06 maí Fallegar borgargötur nýttar sem bílageymslur
Ef gengið er í vesturátt í 5 mínútur frá Ingólfstorgi er komið að Ægisgötu. Ægisgata markar endalok gjaldskyldunnar, vestan við hana má leggja frítt. Það þýðir auðvitað að þeir sem vilja leggja frítt rúnta þennan bæjarhluta á morgnana í leit að stæðum, með tilheyrandi böggi fyrir fólkið sem þarna býr.
Á þessu svæði eru fallegar borgargötur eins og Vesturgata eða Ránargata. Fallegar borgargötur sem gætu samt orðið betri. Ég hljóp Vesturgötuna í gær og taldi gamalt verslunar- og þjónustuhúsnæði sem ýmist stóð autt eða hafði verið breytt í íbúðir. Ég taldi 19 þannig staði. Nítján rými, rými með stórum gluggum eða horninngöngum. Ímyndum okkur að við settum 10 búðir, 6 veitingastaði, 2 kaffihús og eina líkamsræktarstöð í þessi nítján rými. Ásýnd götunnar yrði allt önnur.
Það er ekki góð nýting á borgargæðum að nýta göturnar í gamla Vesturbænum eða Þingholtunum sem ókeypis bílageymslur. Í fyrstu atrennu ætti að stækka gjaldskyldusvæðin, láta íbúa fá íbúakort, og stýra nýtingu stæðanna betur með verðlagningu. Þá ætti líka að lengja gjaldskyldutímann, af því að mikill fjöldi túrista, og þarmeð bílaleigubíla, skapar líka meira álag á tímum sem áður voru ekki álagstímar.
Viðreisn styður hvort tveggja stækkun gjaldskyldra svæða og lengingu gjaldskyldutímans. Til lengdar þurfum við líka hugsa betur hvernig við tryggjum að íbúðagötur í grónum hverfum séu mannvænar. Það er ekki víst að leiðin til þess sé að fylla þær af bílum launafólks á daginn, og bílum ferðamanna á kvöldin.
Grein birtist fyrst á Kjarnanum 6. maí 2018.