Stjórnmálin þurfa auðmýkt

Skuggakosningar voru í framhaldsskólum landsins í síðustu viku. Síðdegisútvarp RÚV ræddi við nemendur í MA sem sátu framboðsfund í aðdraganda kosninganna. Annar viðmælandinn sagði að ef um hefði verið að ræða fyrirtæki með starfskynningu hefði það ekki höfðað til hans. Af hverju? Jú, fundurinn var ómálefnalegur og honum líkaði alls ekki framkoma frambjóðenda á fundinum. Gilti það jafnt um samskipti við nemendur og aðra frambjóðendur. Það vantaði kurteisi, meira samtal og málefnalega umræðu. Nemandinn hittir naglann á höfuðið.

Hlustum á ungt fólk

Við brýnum fyrir börnunum okkar að vera kurteis, sýna náunganum virðingu og koma vel fram. Af hverju gleymist það þegar frambjóðendur reyna að vekja athygli ungs fólks á stjórnmálum og brýnum viðfangsefnum?

Það er á okkar ábyrgð að koma umræðunni á hærra plan. Við verðum að geta verið sammála um vera ósammála, eiga í rökræðum á uppbyggilegan hátt, viðurkenna þegar við gerum mistök og sýna auðmýkt. Virðing fyrir fólki þarf ekki að vera á kostnað þess að koma sjónarmiðum sínum og gagnrýni á framfæri.

Við vitum að ungt fólk fer síður á kjörstað en þeir eldri. Ein ástæða þess er örugglega sú að þeim finnst pólitískt þjark og rifrildi leiðinlegt. Til hvers á eiginlega að taka þátt í þessu sjónarspili sem virðist helst hafa það að markmiði að koma höggi á andstæðinga en ekki að ræða framtíðina og raunhæfar lausnir. Hætt er við að hugsjónir ungs fólks um frjálslyndi, umhverfisvernd og jafnrétti hafi ekki tilskilin áhrif á skipan Alþingis ef þau hafa ekki trú á að stjórnmálaflokkar, stjórnmálamenn og Alþingi sé treystandi. Þessu þarf að breyta. Auðmýkt og kurteisi eru fyrstu skrefin.  

Viðreisn vill vinna með ungu fólki að kerfisbreytingum, jafnt í stjórnmálum sem annars staðar. Ungliðahreyfing okkar heitir því skemmtilega nafni Uppreisn. Ungliðarnir eru virkir og taka þátt í öllu starfi og stefnumótun Viðreisnar til jafns við alla aðra.

Lee Ann Maginnis skipar 2. sæti á lista Viðreisnar i Norðvesturkjördæmi. Grein birtist fyrst á Húnahorninu 17. október 2017.