Frásögn úr ráðuneytinu – fjórða og fimmta vika (BJ)

Ég skandaliseraði með hagsýnu húsmæðrunum og fékk að heyra fimmhundruð og ellefu brandara um reiðufé. Svo fengum við Þorgerður orð í eyra fyrir það hve miklir þverhausar við værum að vilja ekki láta ríkið borga fyrir sjómannasamningana.

Undanfarnar tvær vikur hafa verið viðburðaríkar. Ég skandaliseraði með hagsýnu húsmæðrunum og fékk að heyra fimmhundruð og ellefu brandara um reiðufé. Svo fengum við Þorgerður orð í eyra fyrir það hve miklir þverhausar við værum að vilja ekki láta ríkið borga fyrir sjómannasamningana. Á endanum var það svo Viðreisn sem hélt sínu striki. Stundum hlær sá best sem síðast hlær.

Fjármálastefnan og þingstörfin

Ég tók þátt í umræðu um fjármálastefnu almennt mánudaginn 6. febrúar. Það er mjög ánægjulegt að ræða þau mál sérstaklega, því að fjármálastefnan er að mínu mati eitthvert mikilvægasta málið sem þingið fæst við nú í vor. Með fjármálastefnunni er sett fram hver afgangur á að vera af rekstri hins opinbera næstu fimm árin. Samkvæmt þeirri stefnu sem ég lagði fram er markmiðið að hið opinbera skili afgangi upp á 1,6% næstu tvö ár (2018-2019) en afgangurinn minnki svo um 0,1% næstu þrjú ár. Þetta þýðir að afgangur á fjárlögum verður um 40 milljarðar næsta ár, samþykki Alþingi stefnuna. Umræðan var ágætlega málefnaleg og spurt um hvers vegna markmiðin væru með þeim hætti sem sett var fram.

Sérstakar umræður af þessu tagi eru hálftími sem þýðir að þær þurfa að vera hnitmiðaðar. Helst þurfa þingmenn þá að láta af þeim ósið sumra að koma upp bara til þess að tala. Ég er ekki að vísa til þess í þessari umræðu sérstaklega, en þeir sem horfa á sjónvarp frá Alþingi kannast við svonefnd andsvör þar sem þingmenn geta gert stuttar athugasemdir við ræður og fá til þess tvö stutt andsvör. Oft finnst mér seinna andsvarið orðið ansi þunnt og þingmenn mættu gera meira af því að falla frá því ef ræðumaður svarar þeirra spurningu, athugasemd eða ábendingu í fyrra svari sínu. Þetta seinna andsvar verður stundum vandræðalegt.

Eitt er það í stjórnmálaumræðum sem mér leiðist og venst vonandi aldrei. Það er þegar stjórnmálamenn koma upp og gagnrýna andstæðinga sína harðlega fyrir eitthvað sem þeir hafa aldrei sagt. Stundum kann að vera um misskilning að ræða, en oft tala menn gegn betri vitund, gera andstæðingnum upp skoðun og mótmæla henni svo. Einmitt svona umræða gerir stjórnmálin svo kjánaleg og fátækleg.

Ég mælti svo fyrir frumvarpi um eftirlit með fjármálasamsteypum, tæknilegt mál um aukið eftirlit með fjármálafyrirtækjum sem eru umsvifamikil á tveimur sviðum; vátryggingum og bankastarfsemi. Eins og er á frumvarpið ekki við neitt íslenskt tilvik, en hefði t.d. átt við um Exista á sínum tíma. Löggjöfin um fjármálastarfsemi hefur orðið mun viðameiri nú en fyrir hrun, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Okkar löggjöf á þessu sviði er sú sama og í öðrum EES-ríkjum. Ég hef lagt mikla áherslu á að á fjármálasviðinu reynum við að losna við innleiðingarhallann svonefnda sem allra fyrst. Tvö slík mál falla undir fjármála- og efnahagsráðherra og frumvörp verða flutt um þau bæði á vorþinginu.

Heimsókn til Trumps og önnur til mín

Bandaríska sendiráðið bauð til móttöku fyrir nýja þingmenn þar sem ég mætti. Hún var fjölsótt úr flestum flokkum, ef ekki öllum. Við þurfum auðvitað að halda vináttu við Bandaríkin þó að forsetinn sé eins og hann er. Óhætt er að segja að viðræður hafi oft verið hreinskiptnar en allar kurteislegar heyrðist mér. Margir erlendir sendiherrar hafa verið í sambandi við ráðuneytið og auðvitað reyni ég að halda góðu sambandi við þá.

Efnahagsnefnd Viðreisnar kom í heimsókn í ráðuneytið til mín á miðvikudag. Þar spunnust skemmtilegar viðræður. Það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir mig að halda góðu sambandi við þann reynslumikla hóp.

Eigendastefnan

Í vikunni lagði ég líka fram eigendastefnu í bönkunum. Í stuttu máli gengur hún út á það að ríkið selji allan sinn hlut í bönkunum nema Landsbankanum þar sem það eigi 34-40%. Mér heyrðist í stjórnarmyndunarviðræðum í haust að um þetta væri góð samstaða, en afar mikilvægt er að rasa ekki um ráð fram og gefa sér góðan tíma til þess að vinna að sölunni þannig að um hana ríki sem best sátt og ríkið fái gott verð fyrir sinn hlut. Jafnframt þarf salan að vera í opnu ferli. Ég átta mig vel á því að þetta mun taka tíma og mér dettur ekki í hug að setja hlutina alla á markað núna strax. Verðmætin eru mikil, nálægt 400 milljörðum króna líklega, og því eftir miklu að slægjast til þess að lækka skuldir ríkisins um slíka fjárhæð. Vextirnir sem ríkið borgar (með verðbótum þar sem það á við) eru nálægt 7% þannig að vaxtalækkunin gæti orðið 25 til 30 milljarðar á ári miðað við núverandi vaxtastig.

Vanda þarf til undirbúnings. Vel kemur til greina að selja hlutina í áföngum. Ríkið á 13% hlut í Arion banka og ég get ímyndað mér að hann verði seldur fyrst, en slitabúið hefur sagst ætla að hefja ferlið nú um páskana. Þegar hlutabréf í bankanum verða skráð á markað verður auðveldara en ella að átta sig á verði og eftirspurn. Hugsanlegt er að þessi hlutur verði seldur á yfirstandandi ári, en alls ekki víst. Ég sé ekki að markaður verði fyrir fleiri bankahlutabréf hér innanlands í ár þannig að hinir bankarnir bíða. Ef söluferlið tekur tíu ár er það í góðu lagi og betra en að skapa óróa með óvönduðum vinnubrögðum.

Á ferð og flugi í kjördæminu

Liðin vika var kjördæmavika. Ég fór víða um Norðausturkjördæmi með flestum öðrum þingmönnum kjördæmisins. Við hittum fulltrúa sveitarstjórna, heilbrigðismála, skóla og vegagerðar, menningarmála og loks deilendur í sjómannadeilunni. Þetta fannst mér afar skemmtilegt og fróðlegt. Ég fór á Egilsstaði, Norðfjörð, Vopnafjörð, Mývatn, Laugar og Akureyri. Oftast höfðum við samflot en stöku sinnum skildu leiðir. Enginn vafi er á því að samband landsbyggðarþingmanna við sína umbjóðendur er nánara en annarra þingmanna. Mér finnst það mjög mikilvægt að raddir fólksins. Þegar leið á seinni hluta ferðarinnar urðu símtöl vegna sjómannadeilunnar tíðari og ég varð að stíga æ oftar út af fundum.

Höldum til hafs á ný

Sjómannadeilan var leidd farsællega til lykta og okkar sjónarmið um að ríkið ætti ekki að koma að launagreiðslum með skattfríðindum varð ofan á. Ég virði sannarlega það sjónarmið að allir eigi að sitja við sama borð þegar kemur að skattlagningu hlunninda, en reglur verða að vera almennar og rökréttar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hélt vel á spilunum og niðurstaðan er mikilvægur sigur fyrir sjónarmið Viðreisnar. Það var ekki auðvelt að halda sínu striki, en ég fullyrði að Þorgerður hélt góðu sambandi við alla sem að deilunni komu og ég veit að báðir aðilar virtu okkar sjónarmið, þó að þeir vildu halda fram sínum hagsmunum. Ég hygg að þannig hafi til tekist að milli forystumanna andstæðra fylkinga og ráðherra sé enginn kali, þrátt fyrir að stundum hafi hitnað í kolunum. Samningarnir eru í höfn án þess að ríkið hafi þurft að borga eða gefa eftir tekjur.

Á fundum mínum í kjördæminu er því ekki að neita að spjótin stóðu á okkur í Viðreisn og einhverjir töldu að við værum fjandsamleg sjómönnum og útgerð. Ég benti á það að við hefðum verið eini flokkurinn sem hefði boðað fast gengi fyrir kosningar, en sterk króna veldur bæði sjómönnum og útgerð búsifjum. Jafnframt hefðum við í stjórnarmyndunarviðræðum staðið gegn sérstökum hátekjuskatti á tekjur yfir 1,6 milljónir á mánuði, en hann hefði komið mun þyngra niður á sjómönnum en öðrum stéttum og skipti mun meira máli en skattlagning fæðispeninga.

Læt hér staðar numið að sinni. Er ánægður með þessar vikur og ekki síst síðustu daga. Við horfum bæði til framtíðar með ábyrg stefnumál og stóðum í lappirnar í miklu prinsippmáli. Viðreisn stóðst þetta próf og þjóðin er sigurvegari.

Benedikt Jóhannesson