frá lögheimili eða búsetu.

 

Hafa starfsfólk með í ákvörðunum – á öllum skólastigum

 

Grunnskólar 

Við viljum að grunnskólar Hafnarfjarðar hafi sjálfstæði til að byggja upp stefnu og áherslur fyrir sig. Vilji stjórnendur sleppa SMT eða öðrum stefnum þá hafi þau fullt vald til þess, starfsfólki sé treyst fyrir þessum faglega hluta skólanna og stefnu skólanna. Með þessu teljum við að bærinn geti fengið fjölbreytta flóru skóla og þannig mætt ólíkum nemendum.

 

Við í Viðreisn viljum að Skólastjórnendur fái stuðning og fjármagn til þess að setja upp Mötuneyti í skólum / framleiðslueldhús. Slíkt eldhús er starfandi í einum grunnskóla bæjarins í dag með góðum árangri. Fleiri skólar eiga geta boðið upp á svona hollan og góðan kost. Hægt væri að skoða samstarf hérna á milli skóla á öllum stigum. 

 

Viðreisn leggur til að sundkennsla á unglingastigi verði endurskoðuð. Nemendur í 9. og 10. bekk fái val um að vera metin til þeirra sundstiga sem þau eiga klára í grunnskóla. Geti þannig lokið sundkennslu fyrr en hefur verið og nýtt þær kennslustundir í fjölbreyttara val. – horfa megi til RVK og fleiri sveitarfélaga.

 

Styrkja megi grunnskóla í að geta boðið upp á fjölbreyttara val á mið og unglingastigi (jafnvel yngra). Hægt væri að hafa samstarf á milli skóla þegar kæmi að ákveðnum greinum. Við viljum sjá sterkari kennslu í fjármálalæsi, umhverfismálum, nýsköpun, sjálfstyrkingu, kynjafræði og fleiri slíkum greinum sem nýtast beint út í samfélagið. 

 

Viðreisn telur að helsta markmið skóla, á öllum stigum eigi að vera styrking sjálfsmyndar einstaklinganna. Í menntastefnu bæjarins eigi rauði þráðurinn að vera sterk sjálfsmynd og vellíðan barna. 

 

Styðja við starfsfólk skólanna með auknum sveigjanleika, leyfa röddum þeirra að heyrast meira í öllu skipulagi tengdu skólunum og starfinu þeirra.

 

Vinnuskólinn 

Við viljum efla Vinnuskólann til muna, það er í flest öllum tilfellum fyrsta snerting barnanna okkar á vinnumarkaðnum. Við viljum að vinnuskólinn sé með námsáætlun sem setji sér markmið um að kenna fjármálalæsi, vinnusiðferði, sjálfstæði og borgaraleg réttindi.

Íþróttir – tómstundir – menning

 

Sveitarfélagið á að  styðja við heilsueflingu og lýðheilsu í sinni víðustu mynd. Við styðjum að börn geti valið sér frístund við sitt hæfi í gegnum frístundastyrki. Huga þarf sérstaklega að stöðu barna af erlendum uppruna. Við viljum öflugt og faglegt samstarf við íþróttahreyfinguna.

 

Við styðjum við sjálfstæða listamenn og sjálfstæð menningarfélög. Við viljum öfluga samkeppnissjóði á sviði menningar og lista. Við vinnum saman með hagaðilum til að tryggja jafnrétti á sviði menningar og íþrótta.

 

Íþróttir eru ekki einu tómstundirnar sem hægt er að stunda. Styðja þarf mun betur við menningartengdar tómstundir. Listsköpun, tónlist og fleira.

 

Auka þarf aðgengi að tónlistar/menningarnámi. Skoða hvernig hægt er að nýta skólahúsnæði eftir kennslu undir tónlistar/menningarnám.

 

Mikilvægt er að auka aðgengi allra að tómstundum. Niðurgreiðslur verði hærri og byrji fyrr. Börn sem vilji stunda skipulagt tómstundastarf frá 4-5 ára aldri hafi rétt á frístundastyrk, hann sé til 18 ára.  Til þess að hægt sé að hækka frístundastyrkina þá þarf að semja við íþróttafélögin til að tryggja að hækkun á styrkjunum renni sannarlega til foreldra en verði ekki til hækkunar á iðkendagjöldum. 

 

Skoða mætti samstarf milli íþrótta/tómstundafélaga og frístundaheimila að vera með kynningarvikur fyrir börn í 1. og 2. bekk grunnskólanna. Þau fái að prufa sig áfram og finna sig í því sem þeim hugnast.

 

Mikilvægt að öll börn fái jafnt aðgengi að tómstundum, burt sé frá efnahag foreldra og uppruna. Fötluðum börnum verði tryggður jafn aðgangur að tómstundum. 

 

Auka aðgengi “bumbu” hópa að íþróttahúsum, það er fallegra og betra fyrir heilsubæinn Hafnarfjarðar að fólk á öllum aldri geti og fái að stunda íþróttina sína áfram.

 

Sveigjanleiki í útborgun frístundastyrks sem taki mið af iðkunartímabili.

Búum öllum betra líf

 

Við viljum að bæjarbúum öllum líði vel og viljum að bærinn leggi sitt af mörkum til þess að svo geti orðið. Velferðarmál eru okkur ofarlega í huga.

 

Við viljum að allir fái tækifæri til þess að taka virkan þátt í samfélaginu. Við viljum að Hafnarfjarðarbær verði í fararbroddi í að bjóða upp á störf og verkefni fyrir öryrkja, eldri borgara og fatlaða einstaklinga sem kjósa að vinna áfram og ýti undir við fyrirtæki bæjarins að bjóða upp á slík atvinnutækifæri.

 

 

Fatlað fólk

 

Mikilvægt er að bæta aðgengismál í bænum. Við viljum að Hafnarfjörður sé næsta sveitarfélagið sem ræðst í það að rampa upp bæinn og þá er líka afar mikilvægt að allir aðilar innan bæjarins fylgi reglum um aðgengismál.

 

Viðreisn vill samtal við fatlað fólk um þá þjónustu sem sveitarfélagið er að veita í dag og hvernig megi bæta hana.

 

Viðreisn leggur áherslu á að bærinn virði löggjöf um réttindi fatlaðra í hvívetna.

 

Við viljum tryggja fleiri og fjölbreyttari búsetuúrræði.

 

Börn

 

Viðreisn vill að Brúin, verkefni Hafnarfjarðarbæjar sem á að samþætta þjónustu bæjarins og auka lífsgæði barna, unglinga og fjölskyldna þeirra, verði styrkt til muna svo það sé hægt að gera enn betur. Bæta við sálfræðingum, iðjuþjálfum og þroskaþjálfum. 

 

Fyrir eldri borgara

 

Við viljum bæta lífsgæði eldri Hafnfirðinga og bjóða þessum hópi upp á sálfræðiþjónustu og sjúkraþjálfun. Að geta lifað sjálfstæðu lífi eins lengi og kostur er skiptir okkur máli. Við ætlum að: 

 

Efla félagsstarf aldraða

 

Bjóða áfram upp á og efla eins og kostur er tækifæri eldri borgara til hreyfingar

 

Efla sálfræðiþjónustu og hindra félagslega einangrun

 

Hvetja og efla þátttöku aldraðra í samfélaginu

 

Okkur finnst mikilvægt að eldri borgara hafi val um hvers konar mat þeir fá senda heim daglega. Við myndum gera afsláttarsamninga við fleiri fyrirtæki sem bjóða upp á heimsendingu á mat og bjóða fólki um val á milli. 

Ábyrgð í rekstri

 

Viðreisn leggur mikla áherslu á ábyrgan rekstur bæjarfélagsins. Ef farið er vel með það almannafé sem bærinn hefur úr að spila þá er hægt að veita meiri og betri þjónustu til almennings. Við viljum:

 

Faglega ráðinn bæjarstjóra sem er sérfræðingur í rekstri stórra rekstrareininga

 

Aga í fjármálastjórn

 

Standa rétt að opinberum framkvæmdum og útboðum

 

Hagræða í innkaupum og leita samstarfs við önnur bæjarfélög

 

Skapa tekjur með skipulagi nýrra íbúða- og atvinnulóða, en ekki skapa óþarfa kostnað með því að víkja sífellt frá grunnforsendum rammaskipulags, vegna sérhagsmuna.