Komum í veg fyrir kynferðisofbeldi með forvörnum

Að mati þeirra sem fara fyrir göngunni er tímabært að kalla eftir því að markvissari forvarnarfræðslu verði komið inn á öll skólastig. Markmiðið sé að stöðva öll möguleg brot, enda sýni rannsóknir að gerendur séu í mörgum tilfellum ekki meðvitaðir um brot sitt.

Ljóst er að tímabundin átaksverkefni hafa ekki skilað nægum árangri og verðum við því að ráðast gegn rót vandans. Að horfa fram hjá vandamálinu er afstaða með samfélagi þöggunar sem gerir lítið úr þjáningum þolenda kynferðisofbeldis.

Viðreisn, líkt og aðrir stjórnmálaflokkar, fékk þetta ákall til sín og var það fljótlega rætt af okkur flokksmönnum. Ákallinu tökum við fagnandi og lýsum heilshugar yfir stuðningi við málstað Druslugöngunnar í einu og öllu.

Þetta snýst um persónufrelsi, rétt hvers og eins til þess að vera til á sínum eigin forsendum og tjá sig óttalaust. Samfélagið á að leggja sig fram við að vernda sjálfsögð réttindi okkar.

Við eigum að sameinast um að uppræta forneskjulegt og skaðlegt hugarfar, fræða, upplýsa og ala á virðingu. Þar skiptir öflug forvarnarfræðsla á öllum skólastigum höfuðmáli.

Í opnu húsi hjá okkur á þriðjudaginn næstkomandi, klukkan 17:00 verða jafnréttismál til umræðu. Við hvetjum sem flesta til að koma og ræða þau brýnu mál með okkur.

Á morgun, næstkomandi laugardag, verður hin árlega Drusluganga gengin frá Hallgrímskirkju klukkan 14:00. Sjáumst þar, sýnum þolendum stuðning og krefjumst umbóta.

Nánari upplýsingar um Druslugönguna má finna á Facebook síðu hreyfingarinnar.