Allt nám skiptir máli hvort sem það er innan menntastofnana eða á vinnumarkaði.

Við í Viðreisn viljum byggja upp samfélag þar sem einstaklingar vilja og geta nýtt hæfileika sína til fulls.

Saga mín er eins og margra annarra, ég fékk tækifæri og hafði val.

Að loknu grunnskólanámi, lá leið mín í Flensborgarskóla í Hafnarfirði, 18 ára var ég staðráðin í hætta námi mínu þar. Faðir minn var ekki á sama máli, og hvatti mig til þess finna aðra leið í námi, sem hentaði mér betur. Iðnskólinn í Hafnarfirði varð fyrir valinu, ég lauk tækniteiknunarnámi þaðan og eignaðist mitt fyrsta barn. Með stuðningi fjölskyldunnar tókst mér síðan að ljúka stúdentsprófi frá Flensborgarskóla. Ég var lánsöm að hafa hvatningu og stuðning frá mínum nánustu þau gáfu mér tækifæri, ég hafði val í lífinu og nýtti það til fulls og er enn í námi 42 ára gömul. Við lærum svo lengi sem við lifum.

Frá því ég hóf störf á vinnumarkaði hefur staða mín að mestu verið innan menntakerfisins, þar hef ég fengið tækifæri til þess að vinna með einstaklingum á öllum aldri við að móta, leita lausna og þróast í námi og/eða í starfi.

Sl. átta ár starfaði ég innan fullorðinsfræðslunnar sem verkefnastjóri og náms- og starfsráðgjafi á Akureyri. Þar fékk ég einstakt tækifæri til að kynnast einstaklingum með áralanga reynslu af vinnumarkaði og gera þeim ljóst að nám er val og að þeim séu allir vegir færir innan fullorðinsfræðslunnar.

Eitt af áherslumálum Viðreisnar  er mikilvægi þess að einstaklingar fái tækifæri til að fara í nám óháð aldri, búsetu og efnahag.

Leiðin þarf að vera greiðari inn í framhaldsskólana. Um 30% einstaklinga sem ekki hafa lokið formlegu námi, eldri en 25 ára, hafa ekki rétt á að ljúka stúdentsprófi frá framhaldsskólum í dag. Viðreisn leggur áherslu á að þessu verði breytt. Nám mótar einstaklinginn til frambúðar, lífsýn þeirra og atvinnutækifæri. Stefna í menntamálum á ævinlega að byggja á hugmyndum réttlætis, fjölbreytni og jafnaðar.

Í Norðausturkjördæmi eru öflugar menntastofnanirnar og mikilvægt að standa vörð um þær hvort sem það er leik-, grunn- framhalds- og háskóli  eða framhaldsfræðsla.

 

Hildur Betty Kristjánsdóttir

Skipar 2. sæti Viðreisnar í Norðausturkjördæmi