Atvinnumöguleikar í Árborg?

Sveitarfélagið Árborg hefur í mínum huga möguleika á að verða eitt öflugasta sveitarfélag landsins ef við íbúarnir og þeir sem veljast til að stjórna því bera gæfu til þess að sameinast um heildarstefnu og framtíðarsýn sem snýr að því að byggja upp sveitarfélagið sem eina heild og nýta styrkleikana sem í því er að finna.

Eitt mikilvægasta verkefnið sem blasir við okkur er hvernig við getum aukið tekjur sveitarfélagsins. Þrátt fyrir að íbúar sveitarfélagisins séu orðnir yfir 9.000 þá eru útsvarstekjurnar tiltölulegar lágar miðað við sambærileg sveitarfélög. Þetta kemur aðallega til af því hversu lágt atvinnustigið er í sveitarfélaginu, en flest störf eru framleiðslu-, ummönnunar- og þjónustustörf.

Til þess að breyta því og fá fjölbreyttari störf inn í sveitarfélagið gæti ein leiðin verið sú að auka áherslu á tæknigreinar í menntastofnunum sveitarfélagsins. Fjórða iðnbyltingin er hafin og með henni fylgir mikil þörf á starfsfólki sem annars vegar er sterkt á sviðið forritunar og gervigreindar og hins vegar á sviði þróunar og nýsköpunar á framleiðsluleiðum sem byggja á sjálfvirkni. Kosturinn við þessi störf er að þau þurfa ekki mikið rými en geta verið mjög ábatasöm. Í því samhengi mætti því hugsa sér að sveitarfélagið beitti sér fyrir uppbyggingu á þekkingar- og háskólasamfélagi, til dæmis í samstarfi við Fjölheima, þar sem megináhersla væri lögð á menntun sem sniðin væri að hátæknistörfum framtíðarinnar.

Önnur leið sem gæti orðið til þess að fjölga störfum felast í áformum um byggingu flugvallar sem kynntar voru fyrir síðustu jól. Þetta er framtak sem ég fagna mjög og tel að sveitarfélagið eigi að beita sér fyrir því að þessi hugmynd nái fram að ganga. Ástæðan er sú að með því að fá flugvöll af þeirri stærðargráðu sem um ræðir fylgja í kjölfarið fjölbreytt störf sem ná yfir mörg svið en að auki krefst slík starfssemi mikilar utanaðkomandi þjónustu sem yrði til þess að afleiddum störfum myndi fjölga. Einnig gæti myndast þrýstingur fyrir því að færa hluta innanlandsflugsins frá Reykjavík og á þennan flugvöll sem aftur gæti myndað þrýsting til þess að auka framlög til Heilbrigiðsstofnunar Suðurlands þannig að það væri tryggt að skurðstofur væru til taks allan ársins hring vegna mögulegs sjúkraflugs en einnig vegna þess að þetta væri varaflugvöllur fyrir Reykjavík og Keflavík. Auk þess myndi þessi flugvöllur geta orðið áfangastaður fyrir millilandaflug en ekki bara varaflugvöllur. Það myndi án efa leiða til fjölgunar ferðamanna og yrði það væntanlega til þæginda fyrir einhverja erlenda ferðamenn sem þyrftu í raun ekki að fara til Keflavíkur, enda fara 70% allra sumarferðamanna um Suðurland.

Og þá er komið að þriðju leiðinni. Fjölgun ferðamanna til Íslands hefur verið ævintýraleg undanfarin ár. Af einhverjum ástæðum virðist samt þessi fjöldi ferðamanna ekki skilja mikið eftir sig í Árborg. Tækifærin eru hins vegar til staðar. Það sem þarf að byrja á er að stoppa ferðamennina í Árborg. Hvernig gerum við það ? Jú við nýtum okkur það sem gerir sveitarfélagið Árborg einstakt en það eru andstæðurnar innan þess. Selfoss er nútímabær með flest alla þá verslun og þjónustu sem ferðamenn þurfa á að halda, þorpin niður við ströndina eru hins vegar tákn um gamla tímann með söfnum, ýmsa afþreyingu og tækifærum til náttúruskoðunar með fjölbreytri strandlengju, fuglafriðunarsvæði og Ölfusá sem rennur á vesturmörkum sveitarfélagsins. Á milli er svo sveitin og Kaldaðarnes en saga þess er mjög merkileg og mætti gera ýmislegt með hana ef áhugi væri á því. Með því að hugsa um sveitarfélagið sem eina heild þegar kemur að stefnumótun ferðaþjónustunar í Árborg væri mögulegt að auka tekjur af ferðamönnum með því að gera sveitarfélagið að aðlaðandi og áhugaverðum áfangastað en ekki áningarstað. Leiðin til þess er að bjóða uppá sem mesta fjölbreytni og við erum í einstakri aðstöðu til þess hér í Árborg.

Vissulega er þetta ekki tæmandi upptalning á því sem hægt væri að gera til að auka útsvarstekjur en útgangspunkturinn er sá að sveitarfélagið Árborg þarf að setja sér skýr markmið og marka skýra stefnu til langs tíma með hvaða hætti hægt sé að stuðla að hærra atvinnustigi og þannig hærri útsvarstekjum til framtíðar. Eftir því sem ég kemst næst er engin slík stefna til staðar í dag, aðeins óljós og almennt orðuð atvinnumálastefna fyrir sveitarfélagið sem samþykkt var í mars 2005 og finna má á heimasíðu sveitarfélagsins, arborg.is.

Greinin birtist fyrst í Dagskránni, fréttablaði Suðurlands 6. febrúar 2018