Ungt fólk í stefnumótun og ákvaðanir

Leggja þarf áherslu á alþjóðasamstarf um náttúruvernd t.d. með samningum á borð við Samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika, norrænt samstarf og evrópsk samstarfsverkefni. Sérstaklega þarf að leggja áherslu á vernd lífríkis og líffræðilegan fjölbreytileika á norðurslóðum. Efla þarf möguleika ungs fólks á að taka þátt í stefnumótun og ákvörðunum tengdum náttúruvernd og samþættingu verndar og sjálfbærrar auðlindanýtingar.

Lestu umhverfis- og auðlindastefnu Viðreisnar hér

 

Menntun fyrir öll – Nám alla ævi

Öflugt menntakerfi byggir á framúrskarandi menntun með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og öfluga félagsfærni og tekur tillit til þeirra öru breytinga sem samfélagið tekur. Aðgengi að námi, skapandi félags- og tómstundastarfi og fjölbreyttu menningaruppeldi frá unga aldri skal vera jafnt með tilliti til kynja, kynhneigðar, fötlunar, trúarbragða, búsetu, efnahags eða annarrar stöðu.

 

Aukið val og margþættir náms- og kennsluhættir gerir nemendum á öllum skólastigum kost á fræðslu við hæfi þar sem þeir fái sín notið og vaxið. Sérstaklega skal styðja við nemendur með ólíka færni á öllum skólastigum og fjölga námsframboði á efri skólastigum.

 

Námslán og skólagjöld taki mið af því að öll hafi jöfn tækifæri til framhalds- og háskólanáms, óháð efnahag og búsetu. Viðreisn vill efla enn frekar styrkja- og lágvaxtalánkerfi námslána. Stefna ætti að blönduðu styrkja- og lánakerfi, þar sem námsmenn hafi þó kost á að nýta aðeins styrkinn, án þess að taka lán. Viðreisn vill afnema frítekjumark námslána MSNM ásamt því að grunnframfærsla sé í samræmi við neysluviðmið Félagsmálaráðuneytisins. Umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem hafa hlotið dvalarleyfi á Íslandi, skulu eiga kost á námslánum.

 

Heilsueflandi samfélag fyrir alla

Viðreisn vill stefna að heilsueflandi samfélagi fyrir alla aldurshópa. Félags-, íþrótta- og tómstundastarf, fyrir börn jafnt sem fullorðna, stuðlar  að aukinni félagsfærni og lýðræðisvitund, hefur forvarnargildi og bætir heilsu og vellíðan. Með styttingu vinnuvikunnar gefst fólki á öllum aldri aukinn tími til að rækta tómstundir sínar.

Lestu mennta-, menningar-, félags- og tómstundastefnu Viðreisnar hér

 

Upprætum fordóma

Vitund og virðing fyrir kvenfrelsi og jafnrétti allra kynja er forsenda þess að uppræta staðalímyndir um hlutverk kynjanna og tryggja jafnrétti í raun á öllum sviðum samfélagsins. Hugrekki og framsýni þarf til að tryggja að Ísland verði áfram í fararbroddi á alþjóðavettvangi um jafnrétti. Áhersla er lögð á jafna stöðu og jöfn réttindi allra einstaklinga óháð kyni, aldri, búsetu, líkamlegu atgervi, fötlun, trúarbrögðum, skoðunum, uppruna, kynþætti, litarhætti, kynhneigð, kynvitund, kyntjáningu og stöðu að öðru leyti. Uppræta þarf rótgróna fordóma í samfélaginu og huga sérstaklega að stöðu þeirra sem höllustum fæti standa. Samfélagið á að styðja jafnt við alla foreldra, óháð stöðu, og áhersla sé á að foreldrar og börn geti notið samvista í sanngjörnu kerfi.

 

Barnvænt og sveigjanlegt samfélag

Fæðingarorlof verði skilgreindur réttur barns til samvistar við foreldra/forsjáraðila, óháð fjölskyldugerð, til fimm ára aldurs. Ef foreldrar eru tveir þá skiptist réttur jafnt þeirra á milli. Barn með eitt foreldri/einn forsjáraðila skal njóta fullra réttinda.

 

Greiðslur úr orlofssjóði foreldra skulu miðast við 80% tekna í allt að 365 daga. Hámark orlofsgreiðslna þarf að hækka verulega. Tryggja að allir foreldrar hafi rétt á greiddu sumarleyfi eftir fæðingarorlof.

 

Hagsmuna barna er best gætt með því að hækka til muna rétt námsmanna, fólks í minna en 25% starfi og fólks sem er nýkomið út á vinnumarkað til fæðingarstyrks. Fjárhæð þess styrks skal byggð á viðeigandi neysluviðmiðum hins opinbera.

Lestu jafnréttisstefnu Viðreisnar hér

 

Niðurgreiðum sálfræðiþjónustu

Viðreisn leggur áherslu á að andleg líðan sé jafngild þeirri líkamlegu og aðgangur fólks að sálfræðiþjónustu eða annarri nauðsynlegri klínískri meðferð verði niðurgreiddur. Í því skyni leggur Viðreisn áherslu á Sjúkratryggingar Íslands fái fjármagn til að semja við sjálfstætt starfandi meðferðaraðila í samræmi við nýsamþykkt lög um niðurgreiðslu þjónustunnar.

 

Heilsuefling þarf að vera hluti af samfélaginu öllu til að koma í veg fyrir veikindi, bæði andleg og líkamleg. Fræðsla um mataræði, hreyfingu, andlega vellíðan og snemmtæk íhlutun  eiga að vera hluti af námi barna. Tryggja þarf aðgengi að fræðslu og heilsueflandi úrræðum handa öllum út æviskeiðið.

Lestu heilbrigðis- og velferðarstefnu Viðreisnar hér

 

Fræðslumál

Við styðjum fjölbreytt rekstrarform í menntakerfinu. Við viljum að börnum sé tryggð dagvistun frá 12 mánaða aldri. Nám- og kennsluhættir skulu vera fjölbreyttir og gera skal skapandi- og starfstengdu námi hærra undir höfði. Styðja skal sérstaklega við börn með ólíka færni og börn sem ekki hafa íslensku að móðurmáli

Lestu grunnstefnu Viðreisnar í sveitarstjórnum hér