Pólitík og skipan dómara við Landsrétt

Kjarn­inn hefur fjallað um skipan dóm­ara í Lands­rétt og á margan hátt tekið for­ystu í þeirri umfjöll­un. Hlutur Við­reisnar við afgreiðslu máls­ins hefur verið reyf­aður og gagn­rýnd­ur. Það hefur einnig verið gert í öðrum fjöl­miðl­um, sam­fé­lags­miðlum og á vett­vangi stjórn­mál­anna.

Nýr dóm­stóll og jafn­rétti

Mik­il­vægt er að hafa í huga að um nýtt áfrýj­un­ar­dóm­stig er að ræða, nýjan dóm­stól sem byggður er frá grunni. Við dóm­stól­inn starfa 15 dóm­ar­ar. Hér er um ein­stæðan atburð að ræða og kjörið tæki­færi til þess að sinna kalli nútím­ans um sem jafn­ast hlut­fall karla og kvenna, úr hópi hæfra umsækj­enda, auk ann­arra góðra kosta sem prýða dóm­ara við nútíma­legan dóm­stól.

Við­reisn hefur sterkar skoð­anir á jafn­rétt­is­málum og beitir sér fyrir því að jafna hlut karla og kvenna í þjóð­fé­lag­inu. Það gildir líka um dóm­stóla.

Umfjöllun áður en umsókn­ar­frestur var úti

Þann 2. febr­úar 2017 var útbýtt þing­máli á Alþingi sem er ætlað að taka af öll tví­mæli um að nefnd sem fjallar um hæfni umsækj­enda um emb­ætti dóm­ara taki einnig til með­ferðar umsóknir um emb­ætti dóm­ara við Lands­rétt og veiti ráð­herra umsögn um umsækj­end­ur.

Málið var til fyrstu umræðu í þing­sal þann 7. febr­ú­ar. Við það tæki­færi sagði und­ir­rit­að­ur:

„Hér er verið að fjalla um hæf­is­reglur og skipan dóm­ara í hinn nýja Lands­rétt. Af því til­efni langar mig til að spyrja hæst­virtan dóms­mála­ráð­herra hvort ekki sé ástæða til að setja sér­stök ákvæði um skipan dóm­ara sem feli í sér að auk almennra hæf­is­skil­yrða skuli sér­stak­lega horft til sjón­ar­miða um jafn­rétti kynj­anna. Til­gang­ur­inn væri auð­vitað að vinna mark­visst að því að jafna kynja­hlut­föll meðal dóm­ara. Hér er nýr dóm­stóll í fæð­ingu, 15 dóm­arar sem koma þar til starfa. Manni sýn­ist að hér sé ein­stakt tæki­færi til að ná jöfn­uði þegar þessi nýi dóm­stóll verður settur á lagg­irn­ar.“

All­margir aðrir þing­menn tóku til máls og gerðu flestir jafn­rétt­is­sjón­ar­mið að umtals­efni. Má þar nefna Andrés Inga Jóns­son sem sagði m.a. við umræð­urn­ar:„Hátt­virtum þing­manni er tíð­rætt um að hæfni eigi að ráða skipan mála og má alveg taka undir það. En ekki má loka aug­unum fyrir því að þessi hæfni er ekki hlut­laus gjöf nátt­úr­unn­ar. Eins og dæmið sem ég nefndi áðan um að hæsta­rétt­ar­dóm­arar hefðu ein­göngu kallað til karla sem vara­dóm­ara þennan vet­ur­inn. Þetta er reynsla sem telur inn í hæfni þegar kemur að skipan í dóm­ara­emb­ætti. Þetta við­heldur skekkju í kerf­inu ef ekk­ert er að gert.“

Mál­inu var vísað til alls­herj­ar- og mennta­mála­nefndar til með­ferð­ar. Nefndin skil­aði tveimur álit­um. Nefnd­ar­á­lit meiri hluta alls­herj­ar- og mennta­mála­nefndar um málið frá því 23. febr­úar end­ur­speglar þessa miklu umræðu um kynja­sjón­ar­mið við skipan dóm­ara við Lands­rétt, en þar seg­ir m.a:

„Sam­kvæmt nýjum lögum um dóm­stóla, nr. 50/2016, er gert ráð fyrir að Lands­réttur taki til starfa 1. jan­úar 2018 en í rétt­inum skulu eiga sæti 15 dóm­ar­ar. Við með­ferð frum­varps­ins í nefnd­inni var rætt almennt um gagn­rýni á fyr­ir­komu­lag við skipun dóm­ara. Í því sam­hengi var m.a. rætt um mat dóm­nefndar á hæfni umsækj­enda um dóm­ara­emb­ætti, kynja­hlut­fall við dóm­stóla og hvernig sjón­ar­mið um jafn­rétti koma til skoð­unar við skipun dóm­ara. … við ákvörðun ráð­herra um skipun dóm­ara og leggur meiri hlut­inn áherslu á að ráð­herra hafi að mark­miði í því sam­hengi að kynja­hlut­föll verði sem jöfn­ust í hópi skip­aðra dóm­ara“. 

Nefnd­ar­á­lit minni hlut­ans kveður enn fastar að orði um mik­il­vægi jafn­rétt­is­sjón­ar­miða:

„Minni hlut­inn telur að sam­hljómur hafi verið um mark­miðið að jafna hlut kynj­anna innan dóms­kerf­is­ins meðal nefnd­ar­manna, en er ósam­mála meiri hlut­anum um þær leiðir sem mætti beita til að ná því mark­miði. Minni hlut­inn telur að sú afstaða meiri hlut­ans að árétta að líta þurfi til jafn­rétt­islaga við skipun dóm­ara í nefnd­ar­á­liti sé ekki nægj­an­leg. Minni hlut­inn telur að þó að eðli­legt hljóti að telj­ast að dóms­mála­ráð­herra starfi í sam­ræmi við jafn­rétt­islög sé full ástæðu til að hnykkja á þeirri afstöðu í laga­text­anum sjálf­um. Minni hlut­inn telur að nú sé sögu­legt tæki­færi til að ná jöfnu hlut­falli kynj­anna hjá dóm­urum á nýju dóm­stigi strax frá fyrsta degi og það tæki­færi er mik­il­vægt að verja með skýru ákvæði sem nær yfir þessa fyrstu skipan dóm­ara“. 

Önnur umræða um dóm­stóla­lögin hófst 24. febr­úar og var fram haldið 27. febr­ú­ar. Þá sagði Pawel Bar­toz­sek m.a:

„Við vinnu við frum­varpið kom fram sú skoðun að kynja­hlut­föll við nýjan dóm­stól ættu að vera frá upp­hafi sem jöfn­ust og end­ur­spegl­ast sú skoðun meðal ann­ars í áliti minni hluta og breyt­ing­ar­til­lög­unni sem álit­inu fylg­ir. Þing­flokkur Við­reisnar deilir þeirri sýn sem þar kemur fram“. 

Síðar þennan sama dag fór einnig fram þriðja umræða og frum­varpið varð að lögum eftir atkvæða­greiðslu.

Andrés Ingi Jóns­son gerði við það tæki­færi svo­fellda grein fyrir atkvæði sínu:

„Ég geri hér grein fyrir atkvæði mínu í máli um Lands­rétt, svo það sé á hreinu, og vil ítreka það sem áður hefur komið fram að ég lít svo á að við öll í þessum sal, líka þið, hv. þing­menn, sem ekki sam­þykktuð breyt­ing­ar­til­lögu minni hluta alls­herj­ar- og mennta­mála­nefnd­ar, séum sam­mála um að Lands­réttur eigi að end­ur­spegla sam­fé­lag­ið, hann eigi að vera jafnt skip­aður körlum og kon­um. Ef það ferli sem nú fer í gang innan ráðu­neytis dóms­mála skilar ekki þeirri nið­ur­stöðu er okkur að mæta“. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Síðar hefur komið í ljós að þessi atkvæða­skýr­ing virð­ist hafa misst þýð­ingu sína og þunga.

Póli­tísk skila­boð

Hin póli­tísku skila­boð frá Við­reisn, og að því er virt­ist Vinstri græn­um, voru afdrátt­ar­laus og skýr og gátu hvorki dulist þing­heimi né ráð­herra dóms­mála. Krafan gat ekki verið skýr­ari. Grípa yrði þetta ein­stæða tæki­færi til að gæta jafn­vægis kynja við þessa skip­an. 

Umsókn­ar­fresti um hin nýju dóm­ara­emb­ætti lauk 28. febr­úar og þann 2. mars var listi umsækj­enda gerður opin­ber, nokkrum dögum eftir að umræð­unni lauk á Alþingi.

Dóm­nefndin skil­aði svo sínu mati til dóms­mála­ráð­herra 19. maí og var það birt á vef ráðu­neyt­is­ins þann 22. maí. Þá varð ljóst að nefndin mat nákvæm­lega 15 ein­stak­linga, 10 karla og 5 kon­ur, hæf­asta til þess að taka sæti í dómn­um. Þá þegar varð ljóst að póli­tískar óskir a.m.k. tveggja flokka um jafn­vægi milli kynja yrðu ekki upp­fylltar skv. þessum lista. Þetta var öllum ljóst.

Þing­flokkur Við­reisnar ítrek­aði sem fyrr þá skoðun sína að gæta yrði jafn­vægis milli kynja við hinn nýja dóm­stól, hlut­fallið 10 karlar og 5 konur væri ekki ásætt­an­legt og myndi flokk­ur­inn ekki standa að sam­þykkt list­ans með þessu kynja­hlut­falli. Þeirri skoðun var komið skýrt á fram­færi við dóms­mála­ráð­herra. Þeim skila­boðum fylgdi alls ekk­ert ann­að. Hvorki um hvaða ein­stak­lingar yrðu fyrir val­inu né nákvæmar óskir um fjölda karla og kvenna. Ein­ungis að list­inn með núver­andi kynja­hlut­föllum yrði ekki sam­þykkt­ur.

Önnur afskipti hafa þing­menn Við­reisnar ekki haft af skipan dóm­ara við Lands­rétt og myndi aldrei detta í hug að gera. Að sjálfu leiðir að það er dóms­mála­ráð­herra einn, að feng­inni umsögn dóm­nefnd­ar­inn­ar, sem leggur til­lögu sína fyrir Alþingi og ber ábyrgð á henni. List­inn sem ráð­herra lagði fyrir Alþingi upp­fyllti að fullu áherslu Við­reisnar um við­un­andi hlut­fall beggja kynja úr hópi hæfra ein­stak­linga við dóm­stól­inn.

Við loka­af­greiðslu til­lagna dóms­mála­ráð­herra um skipun dóm­ara við Lands­rétt sagði und­ir­rit­að­ur m.a:

„Það er hvorki vanda­laust né hafið yfir gagn­rýni og skoð­ana­skipti hvernig ákveðið er að velja og skipa dóm­ara við hinn nýja Lands­rétt. Það end­ur­spegl­ast vel í umræðum sem hafa orðið í þing­sal í dag og einnig þegar fjallað var um frum­varp til laga um breyt­ingu á lögum um dóm­stóla fyrir nokkrum vikum … Nú hefur það gerst að dóm­nefndin skil­aði lista með 15 umsækj­end­um, tíu körlum og fimm kon­um, en dóms­mála­ráð­herra nýtt sér heim­ild í lögum til að leggja fram eigin lista með ell­efu þeirra sem dóm­nefndin lagði til en að auki nöfn fjög­urra sem dóm­nefndin hafði metið hæfa en ekki sett í hóp þeirra 15 sem dóm­nefndin lagði til. Við þessa breyt­ingu verða átta karlar og sjö konur á lista dóm­ara­efna. Það er mikið fagn­að­ar­efni og hefur mikla þýð­ingu fyrir hinn nýja dóm­stól og störf hans. Það stemmir mjög vel við mín sjón­ar­mið í jafn­rétt­is­málum og ég veit að svo er einnig um mjög marga aðra hv. þing­menn“.

Stóðum fast á okkar

Við­reisn hefur staðið við sína póli­tísku sann­fær­ingu í þessu máli frá upp­hafi til enda. Sú sann­fær­ing snýst um jafna stöðu kynj­anna en ekki ein­stak­linga. Allir þing­menn Við­reisnar eru og voru ein­huga í þessu máli, sem er mik­il­vægur áfangi í að jafna stöðu karla og kvenna í íslensku sam­fé­lagi.

Greinin birtist í Kjarnanum 13. júní 2017.