Stefna Viðreisnar í Garðabæ

Umhverfis- og skipulagsmál

 

Húsnæðisuppbygging

 

Við í Viðreisn viljum þéttingu byggðar, blandaða byggð með leik- og grunnskóla innan hverfa og blómlega atvinnustarfsemi með fjölbreyttri verslun og þjónustu í göngufæri. Við viljum ábyrga og sjálfbæra uppbyggingu í þágu umhverfissjónarmiða. Við viljum bregðast við skorti á lóðum sem hefur leitt af sér hátt íbúðaverð og torveldað ungu fólki að kaupa sér sína fyrstu íbúð.

  Við viljum auka framboð lóða.
  Við viljum þétta og flýta uppbyggingu nýrra hverfa.
  Við viljum tryggja leiguhúsnæði á almennum markaði.
  Við viljum styðja við uppbyggingu á óhagnaðardrifnu leiguhúsnæðis.

 

Samgöngur

 

Við í Viðreisn viljum samfélag með öflugum almenningssamgöngum sem og öruggum hjóla- og göngustígum þannig að íbúar, börn jafnt sem fullorðnir, komist leiða sinna og hafi alvöru valkost um vistvænar samgöngur. Að tryggt sé að hjólreiðafólk þurfi ekki að hjóla á hraðbrautum til að komast á milli hverfa heldur á vel gerðum hjólastígum.

  Við viljum tryggja að samgöngur styðji við þátttöku barna og ungmenna í félags- og tómstundastarfi.
  Við viljum aðgreina alla hjóla- og göngustíga og gera samgöngur gangandi og hjólandi um allan Garðabæ sem öruggastar.
  Við viljum greiða leið Borgarlínu og uppbyggingu nýrra hverfa með grænni byggð og gæðum er byggja á umhverfissjónarmiðum og lýðheilsu.
  Við viljum styðja við virka ferðamáta sem hvetja til hreyfingar og sjálfbærar samgöngur þ.m.t. almenningssamgöngur.

 

Loftslagsmál og hringrásarhagkerfið

 

Við í Viðreisn viljum að tekið verði mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og sjálfbærni á öllum sviðum reksturs bæjarins. Að aukinn kraftur verði settur í innviðauppbyggingu til að hraða orkuskiptum og stuðlað að sjálfbærum samgöngum. Aukna áherslu á græn og vistvæn innkaup á öllum vörum og þjónustu til að draga úr kolefnisspori bæjarins. Að stuðst verði við fjárfestingar sem teljast grænar og með grænni fjármögnun. Farið verði í sjálfbærniátak með íbúum, fyrirtækjum og stofnunum í anda Grænna skrefa í ríkisrekstri og stuðlað að umbreytingu yfir í hringrásarhagkerfið.

  Við viljum styðja við uppbyggingu grænna innviða og orkuskipti í samgöngum.
  Við viljum innleiða hringrásarhagkerfið.
  Við viljum auka kolefnisjöfnun og bindingu í gróðri.
  Við viljum græn/vistvæn innkaup á vörum og þjónustu.
  Við viljum ábyrga meðhöndlun úrgangs.

Rekstur og atvinna

 

Ábyrg fjármálastjórn í þágu velsældar

 

Við í Viðreisn viljum gott og traust velferðarkerfi sem byggir á traustum innviðum og ábyrgri fjármálastjórn. Við viljum ábyrga og sjálfbæra innkaupastefnu með útboðum og gagnsæi í innkaupum. Tryggja þarf forgangsröðun fjármuna til lögbundinna verkefna og grunnþjónustu sveitarfélagsins eins og leik- og grunnskóla.

Allar helstu tölur í rekstri sveitarfélagsins verði gerðar aðgengilegar á vefgátt bæjarins í anda þess sem gert í leiðandi sveitarfélögum. Áhersla verði lögð á umhverfisvænar og grænar fjárfestingar og að Garðabær verði vottaður sem umhverfisvænt sveitarfélag.

  Við viljum tryggja að öll útboðsskyld vara og þjónustu sé boðin út.
  Við viljum gagnsæi í ákvarðanatöku á innkaupum.
  Við viljum sjálfbær innkaup í takt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
  Við viljum að græn fjármögnun verði alltaf fyrsti kostur til að njóta hagstæðari kjara.

 

Nútímaleg stjórnsýsla, gagnsæi og íbúalýðræði

 

Við í Viðreisn viljum taka stærri skref í stafrænum umbreytingum til að tryggja góða þjónustu við íbúa og atvinnulífið. Með því er hægt að hraða afgreiðslu mála og fyrirspurna, einfalda aðgengi að þjónustu í gegnum vefinn, auka sjálfsafgreiðslu á vefnum og upplýsingagjöf til íbúa. Við viljum einnig auka gagnsæi við ákvarðanatöku og að helstu tölur og gögn séu sýnileg og aðgengileg íbúum á vefgátt bæjarins.

Við viljum að íbúum verði gefin aðkoma að ákvarðanatökum í gegnum hverfaráð og að hægt verði að kjósa um veigameiri málefni bæjarins. Í samstarfi sveitarfélagsins og hverfaráða verður hægt að taka til umræðu fagleg mál sem varða sveitarfélagið.

  Við viljum stærri og markvissari skref í bættri þjónustu við íbúa með stafrænum lausnum.
  Við viljum mælaborð fyrir stjórnsýslu, íbúa og atvinnulíf til að auka yfirsýn, gagnsæi og stuðla að skilvirkari ákvarðanatöku.
  Við viljum íbúalýðræði og aukin aðkoma íbúa að ákvörðunum um málefni bæjarins.
  Við viljum auka gagnaöflun og aðgengileika íbúa á stöðu bæjarins með velferð íbúa að leiðarljósi.

 

Umgjörð atvinnulífs

 

Við í Viðreisn viljum bæta þjónustu sveitarfélagsins við fyrirtæki og skapa umhverfi fyrir fjölbreytt atvinnulíf í bæjarfélaginu. Gefa íbúum tækifæri til að sækja sér atvinnu og þjónustu í nærumhverfið. Við viljum einfalda þjónustu við fyrirtæki með aukinni áherslu á rafræna stjórnsýslu, styðja við umhverfisvæna atvinnustarfsemi með grænum hvötum og laða að fyrirtæki sem byggja á sjálfbærum rekstri.

  Við viljum að öllum erindum bæjarins sé hægt að sinna rafrænt.
  Við viljum hraða afgreiðslu umsókna og mála s.s. þeim er snúa að leyfisveitingum og framkvæmdum.
  Við viljum tryggja atvinnuhúsnæði fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi, þ.m.t. fyrir smærri þjónustufyrirtæki í hverfiskjörnum og nýsköpunarfyrirtæki.
  Við viljum nýta græna hvata til að styðja við sjálfbæran rekstur og laða að ný fyrirtæki s.s. með lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði.

Öflugt skólastarf

 

Leik-, grunn- og tónlistarskólar

 

Við í Viðreisn viljum skólastarf í fremstu röð og viljum skapa umhverfi fyrir farsæla uppbyggingu með alvöru valfrelsi fyrir nemendur. Viðreisn vill stuðla að og styrkja frelsi skóla til að skapa faglegt og uppbyggilegt skólasamfélag sem byggir á menntastefnu sveitarfélagsins og tekur mið af því besta sem gerist í skólamálum. Við viljum sterka skóla sem mæta öllum börnum óháð námslegri eða félagslegri stöðu. Við viljum fjölbreytt rekstrarform skóla á öllum skólastigum, leik- og grunnskólum sem og tónlistarskólum. Við viljum standa með mannauðnum okkar og gera starfsumhverfi skólanna eftirsóknarvert. Tryggja þarf að skólar geta tekið á móti og þjónustað alla nemendur. Leggja þarf upp markvissa áætlun um viðhald á skólabyggingum.

  Við viljum lækka leikskólagjöld og stefna að gjaldfrjálsum leikskólum.
  Við viljum breytingar á starfsumhverfi leikskólakennara og stuðla að aðlögun í starfsumhverfi leikskólakennara að umhverfi grunnskólakennara.
  Við viljum auka vægi faglærðra inni í leikskólum með því að styðja við tækifæri ófaglærðra starfsmanna í leikskólum til frekari menntunar í faginu.
  Við viljum að uppbygging skólasamfélaga taki mið af fjölda og samsetningu nemenda í grunnskólum sveitarfélagsins til framtíðar.
  Við viljum bjóða upp á öflugt og eftirsóknarvert unglingastig í öllum grunnskólum sem starfa á unglingastigi.
  Við viljum tryggja rými fyrir félagsstarf innan allra grunnskóla sveitarfélagsins.
  Við viljum hefja framkvæmdir á lokaáfanga Sjálandsskóla strax.
  Við viljum auka svigrúm skólanna til að byggja upp umhverfi ýmis konar tæknimenntunar.
  Við viljum auka aðgengi að tónlistarskólanámi og leita fjölbreyttra leiða til reksturs tónlistarskóla.

Velferð og sanngjarnt samfélag

 

Félagsþjónusta

 

Við í Viðreisn viljum tryggja hátt þjónustustig þegar kemur að velferð íbúa. Við viljum markvissa uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Við viljum tryggja að framfærsla í gegnum fjárhagsaðstoð sé í takt við önnur sveitarfélög. Við viljum einfalda aðgengi að þjónustu í gegnum sveitarfélagið með þeim hætti að ekki þurfi að leita á fleiri en einn stað vegna þjónustu eftir því hvort hún er á ábyrgð ríkis eða sveitarfélags.

  Við viljum fjölga félagslegu húsnæði í Garðabæ markvisst með 5% af öllum nýjum íbúðum flokkist sem félagslegt húsnæði.
  Við viljum hækka fjárhagsaðstoð til samræmis við nærliggjandi sveitarfélög.
  Við viljum samþætta þjónustu með þjónustusamningi við ríkið þannig að notandinn verði ekki var við hvort þjónustan komi frá ríki eða sveitarfélagi.

 

 

Málefni fatlaðs fólks

 

Við í Viðreisn viljum skapa samfélag fjölbreytileikans sem við öll tilheyrum. Við viljum virða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og tryggja aðgengi í víðum skilningi, jafnt að byggingum og almannarýmum sem og aðgengi að upplýsingum og ákvarðanatöku. Við viljum virða þá frumkvæðisskyldu sem sveitarfélaginu ber að fara eftir. Við viljum tryggja fleiri tækifæri til sjálfstæðs lífs og styðjum áframhaldandi innleiðingu á notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA) fyrir fatlað fólk. Við viljum fjölga NPA samningum í takt við áætlanir ríkisins.

  Við viljum að þjónusta við fatlað fólk sé í samræmi við lögbundið hlutverk sveitarfélagsins.
  Við viljum að fötluðum börnum séu tryggð tækifæri til þátttöku í íþróttum og tómstundum á eigin forsendum og að þau fái stuðning frá Garðabæ í samræmi við viðurkennda stuðningsþörf.
  Við viljum að fötluðu fólk sé tryggður valkostur til sjálfstæðrar búsetu.
  Við viljum að Garðabær styðji við atvinnuþátttöku fatlaðs fólks með fjölbreyttum atvinnutengdum verkefnum í virkniúrræðum með tengingu inn í nýsköpunarumhverfið.
  Við viljum að Garðabær bjóði upp á frístundaúrræði fyrir fötluð ungmenni á aldrinum 16 – 20 ára.

 

 

Velferð barna

 

Við í Viðreisn trúum því að gott umhverfi fyrir foreldra, börn og starfsfólk sem vinnur með börnum sé lykill að velferð þeirra og samfélagslegri hagsæld. Við viljum að hugað sé að forvörnum meðal annars með snemmtækum stuðningi og snemmtækri íhlutun með því að veita faglegan stuðning við foreldra. Með góðum greiningum á velferð barna í sveitarfélaginu er hægt að bregðast hratt og örugglega við til að þjónusta þá sem þurfa aðstoð og stuðning.

  Við viljum snemmtækan stuðning sem inniheldur m.a. foreldrafræðslu og foreldrastuðning sem hluta af góðri þjónustu í þágu farsældar.
  Við viljum aukið aðgengi að sálfræði- og félagsráðgjöf í grunnskólum ásamt annarri sérfræðiþjónustu.
  Við viljum stafrænt mælaborð fyrir velferð barna sem styður við ákvarðanatöku.
  Við viljum vinna á markvissan hátt að innleiðingu farsældarlaga sem samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.

 

 

Eldri borgarar

 

Við í Viðreisn viljum að þjónusta við eldri borgara taki mið af því að þeir fái tækifæri til að viðhalda færni sinni svo þeim sé gert kleift að lifa heilbrigðu og innihaldsríku lífi. Ennfremur að íþrótta- og tómstundastarf fyrir eldri borgara gegni veigamiklu hlutverki við að viðhalda og bæta heilbrigði og auka lífsgæði. Að hugað verði að húsnæði sem henti eldri borgurum og að heimaþjónusta verði efld, t.a.m. þrif, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, sálgæsla, heilsuefling til þess að eldri borgarar geti búið lengur heima.

  Við viljum betra aðgengi að almennri heilsuvernd fyrir eldri borgara.
  Við viljum einfalt og heildstætt aðgengi að þjónustu þar sem allt fer í gegnum eina þjónustugátt óháð því hvort þjónustuaðili er ríki eða sveitarfélag.
  Við viljum greitt og öruggt aðgengi að félagsstarfi aldraðra.
  Við viljum styðja við heilsueflingu aldraða.
  Við viljum nýta betur velferðartækni við aldraða í formi fjarþjónustu, líkt og rafrænt innlit og annar stuðningur.

 

 

Mannréttindi

 

Viðreisn er frjálslyndur og alþjóðlega sinnaður flokkur. Jafnrétti og mannréttindi eru leiðarstef í öllu okkar starfi. Við viljum samfélag þar sem íbúar eru jafnir, öll geta notið sín og þar sem fjölbreytileikinn er sýnilegur.

Við styðjum við félagsstarf hinsegin fólks á öllum aldri og styðjum við hinsegin fræðslu til allra sem vinna með fólki innan Garðabæjar hvort heldur sem er í skólum, í íþrótta- og/eða tómstundastarfi. Við leggjum áherslu á málfrelsi, trúfrelsi og félagafrelsi í starfi bæjarins. Við höfum virkt samráð við félagasamtök og einstaklinga um málefni sem þau varða.

  Við viljum samfélag þar sem íbúar eru jafnir án tillits til kyns, kynhneigðar, kynvitundar, kyntjáningar, kyneinkenna, aldurs, fötlunar, holdarfars, líkamsgerðar, heilsufars, uppruna, þjóðernis, litarháttar, tungumáls, lífs- eða trúarskoðana eða annarrar stöðu.
  Við viljum vinna gegn hvers kyns mismunun og hvers kyns ofbeldi.
  Við viljum leggja áherslu á aðgerðir sem útrýma launamun kynjanna og styðja við aðferðir á kynjaðri fjárhagsáætlunargerð.
  Við viljum samfélag sem er leiðandi í móttöku hælisleitenda og flóttafólks. Við leggjum áherslu á inngildingu og stuðning við atvinnuþáttöku. Auka þarf áherslu á stuðning við tungumálakennslu, jafnt íslenskukennslu sem móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna.
  Við viljum taka mið af Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í störfum okkar.

Menning, íþróttir og tómstundir

 

Íþrótta- og tómstundastarf fyrir öll börn, unglinga og ungmenni

 

Við í Viðreisn viljum að öll börn, unglingar og ungmenni, óháð efnahag, líkamlegu atgervi, fötlun, uppruna eða annarri stöðu, fái tækifæri til að stunda skipulagt íþrótta- og tómstundastarf undir faglegri leiðsögn. Við viljum vel skipulagt og uppbyggilegt tómstundastarf sem eflir félagslega færni og samskipti, bætir andlega og líkamlega líðan og dregur úr áhættuhegðun barna og ungmenna í Garðabæ.

Við teljum mikilvægt að íþrótta- og tómstundastarf sé byggt á forsendum barna, unglinga og ungmenna og að þau hafi bein áhrif á íþrótta- og tómstundastarf.

  Við viljum að börn og unglingar í Garðabæ fái tækifæri til að stunda íþróttir og tómstundir óháð efnahag.
  Við viljum opna ungmennahús, samkomustað fyrir ungmenni á aldrinum 16-25 ára.
  Við viljum bjóða upp á fjölbreytt framboð af íþrótta- og tómstundastarfi fyrir öll börn, unglinga og ungmenni.
  Við viljum tryggja öfluga jafnréttisfræðslu, hinsegin fræðslu og gera skýrari kröfur um þess háttar fræðslu inn í samninga við íþrótta- og tómstundafélög.
  Við viljum tryggja betur aðkomu ungmennaráðs að ákvörðunum í málum sem snerta ungmenni.

 

 

Menning og listir

 

Við í Viðreisn viljum blómlega menningarstarfsemi og skapa rými til listsköpunar með fjölbreyttu menningarstarfi til samræmis við það sem best gerist hjá sveitarfélögum. Við viljum byggja upp öflugt menningarhús þar sem íbúar fái notið fjölbreyttrar menningar og lista. Við viljum efla Hönnunarsafn Íslands og tryggja því umhverfi til frekari vaxtar.

  Við viljum fjölbreytta menningarviðburði fyrir alla aldurshópa.
  Við viljum öfluga tengingu á menningarstarfi inn í leik- og grunnskóla.
  Við viljum efla menningar- og listasvið bæjarins.
  Við viljum bókasafn sem þekkingar- og miðlunarsafn.
  Við viljum auka sýnileika menningarviðburða á samfélagsmiðlum.