Samþykki í forgrunn

Á und­an­förnum árum hefur umræða um kyn­bundið ofbeldi farið vax­andi hér á landi og mik­ill fjöldi kvenna og stúlkna stigið fram, m.a. á vett­vangi sam­fé­lags­miðla, og greint frá reynslu af kyn­ferð­is­of­beldi og þannig lagt áherslu á að ekki verði lengur þagað um til­vist slíks ofbeldis og þann mikla vanda sem því fylg­ir. 

Þegar fjallað er um kyn­bundið ofbeldi, og í for­varn­ar­starfi gegn því, hefur jafn­framt verið lögð áhersla á að auka skiln­ing ungs fólks á mörk­unum milli kyn­lífs og ofbeldis og jafn­framt að færa ábyrgð frá þol­anda slíks ofbeldis til ger­and­ans. Gott dæmi um það er stutt­myndin „Fáðu já!“ sem vakið hefur verð­skuld­aða athygli. Þá hafa dómar í kyn­ferð­is­brota­málum og frá­sagnir af með­ferð nauðg­un­ar­mála innan rétt­ar­vörslu­kerf­is­ins vakið við­brögð og mót­mæli í sam­fé­lag­inu. Það er skylda þing­manna að sjá til þess að lögin séu sann­gjörn og sporni gegn úreltum við­horfum og það á sann­ar­lega við hér. 

Á síð­asta ári leit­uðu 169 ein­stak­lingar á neyð­ar­mót­töku Land­spít­ala vegna nauð­gana en þeir hafa aldrei verið fleiri. Árið 2015 leit­uðu 145 ein­stak­lingar til neyð­ar­mót­tök­unn­ar. Þrátt fyrir þetta hef­ur nauðg­un­ar­kærum til lög­reglu ekki fjölgað á sama tíma. Öll vitum við að mik­ill meiri­hluti þess­ara þolenda eru kon­ur.

Nauð­syn­leg breyt­ing á hegn­ing­ar­lögum

Í vor lagði ég fram, ásamt þing­mönnum Við­reisn­ar, frum­varp sem hefur það að mark­miði að draga úr kyn­ferð­is­af­brotum og breyta við­horfum með nútíma­legri skil­grein­ingu á afbrot­inu nauðg­un. Lagt er til að að sam­þykki verði sett í for­grunn, með öðrum orðum að sá, sem á sam­ræði eða önnur kyn­ferð­is­mök við annan án sam­þykkis hans, sé sekur um nauðg­un. Þannig er það skortur á sam­þykki til sam­ræðis eða ann­arra kyn­ferð­is­maka sem skil­greinir nauðg­un­ina. 

Sam­þykki fyrir sam­ræði eða öðrum kyn­ferð­is­mökum þarf að hafa verið tjáð af frjálsum vilja. ­Sam­þykki telst ekki liggja fyrir ef það er fengið með ofbeldi, hót­unum eða ann­ars konar ólög­mætri nauð­ung, eða með því að beita blekk­ingum eða hag­nýta sér villu við­kom­andi um aðstæð­ur. 

Vernd sjálfs­á­kvörð­un­ar­réttar til kyn­lífs

Ákvæðum kyn­ferð­is­brotakafla almennra hegn­ing­ar­laga er það öllum sam­eig­in­legt að varða kyn­líf fólks og er ætlað að vernda frelsi á því sviði. Hags­munir þeir sem ákvæðin eiga að vernda eru fyrst og fremst frið­helgi ein­stak­lings­ins, þ.e. kyn­frelsi og sjálfs­á­kvörð­un­ar­réttur hvað varðar kyn­líf, lík­ama og til­finn­inga­líf. Hver ein­stak­lingur á að hafa frelsi til að ákveða að hafa sam­ræði eða önnur kyn­ferð­is­mök en jafn­framt rétt til þess að hafna þátt­töku í kyn­ferð­is­legum athöfn­um. Nauð­syn­legt er að skil­greina nauðgun út frá skorti á sam­þykki til þess að unnt sé að veita kyn­frelsi full­nægj­andi rétt­ar­vernd. 

Þekkt er að þolendur nauð­gana geta ekki í öllum til­vikum veitt ger­anda mót­spyrnu, t.d. vegna þess að þeir frjósa eða lam­ast af hræðslu. Rann­sóknir hafa leitt í ljós að þessi við­brögð eru algeng og að ger­andi þarf þá ekki að beita miklu lík­am­legu afli til að ná fram vilja sín­um. Það verður sömu­leiðis til þess að í reynd er óal­gengt að þolendur beri mikla lík­am­lega áverka eftir nauðg­un. Sýni­legt lík­am­legt ofbeldi er því ekki sér­stak­lega algengt í kæru­málum vegna nauð­gana. 

Við­horfum verður að breyta

Ný skil­grein­ing á nauðgun er því vissu­lega engin töfra­lausn. Á hinn bóg­inn er þessi breytta skil­grein­ing til þess fallin að stuðla að nauð­syn­legum breyt­ingum á við­horfum til brots­ins. Verði nauðgun skil­greind út frá skorti á sam­þykki, mun áhersla á sam­þykki aukast við rann­sókn og sak­sókn nauðg­un­ar­brota. Þá mun slík skil­grein­ing jafn­framt fela í sér að mik­il­vægi kyn­frelsis er gert mun hærra undir höfði en áður og jafn­vel geta orðið til þess, sam­hliða auk­inni fræðslu, að fólk verði með­vitað um mik­il­vægi þess að sam­þykki liggi fyrir þegar kyn­ferð­is­legar athafnir eiga í hlut. 

Ríka áherslu ber að leggja á almenn varn­að­ar­á­hrif slíks ákvæð­is. Lík­legt er að ein­stak­lingar verði með­vit­aðri um mik­il­vægi þess að sam­þykki er alltaf for­senda kyn­ferð­is­legra athafna. 

Frum­varpið hefur fengið góðar við­tökur og má til dæmis um það benda á erindi Ragn­heiðar Braga­dótt­ur, pró­fess­ors í refsirétti við Laga­deild Háskóla Íslands á hádeg­is­fyr­ir­lestri Rann­sókn­ar­stofn­unar í jafn­rétt­is­fræðum 21. sept­em­ber sl.

Kar­læg ­sjón­ar­mið eiga að víkja

Breyt­ing á skil­grein­ingu nauðg­unar er liður í því að breyta við­horfum sem feðra­veldi for­tíðar hefur skapað og eru enn ríkj­andi eða eimir sterkt af á mörgum stöð­um. Með frum­varp­inu er horfið frá þeim kar­læg­u ­sjón­ar­miðum sem end­ur­spegl­ast víða að við til­teknar aðstæður eigi karl­maður nán­ast rétt á kyn­lífi með konu. Þá eru þau við­horf lífseig að þegar fólk er í sam­bandi, hvort sem það er innan hjóna­bands eða utan, ryðji það með ein­hverjum hætti úr vegi kyn­frelsi og sjálfs­á­kvörð­un­ar­rétti þegar kyn­líf á í hlut. Klám­væð­ing og hlut­gerv­ing kvenna ýtir enn frekar undir að líta á konur sem kyn­verur fyrst og fremst sem séu með ein­hverju móti til þess eins að svala þörf karla fyrir kyn­líf. 

Gera þarf allt sem unnt er til þess að ýta þessum við­horfum til hlið­ar. Þar lætur Við­reisn ekki sitt eftir liggja.

Höf­undur er alþing­is­maður Við­reisn­ar. Grein birtist fyrst á Kjarnanum 29. september 2017.