Hlustum og gerum betur

Í Mosfellsbæ geta kjósendur valið á milli átta framboða. Alls eru 144 Mosfellingar í framboði og 760 að auki hafa gefið þeim meðmæli til að bjóða fram.
Þetta eru um 900 manns sem annað hvort eru á lista eða meðmælendur, samtals um 12% kjósenda. Vonandi skilar þessi áhugi sér í aukinni kosningaþátttöku en hún var dræm við síðustu sveitarstjórnarkosningar.

Við sem stöndum að framboði Viðreisnar í Mosfellsbæ veltum því vandlega fyrir okkur hvort við ættum að blanda okkur í þennan slag, hvort við ættum brýnt erindi við kjósendur og hvort við gætum látið gott af okkur leiða til að gera mannlífið betra og rekstur sveitarfélagsins skilvirkari og opnari. Niðurstaða okkar var sú að okkar hugmyndir og um framfarir hér í bæ og stefna Viðreisnar um að setja almannahagsmuni framar sérhagsmunum ættu sannarlega erindi við kjósendur. Listi Viðreisnar er skipaður fólki með fjölbreytta reynslu og þekkingu, konum og körlum til jafns. Við treystum ungu fólki til verka og það finnur sér farveg innan okkar raða.

Við viljum komast að til þess að breyta, ekki til þess að geta sest við borðsendann og skipað fyrir. Framboðið er ekki sett fram til þess að gera einhvern að bæjarstjóra sem gengur með það í maganum eða til höfuðs núverandi bæjarstjóra. Við kærum okkur kollótt um slíkt. Við ætlum einfaldlega að hlusta á fólk og starfa í þeim anda að bæjarfulltrúar séu til þess að þjóna bæjarbúum en ekki til þess að halda í völd eða rífa niður það sem gert hefur verið. Við teljum að með þessum hugsunarhætti og nýjum vinnubrögðum getum við gert betur.

Eitt af því sem við setjum á oddinn eru lýðræðislegar umbætur og ábyrgð í fjármálum. Við ætlum að ráða umboðsmann íbúa sem gætir hagsmuna þeirra og leiðbeinir í samskiptum við bæinn. Við teljum æskilegt að bæjarstjórinn sé ráðinn á faglegum forsendum – ekki pólitískum – en starfi í umboði meirihlutans. Við viljum gagnsæja stjórnsýslu og viljum opna bókhald bæjarins. Það er líka mikilvægt að bjóða íbúum að koma að hugmyndavinnu verkefna sem eru á könnu sveitarfélagsins og sömuleiðis að ákvörðunum í meira mæli en nú er. Við teljum mikilvægt að einfalda ferla í skipulagsmálum og stytta afgreiðslu athugasemda. Við viljum breyta vinnubrögðum.

Við erum frjálslynt fólk sem vill að sérhagsmunir víki fyrir hagsmunum almennings. Við tökum jafnrétti kynjanna alvarlega og höfnum hvers konar kynbundinni mismunun. Við viljum veita öllum jöfn tækifæri og styðja þá sem ekki geta nýtt þau, með öflugu öryggisneti. Á grundvelli jafnra tækifæra geta einstaklingarnir blómstrað og ráðið eigin lífi. Þannig sköpum við réttlátt samfélag í Mosfellsbæ.

 

Greinin birtist fyrst í Mosfelling 17. maí 2018