Konur og fjármál

Þrátt fyrir að margt hafi áunnist í jafnréttismálum hér á landi er eins og ákveðin svið samfélagsins séu alltaf sér á báti. Dæmi um þetta er fjármálageirinn. Tölurnar eru sláandi – ríflega 90 prósent þeirra sem stýra peningum hér á landi eru karlar.

Yfirgæfandi meirihluti starfsmanna í eignastýringu, fjárfestingum og tengdri ráðgjöf eru karlar. Ef litið er til lífeyrissjóðanna er hlutfallið svipað, tæplega 90 prósent framkvæmdastjóra lífeyrissjóða hér á landi eru karlar. 

Hvers vegna eru lífeyrissjóðirnir sérstaklega nefndir? Lífeyrissjóðirnir tilheyra öllum almenningi, allir verða að greiða í lífeyrissjóð af launum sínum. Lífeyrissjóðir hafa því samfélagslegu hlutverki að gegna, þeir sýsla með peningana okkar. Lífeyrissjóðirnir eru líka gríðarlega umsvifamiklir í viðskiptalífinu. Þeir fjárfesta í skráðum hlutabréfum og skuldabréfum, óskráðum fyrirtækjum og umsvifin í fasteignalánum fara aukandi. 

Viðreisn leggur því til að lífeyrissjóðirnir axli ábyrgð þegar kemur að framgangi jafnréttis í samfélaginu. Við viljum lögfesta þá skyldu þannig að lífeyrissjóðum sé gert að setja sér jafnréttisstefnu sem nái líka til fjárfestinga þeirra. Reyndin er sú að allar rannsóknir sýna að fyrirtækjum sem búa yfir fjölbreyttum stjórnendahópi karla og kvenna vegnar betur. Það ætti því í raun að vera sjálfsagt mál að sjóðir sem vilja hámarka afkomu fjárfestinga sinna líti til jafnréttissjónarmiða. Sú hefur ekki verið raunin og þess vegna er mikilvægt að lögfesta þessa skyldu. 

Ákvæði um jafnréttisstefnu er hins vegar ekki nóg, það þarf að ríkja gagnsæi um hvernig hún er framkvæmd. Þess vegna leggur Viðreisn einnig til að lífeyrissjóðum verði lögum samkvæmt skylt að gera grein fyrir því í ársskýrslu hvernig jafnréttisstefnan er framkvæmd. Þannig myndu sjóðirnir til dæmis þurfa að útskýra hvers vegna fjárfest er í fyrirtækjum sem uppfylla ekki jafnréttisviðmið. 

Það er skylda stjórnmálanna að vera vakandi yfir því hvernig má breyta og bæta kerfi almenningi til góðs. Við eigum ekki að líða að tiltekin svið samfélagsins festist í kynbundinni misskiptingu. Jafnréttið er okkar.

Höfundur er í þriðja sæti á lista Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður. Grein birtist fyrst á visir.is 18. október 2017.