Myntráð og lánveitandi til þrautavara

Hugmyndin um myntráð hefur verið gagnrýnd á þeirri forsendu að í myntráði er ekki gert ráð fyrir lánveitanda til þrautavara. Eðli málsins samkvæmt getur myntráð ekki prentað peninga umfram gjaldeyriseign og getur því ekki hjálpað banka í miklum lausafjárvanda. Deila má um það hvort seðlabanki eigi að vera í hlutverki lánveitanda til þrautavara jafnvel í venjulegu brotaforðakerfi. Bent hefur verið á freistnivanda en einkum þó að mjög erfitt getur verið að greina, sérstaklega á óróa og krepputímum, hvort banki sem sækist eftir aðstoð er aðeins í skammtíma lausafjárvanda sem gæti lagast með innspýtingu frá seðlabanka eða hvort bankinn sé hreinlega gjaldþrota og ekki viðbjargandi. Reynslan af björgunartilraunum Seðlabankans hér á landi árið 2008 undirstrikar þennan vanda.

Af þessum sökum er það skoðun undirritaðs að ríkissjóður eigi að vera lánveitandi til þrautavara ekki seðlabanki. Það verður að vera pólitísk ákvörðun með pólitískri ábyrgð að reyna að bjarga fjármálafyrirtæki sem á í erfiðleikum. Samt sem áður er úrlausn lausafjárvanda yfirleitt talinn vera á könnu seðlabanka (með seðlaprentun) eða alþjóðastofnana svo sem AGS ef um alvarlegan kerfisvanda er að glíma[1]. Að vísu gæti myntráð haft yfir að ráða svo ríflegum gjaldeyrisforða að hann dugi fyrir tryggingu á peningamagni og umtalsverðum lánveitingum þar að auki; en myntráðsfyrirkomulag gerir almennt ráð fyrir að bankar passi sjálfir sína lausafjárstöðu og eigi varaforða eða lánalínur til að bregðast við skyndilegu útflæði.

Eftir kreppuna 2008 herti Evrópusambandið mjög reglur um fjármálastarfsemi. Meðal annars var innleitt ótrúlega yfirgripsmikið og flókið regluverk um laust fé í bönkum, bankaeftirlit og fleira[2].  Nýjasta afsprengið úr þessari átt er reglugerð sem var innleidd hér með breytingum af Seðlabanka Íslands í mars s.l (reglur um lausafjárhlutfall lánastofnana nr. 266/2017). Þótt hert regluverk ESB virðist ná nýju hámarki í skrifræði er það byggt á biturri reynslu frá kreppunni 2008. Tilgangurinn er meðal annars að koma í veg fyrir, svo sem unnt er, að bankar lendi í lausafjárkreppu.

Strangar lausafjárkröfur af þessu tagi geta þjónað að verulegu leyti sem mótsvar við þeirri gagnrýni á myntráð að það geti ekki verið lánveitandi til þrautavara. Þörfin fyrir slíkan lánveitanda ætti að vera að mestu úr sögunni ef ströngustu lausafjárreglum er framfylgt auk annars eftirlits sem framkvæmt er innan regluverks EES samningsins og nú er verið að lögfesta hér á landi (Evrópskt eftirlitskerfi á fjár­málamarkaði 217. mál, lagafrumvarp 146. löggjafarþing 2016–2017).

Bankakreppur eru þó ekki úr sögunni sama hvað regluverk er hert en líkur á skyndilegri lausafjárþurrð hafa minnkað verulega. Í umræðu um kosti og galla myntráðs ætti þörf fyrir lánveitanda til þrautavara ekki að skipta meginmáli í ljósi aukinnar þekkingar og hertra reglna um laust fé fjármálastofnana.

 

[1] Sjá t.d. Wood, Goffrey E., The Lender of Last Resort Reconsidered, JFSR 18:2/3 203-227, 2000. Einnig Obstfeld, Maurice, Lenders of Last Resort in a Globalized World, [Á vefnum], http://www.imes.boj.or.jp/english/publication/mes/2009/me27-4.pdf, [Sótt 6.4.2017]

[2] Sjá t.d. REGULATION (EU) No 575/2013. Hún er 337 bls. að lengd og

 COMMISSION DELEGATED REGULATION (EU) 2015/61.