Langtímasýnin er gölluð

„Það vantar langtímasýn í landbúnaðarmálin“ höfum við heyrt fleygt fram í kosningabaráttunni. Að einhverju leyti er það satt, en að öðru leyti ekki. Þannig er til dæmis í gildi búvörusamningur sem tekur til næstu tíu ára. Leitun er að slíkri langtímasýn í íslenskri pólitík, nema ef vera skyldi þegar kemur að húsnæðislánunum okkar sem yfirleitt eru til 40 ára.

Meinið er að framtíðarsýnin er gölluð. Svo gölluð raunar að áður en fyrsta sláturtíð af tíu hófst var sauðfjárhluti kerfisins kominn á hliðina. Reynt hefur verið að lina höggið sem áfallið er líklegt til að valda. Sérstaklega hafa yfirvöld reynt að styðja unga bændur til að halda áfram búrekstri, beina styrkjum frekar til bænda af veikari svæðum, tryggja að ástandið sem nú er uppi endurtaki sig ekki, og beina fjármunum frekar úr framleiðsluhvetjandi styrkjum í jarðbætur, nýsköpun og umhverfisvernd.

Bændasamtökin leika tveimur skjöldum

Þessu var öllu hafnað af Bændasamtökunum. Samtökin sem töldu ósanngjarnt að beina stuðningi frekar til yngri bænda voru samt snögg að kvarta yfir því að yngri bændur væru líklegir til að bregða búi. Samtökin sem stóðu gegn sérstökum styrkjum til veikari byggða sögðu aðgerðir ríkisins vega að byggð í landinu. Samtökin sem sögðust vera umhverfissinnuð andmæltu því að nýta svigrúm í búvörusamningi til að stuðla að mótvægisaðgerðum vegna loftslagsvár.

Viðreisn telur að breyta þurfi landbúnaðarkerfinu okkar svo það gagnist bændum og neytendum betur, fremur en bændasamtökunum og afurðastöðvum.

Gylfi Ólafsson og Lee Ann Maginnis

Höfundar skipa fyrstu tvö sæti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi. Grein birtist fyrst í Feyki 26. október 2017.