24 nóv Hvers vegna slitnaði upp úr fimm flokka viðræðunum?
Að undanförnu höfum við verið í viðræðum við fjóra aðra flokka um stjórnarmyndun. Við gengum til þess verks af fullri alvöru þó að við vissum að mikið bæri í milli.
Að undanförnu höfum við verið í viðræðum við fjóra aðra flokka um stjórnarmyndun. Við gengum til þess verks af fullri alvöru þó að við vissum að mikið bæri í milli, sérstaklega Viðreisnar og VG. Um helgina voru ágætar samræður um verklag og ég taldi eftir það að ekki væri ómögulegt að saman myndi ganga. Þó kom fram að fulltrúi VG var mjög íhaldssamur um gjaldtöku í sjávarútvegi og lagðist gegn markaðsleið. Samt taldi ég að vel væri hugsanlegt að ná málamiðlunum sem væru ásættanlegar.
Á mánudag fóru svo fjórir viðræðuhópar í gang og um kvöldið kom í ljós að mjög víða bar mikið í milli. Í nánast öllum viðræðuhópum kom fram mikill munur á áherslum. Sérstaklega var VG fjarri miðjuflokkunum. Mesti munur á stefnu flokkanna liggur í landbúnaðarmálum og sjávarútvegi.
Eftir að hafa hitt fulltrúa okkar í hópunum fjórum á mánudaginn vorum við mjög efins um að saman gengi. Daginn eftir var farið sérstaklega í ríkisfjármálin og þá kom fram að staða ríkissjóðs var ekki eins góð og við héldum. Miklum peningum hafði verið eytt á síðustu viku þingsins í almannatryggingum og vegaáætlun.
Því var ljóst að langt var í land að hægt væri að fjármagna hugmyndir um stórfellda útgjaldaaukningu.
Í gærmorgun birtist svo viðtal við Katrínu Jakobsdóttur í Fréttablaðinu um miklar skattahækkunarhugmyndir VG. Þessar hugmyndir höfðu ekki verið kynntar á fundum formanna og komu okkur í Viðreisn og fleirum á óvart. Viðreisn vildi ekki taka þátt í skattalækkunum þegar við ræddum við Sjálfstæðisflokkinn, en jafnframt teljum við að stórfelldar skattahækkanir upp á marga tugi milljarða séu ekki ábyrgar.
Í gærmorgun sagði Katrín á fundi formanna að hún vildi fá skýr svör eftir hádegi um það hvort flokkarnir teldu samkomulagsgrundvöll. Þá tæki við ferli, sem eflaust hefði tekið fram í næstu viku, þar sem menn skrifuðu stjórnarsáttmála. Á þessum fundi komu fram þrjár mismunandi tillögur um útfærslu á sjávarútvegsleið þannig að því fór fjarri að samkomulag hefði náðst um málið.
Valið í gær stóð á milli þess að fara í langar viðræður um stjórnarsáttmála sem ekki var líklegt að flokkarnir næðu saman um eða spyrja Katrínu hvort hún teldi samstarfið vænlegt miðað við þann mun sem var á milli afstöðu flokkanna. Það var niðurstaða hennar að ekki bæri að fara lengra með samtalið.
Ég tel þó að samtalið hafi verið gagnlegt að mörgu leyti. Við kynntumst fólki í öðrum flokkum og ég held að viðræðurnar geti gefið vonir um að samstarfið á þingi verði betra en ella hefði verið. Menn skildu í friði þó að sumir hafi verið bjartsýnni á niðurstöðu en Viðreisn.
Auðvitað eru alltaf vonbrigði ef ekki næst saman, en málefni hljóta að ráða.