10 apr Dagur lofar harkalegum niðurskurði fjárfestinga í næstu kreppu
Árið er 2021. Hægst hefur um í efnahagslífinu. Dagur B. Eggertsson stígur til hliðar úr stól borgarstjóra þegar hann nær kjöri inn á þing. Samfylkingin heldur prófkjör, nýr oddviti birtist og vinnur glæstan sigur.
Á fjölmennum blaðamannafundi heldur oddviti Samfylkingarinnar, hinn nýi, kynningu á stefnu sinni fyrir Reykjavík fyrir komandi ár og næsta kjörtímabil. Áherslurnar eru:
- Mikill samdráttur í fjárfestingum borgarinnar.
- Stóraukið aðhald á rekstri borgarsjóðs.
- Metnaðarfull niðurgreiðsla skulda.
Blaðamennirnir spyrja: „Á ekki að hækka laun kennara? Á ekki að byggja félagslegt húsnæði nú þegar hægst hefur á fasteignamarkaði? Er rétt að skera niður í bæjarvinnunni nú þegar atvinnuleysi er að aukast?“
Oddvitinn er óbilgjarn: „Skuldaniðurgreiðsla gengur fyrir! Kúrsinn er klár og hefur verið lengi; fjárfestingarnar eiga að vera þriðjungur þess sem þær voru 2018!“
Trúum við þessu? Trúum við því að einhver stjórnmálamaður fari í þarnæstu kosningar með loforð um harkalegt aðhald í rekstri og fjárfestingum á vegum borgarinnar og loforð um niðurgreiðslu skulda? Sérstaklega þegar líklegt er að eftir fjögur ár verðum við í talsvert verri aðstöðu til að greiða niður skuldir en við erum nú? Varla trúum við því.
En samt er það nákvæmlega það sem Samfylkingin er að segja okkur að hún ætli sér að gera:
Mynd: Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2018-2022.
Myndin er úr fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2018-2022 og sýnir samstæðuna. Á kosningaárinu 2022 verða fjárfestingar sem sagt í lágmarki og aðhald mikið. Einmitt. Við eigum líka að trúa því að þrátt fyrir að nú sé Reykjavík að auka skuldir sínar í bullandi góðæri þá munu stjórnmálamenn á kosningaárinu 2022 keppast við að slá met og uppgreiðslu skulda:
Mynd: Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2018-2022.
Þessi mynd er úr sömu fjárhagsáætlun. Allt þetta er sama marki brennt og dansar á mörkum ofurbjartsýni og ótrúverðugleika. Hér er treyst á að stjórnmálamenn í framtíðinni, sem verða að öllum líkindum í mun verri aðstöðu til að greiða niður skuldir, muni af einhverjum ástæðum keppast við að gera það.
Kosningaloforð Dags liggja þá fyrir. Í stað þess að skapa svigrúm til fjárfestinga í framtíðinni ætlar borgarstjórinn að fjárfesta eins og aldrei fyrr á toppi hagsveiflunnar og skera svo harkalega niður eftir því sem um hægist og þörf fyrir slíkar fjárfestingar eykst.
Höfundur er frambjóðandi Viðreisnar í Reykjavík. Grein birtist fyrst á Kjarnanum 10. apríl 2018.