Atvinnumál

Samkeppni, sjálfbærni, jafnrétti og nýsköpun eru leiðarstef sem eiga að ríkja í öllum atvinnurekstri. Viðreisn treystir frjálsum markaði almennt til að skila bestum ábata fyrir fólkið í landinu. Stjórnvöld skulu búa fyrirtækjum hagstæð rekstrarskilyrði og draga úr efnahagssveiflum. Yfirvöld verða að tryggja skýra lagaumgjörð og viðeigandi regluverk og leitast við að hafa allt ferli eins og varðandi leyfisveitingar á vegum hins opinbera sem skilvirkast og sem minnst íþyngjandi. Tryggja þarf góðar samgöngur, öfluga nettengingu, nægt og öruggt rafmagn um allt land. Upptaka evru myndi skjóta styrkari stoðum undir samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Allt þetta er forsenda fjölbreyttrar atvinnuuppbyggingar, fjölgunar tækifæra og bættra lífskjara.

 

  • Samkeppnishæft atvinnulíf
  • Fjölbreytt atvinnutækifæri um allt land 
  • Fjölgum stoðum útflutnings 
  • Öflugur og sjálfbær landbúnaður 
  • Nýsköpun og rannsóknir eru forsenda framfara
  • Kvótann á markað

 

Landsþing 11. febrúar 2023

Samkeppnishæft atvinnulíf

Upptaka evru, frjáls aðgangur að erlendum mörkuðum og skilvirkt regluverk er forsenda samkeppnishæfs atvinnulífs, byggða, verðmætasköpunar, kaupmáttar og lífskjara. Sprotafyrirtæki treysta á fjármagn frá erlendum fjárfestum sem hika við að fjárfesta í krónuhagkerfi. Ísland er lítið opið hagkerfi. Aðgengi að erlendum mörkuðum er forsenda fyrir uppbyggingu öflugra fyrirtækja á Íslandi. Sveigjanleiki er einn af styrkleikum íslensks atvinnulífs.

Fjölbreytt atvinnutækifæri um allt land

Auknar útflutningstekjur og hagvöxtur auka lífsgæði til framtíðar. Stjórnvöld verða að tryggja jöfn skilyrði um allt land til vaxtamöguleika til atvinnusköpunar. Nýsköpun í þágu sjálfbærni og umhverfisverndar mun stuðla að fjölbreyttum atvinnutækifærum. Rafræn stjórnsýsla bætir aðgengi að þjónustu og skapar tækifæri til hagræðingar og aukinnar skilvirkni í opinberum rekstri. Bæta þarf samgöngur til að stækka atvinnusvæði og draga þannig úr áhrifum breyttra atvinnuhátta.

 

Eldi laxfiska er umfangsmikið í byggðum landsins og því er mikilvægt að efla undirstöður greinarinnar, m.a. hvað varðar umhverfisáhrif hennar og dýravelferð. Læra þarf af reynslu annarra þjóða og halda áfram að móta skýrt og regluverk skilvirkt eftirlit í kringum starfsemina með sjálfbærni í huga. Ræktun annarra lífvera í sjó og ferskvatni og aðrar sjávarnytjar, sem samkvæmt trúverðugum greiningum teljast eiga möguleika á arðbærum og umhverfisvænum atvinnurekstri, ber að veita stuðning með skýrri stefnumótun og aðgerðaráætlun og jafnframt með skýru regluverki og skilvirku eftirliti kringum starfsemi þeirra með umhverfislegri sjálfbærni og arðsemi í huga. Greiða skal auðlindagjald vegna fiskeldis og annarra greina sem nýta auðlindir lands og sjávar og skal það renna að hluta til nærsamfélaga.

 

Uppbygging ferðaþjónustunnar verður að hafa faglegan grunn og skýra framtíðarsýn til að tryggja sjálfbærni greinarinnar til lengri tíma. Hlúa þarf að fjölbreyttri menntun til að tryggja greininni faglegt starfsumhverfi. Fjárfesta þarf í innviðum á ferðamannastöðum um allt til verndar umhverfi og náttúru og tryggja jafnari dreifingu ferðamanna um landið og yfir árið. Ríkisstjórnin skal setja heildstæða ferðaþjónustustefnu til 5 ára í senn í samstarfi og samtali við greinina sjálfa.

 

Viðreisn vill að litið sé til nýrra og nútímalegra lausna við að skapa ný störf og tækifæri. Uppbygging fjarvinnuklasa víða um land leikur þar lykilhlutverk. Hið opinbera á að styðja við slíka klasa um allt land og tryggja að störf án staðsetningar fjölgi á landsbyggðinni. Samstarf ríkis og sveitarfélaga ásamt öflugri grunnþjónustu í heimabyggð skipta þar höfuðmáli. Síðast en ekki síst þarf að huga sérstaklega að stuðningi við menningartengda starfsemi um allt land.

 

Fjölgum stoðum útflutnings

Uppbygging alþjóðlegs þekkingariðnaðar og atvinnulífs er leiðin að aukinni hagsæld. Þekking og hugvit eru óþrjótandi auðlindir sem þarf að virkja betur til framtíðar. Því þarf uppbygging þekkingar- og hugvitsgreina að vera stöðugt viðfangsefni með það fyrir augum að búa til umhverfi þar sem greinarnar geta blómstrað til frambúðar. Fjölga þarf sterkum stoðum útflutnings og sækja auknar útflutningstekjur í hugviti, nýsköpun og tækni til þess að íslenskt efnahagslíf standi af sér sveiflur fallvaltra stórra atvinnugreina.

 

Öflugur og sjálfbær landbúnaður

Viðreisn vill draga úr miðstýringu í landbúnaði og auka frelsi, bæði neytendum og bændum til hagsbóta. Viðreisn leggur áherslu á aukna fjölbreytni og nýsköpun með stuðningi við verkefni á sviði landbúnaðar. Endurskoða þarf styrkjakerfi landbúnaðarins til að efla hag bænda og gera greinina sjálfbærari. Þess verði gætt að markmið byggðastefnu séu skýr og þau þjóni almannahagsmunum. Bændur eiga að fá frelsi til að vinna og markaðssetja afurðir sínar sjálfir og stuðla að innri samkeppni í greininni. Tryggja þarf að upptaka evrópskrar matvælalöggjafar gangi ekki lengra hér en innan ESB. Gera þarf eftirlit innan matvælaframleiðslu skilvirkari í því skyni að styðja við aukna dýravelferð, styðja við frelsi matvælaframleiðenda, styðja við frumkvöðlastarf innan matvælaframleiðslu og nýsköpun ásamt því að sinna lögbundnu eftirliti.

 

Lækkun tollahindrana skapar tækifæri fyrir landbúnaðinn. Endurskoða þarf reglulega áhrif tolla á frjáls viðskipti og matvælaverð.

 

Nýsköpun og rannsóknir eru forsenda framfara

Viðreisn vill koma á mælaborði nýsköpunar sem mælir árangur af nýsköpunarstarfi. Ekki einungis endurgreiðslu vegna rannsókna og þróunar heldur einnig afrakstur starfsemi nýsköpunarfyrirtækja á borð við fjölda starfa, fjárfestingar (erlendar og innlendar) og tekjur. Við veitingu rannsóknarstyrkja skal gæta jafnræðis og stuðla að samkeppni. Styðja á við sprotastarfsemi frá hugmynd til markaðsvöru, með áherslu á sjálfbærni.

 

Mikilvægt er að nýta krafta nýsköpunar til þess að finna lausnir til að stuðla að aukinni sjálfbærni á öllum sviðum. Stuðningsumhverfi nýsköpunar þarf að taka tillit til atriða sem stuðla að sjálfbærni og skapa þannig hagræna hvata til að umbuna þeim fyrirtækjum sem nýta umhverfisvænar lausnir í rekstri.

 

Kvótann á markað

Viðreisn vill tryggja sátt um sjávarútveginn til framtíðar. Við viljum að sanngjarnt verð sé greitt fyrir aðgang að auðlindunum okkar og að samningar um auðlindanýtingu séu tímabundnir. Í stað veiðigjalds verði ákveðinn hluti kvótans settur á markað á hverju ári og boðinn út sem nýtingarsamningur til 20 ára, með því yrði pólitískri óvissu eytt og fyrirsjáanleiki greinarinnar þar með meiri auk þess sem eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni væri staðfest.

 

Með þessu fyrirkomulagi fæst sanngjarnt markaðsverð sem ræðst hverju sinni af framboði og eftirspurn innan greinarinnar, og umgjörð sjávarútvegs verður skýr, gagnsæ og stöðug til frambúðar. Stöðug pólitísk óvissa er neikvæð fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein. Grundvallarhlutverk fiskveiðistjórnunarkerfis er að koma í veg fyrir ofveiði og tryggja þannig að nýting auðlindarinnar sé sjálfbær. Því hlutverki sinnir kvótakerfið vel. Núgildandi innheimta veiðigjalda er hins vegar of flókin og ógagnsæ. Viðreisn leggur áherslu á dreifða eignaraðild í sjávarútvegi og aukið gagnsæi með kröfum um skráningu á skipulögðum hlutabréfamarkaði fyrir fyrirtæki yfir ákveðinni stærð. Tryggja skal að vilji löggjafans um hámarkskvótaeign ráðandi aðila í sjávarútvegi sé virkur. Viðreisn vill að hluti markaðsgjaldsins renni til sjávarútvegsbyggða til að styrkja innviði á þeim svæðum.

——
Ábendingar, athugasemdir og tillögur um stefnu Viðreisnar má senda á netfangið vidreisn@vidreisn.is.
Flokkar
Málefnin