Öflugri og sjálfbærari landbúnaður

Viðreisn leggur áherslu á að endurskoða styrkjakerfi landbúnaðarins til að efla greinina og gera hana sjálfbærari. Mikilvægt er að ýta undir aukna fjölbreytni og nýsköpun með stuðningi við verkefni á borð við skógrækt, lífrænan landbúnað, landgræðslu, vöruþróun, endurheimt votlendis, smávirkjanir og ferðaþjónustu. Þriggja fasa línur auka orkugæði og skapa möguleika á smávirkjunum sem væri nýr atvinnumöguleiki í sveitum.

 

Við viljum tryggja aukið frelsi, bæði fyrir neytendur og bændur. Og að bændur fái sjálfir ráðið hvernig þeir rækta sína jörð, í sátt við fólk og náttúru. Styrkjakerfi landbúnaðar verði umhverfismiðað fremur en framleiðslutengd, t.d. þannig að bændur geti gerst vistbændur og hafi ávinning af því. Þess verði gætt að markmið byggðastefnu séu skýr og þau þjóni almannahagsmunum. Opinber fjárframlög eiga að stuðla sem best að settum markmiðum. Bændur eiga að fá frelsi til  að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir og stuðla að innri samkeppni í greininni. Einfalda þarf löggjöf og eftirlit með matvælum í því skyni að styðja við frumkvöðlastarf og nýsköpun í landbúnaði. Líta skal til nágrannalandanna í þessu tilliti.

Lestu atvinnustefnu Viðreisnar hér

 

Umhverfisvænni landbúnaður

Endurskoða þarf styrkjakerfi landbúnaðar og auðvelda bændum framleiðslu heilnæmra og fjölbreyttra landbúnaðarafurða, í sátt við umhverfið. Að endurskoðuninni þurfa allir að koma sem á einhvern hátt tengjast landbúnaði og annarri landnýtingu. Beit á mjög viðkvæmum gróðursvæðum verði stöðvuð sem fyrst og skynsamleg takmörk sett á lausagöngu búfjár. Styrkjakerfi landbúnaðar verði umhverfismiðað fremur en framleiðslutengt, t.d. þannig að bændur geti gerst vistbændur og hafi ávinning af því. Því ætti sérstaklega að styðja við rekstur sem stuðlar að bindingu kolefnis og dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda frá landi, t.d. með skógrækt, endurheimt votlendis og hnignaðs mólendis. Kerfið styðji fjölbreytta og umhverfisvæna framleiðslu með áherslu á aukið frelsi, taki tillit til breyttra neysluvenja, stuðli að bættum hag bænda og neytanda og ýti undir nýliðun í röðum bænda.

 

Viðreisn vill að Ísland verði kolefnishlutlaust og laust við jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Þá verði hugað að minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda frá landbúnaði og fiskeldi, m.a. með því að efla starfsemi í lægri þrepum fæðukeðjunnar.

 

Viðreisn vill að Ísland helmingi heildarlosun ríkisins (með landnotkun) á áratugs fresti og verði þannig við ákalli vísindasamfélagsins um að halda hlýnun innan 1,5C°. Við viljum sýna gott fordæmi til forystu og setja markmið sem endurspegla sanngjarna hlutdeild Íslendinga af samdrætti gróðurhúsalofttegunda. Sett verði sjálfstæð loftslagsmarkmið á Íslandi fyrir losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands, losun frá staðbundnum iðnaði sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir  og losun sem fellur undir landnotkun.

  • Losun á beinni ábyrgð Íslands: -60% árið 2030 m.v. 2005.
  • Losun frá staðbundnum iðnaði sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir: -43% árið 2030 m.v. 2005.
  • Losun vegna landnotkunar: -50% árið 2030 m.v. 2020.
  • Stefnt verði að kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.

 

Tengja þarf loftslagsmálin þvert á fagráðuneyti svo þau endurspeglist í ákvörðunum í öllum málaflokkum. Áhersla verði lögð á að laga stjórnsýsluna að mikilvægi málaflokksins með því að meta loftslagsáhrif frumvarpa og samþætta og bæta samráð stjórnsýslu í loftslagsmálum með auknu samstarfi jafnt innanlands og erlendis. Þá þarf að auka framboð loftslagsvænni matvæla innan opinberra stofnana enda hið opinbera vel til þess fallið að vera neytendum fyrirmynd í umhverfisvænni neyslu.

Lestu umhverfis- og auðlindastefnu Viðreisnar hér

 

Neytendur í öndvegi

Frjáls samkeppni er best til þess fallin að tryggja neytendum fjölbreytt úrval vöru, góða þjónustu og sanngjarnt verð. Bændur geti selt afurðir sínar beint til neytenda án hindrana af hálfu hins opinbera.

 

Stórátak í innviðafjárfestingum

Nútímavæðing innviða, í þágu samfélags, umhverfis og öryggis þarf að verða forgangsmál nú og í náinni framtíð. Í öllum byggðum skal vera aðgengi að öflugri nettengingu. Ráðast þarf í stórátak með fjárfestingum í dreifikerfi rafmagns. Hraða þarf þrífösun rafmagns í dreifbýli  sem er forsenda margvíslegrar atvinnusköpunar og notkun öflugs rafbúnaðar og orkuskipta í sveitum.

Lestu innanríkisstefnu Viðreisnar hér

 

Aðild að ESB og evru, til að auka verðmætasköpun, kaupmátt og bæta lífskjör

Margháttaður ávinningur er nú þegar af samstarfi við Evrópuþjóðir með EES samningnum. Allt bendir til þess að stórauka mætti þann ábata með því að ganga að fullu inn í Evrópusambandið. Með því væri tryggður ytri stöðugleiki, lægri vextir, bætt markaðsaðgengi og aukið frelsi í viðskiptum, þjóðinni til hagsbóta. Aðild að ESB og upptaka evru skapar nýja möguleika í nýsköpun atvinnulífsins og veitir möguleika að betri aðgengi að styrkjum úr byggða- og landbúnaðarsjóðum ESB, sem munu efla byggðir og landbúnað. Aðild að ESB mun auka samkeppnishæfni fjármálafyrirtækja og atvinnulífs, efla útflutning, hagvöxt og framleiðni og lækka matvælaverð vegna lækkunar tolla. Öll þessi breyting mun skapa forsendur  fyrir auknum kaupmætti launafólks og bættum lífskjörum til lengri tíma.

Lestu efnahagsstefnu Viðreisnar hér