Áttu barn á biðlista?

Átt þú barn á biðlista? Er barnið á biðlista eftir leikskólaplássi eða eftir frístundaheimili? Eða er það kannski á biðlista eftir greiningu eða jafnvel sértæku úrræði?

Af hverju eru hundruðir barna á biðlistum hjá Reykjavíkurborg? Er það vegna þess að þarfir barna eru ekki settar í forgang þegar kemur að fjárhagsáætlanagerð eða er það vegna þess að börn eru ekki nægilega hávær þrýstihópur? Eða er það hreinlega vegna þess að við höfum sætt okkur við stöðuna eins og hún er og höfum alltof lengi verið að plástra laskað kerfi?

Það væri mikil einföldun að segja að það þyrfti bara að fjölga leikskólaplássum til þess að stytta biðlista á leikskólum. Til þess að hægt sé að fjölga leikskólaplássum um 750-800 eins og núverandi meirihluti hefur þegar sett í farveg þarf að fjölga um að minnsta kosti 100 stöðugildi. Það rímar illa við þá manneklu sem hefur verið viðvarandi vandamál í leikskólum borgarinnar og því ljóst að biðlistavandinn verður ekki leystur nema með því að horfast í augu við að starfsumhverfi leikskólanna er ekki boðlegt og laun ekki samkeppnishæf.

En biðlistar borgarinnar einskorðast ekki við leikskólastigið. Þegar barn hefur grunnskólagöngu heldur vandamálið áfram. Líklega þekkja allir foreldrar í Reykjavík þá tilfinningu að sitja sveittir á vorin yfir skráningarkerfi Rafrænnar Reykjavíkur sem hrynur af álagi þegar allir foreldrar skrá sig inn samtímis til þess að tryggja pláss fyrir barnið sitt á frístundaheimili næsta vetur. Er ekki galið að lögmálið fyrstur kemur fyrstur fær gildir þegar um er að ræða þjónustu fyrir börn? Vandinn er einfaldlega sá að frístundaheimilin eru aldrei fullmönnuð strax á haustin, sem gerir það að verkum að unnið er úr umsóknum jafnvel fram að áramótum eftir því sem tekst að ráða inn starfsfólk.

Börn sem þurfa á sértækum úrræðum að halda eru áfram látin bíða. Í dag bíður hvert barn að jafnaði í eitt og hálft til tvö ár eftir því að komast að í greiningu. Það virðist vera orðið lögmál að ferlið taki svona langan tíma. Þegar raunin er samt sem áður sú að fljótlega eftir að skólaganga barns hefst kemur í ljós hverjar þarfir þess eru. Í stað þess að skólinn geti brugðist strax við og mætt þörfum barnsins að fullu er kerfið greiningardrifið. Það gerir það að það verkum að börn eru látin bíða þar til greiningarferlinu er lokið til að eiga rétt á viðeigandi stuðningi. Í stað þess að láta börnin líða fyrir óskilvirkt kerfi og langa biðlista væri hægt að brúa bilið með því að treysta mati fagfólks í skólum. Þannig væri hægt að veita því svigrúm til að mæta ólíkum þörfum barna meðan á greiningarferlinu stendur. Það verður að tryggja að forsenda fjárfestingar borgarinnar í stuðningsúrræðum fyrir börn sé ekki einskorðuð við niðurstöðu greiningar. Nauðsynlegt er að sveigjanleiki og snemmtæk úrræði séu í forgrunni svo þarfir barna mæti ekki afgangi.

Við í Viðreisn höfum mjög ákveðnar hugmyndir um hvernig megi leysa þennan biðlistavanda og ætlum að setja það í algjöran forgang. Við vitum að í leikskólum, skólum og á frístundaheimilum er til staðar næg fagþekking og vilji til að koma til móts við þarfir barna en það er aftur á móti stjórnsýslan sem þarf að tryggja að málefni barna séu raunverulega sett í forgang. Við þufum að gera vinnustaði borgarinnar, sem mennta börnin okkar, að eftirsóttum vinnustöðum með því að leiðrétta kjör kvennastétta strax í samræmi við þingsályktunartillögu Viðreisnar sem nú liggur fyrir á Alþingi

Við þurfum að treysta fagfólki í skóla- og frístundastarfi, bæta aðbúnað þess og minnka miðstýringu löngu staðnaðs kerfis. Þetta er spurning um forgang, fjármagn og pólitískan vilja. Það munum við í Viðreisn tryggja. 

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík og Vilborg Guðrún Sigurðardóttir, grunnskólakennari, sem skipar 5. sæti listans. Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 20. apríl 2018.