28 okt Forystumaður gegn frjálsri för – í boði sósíalista
Ég hef nú setið á nokkrum borgarstjórnarfundum og hlustað á málflutning sósíalista um hvernig flest sem slæmt er í málefnum innflytjenda sé kapítalisma og vondum kapítalistum að kenna.
Það er auðvitað nokkuð auðvelt að sjá að þetta er rangt. Þau ríki sem eru vingjarnlegust innflytjendum eru að jafnaði líka þau ríki þar sem viðskiptafrelsi, sterkur eignarréttur og aðrar kapítalískar möntrur eru ráðandi. Fólk flyst stríðum straumum í kapítalísk ríki, af ástæðu.En óháð því öllu saman þá verður fólk að gera sér grein fyrir einu. Ástæða þess að íslensku útlendingalögin eru eins og þau eru, ástæða þess að réttindi útlendinga á vinnumarkaði eru svona lítil er ekki andstaða íslenskra kapítalista. Ástæðan er verkalýðshreyfingin.
Fyrstu árin sem útlendingur (utan EES) er á landinu er atvinnuleyfi hans tengt vinnuveitanda. Það er ekki draumur dæmigerðs vinnuveitanda að vera með eitthvað fólk í vistarbandi, þurfa sjá um tryggingar, sækja um kennitölur, redda húsnæði, kaupa flugmiða. Atvinnurekandinn vill helst bara auglýsa starf, fá fullt af umsóknum, ráða fólk, borga því pening og þurfa ekki að spá í hvað það gerir utan vinnutíma.
Ástæða þess að vinnuveitandinn þarf að spá í öllu þessu eru lögin, og lögin hafa verið sett til að láta það vera vesen að ráða útlendinga til að fólk ráði frekar Íslendinga, ef það er hægt. Þá afstöðu verkalýðshreyfingarinnar, alla vega hluta hennar, má alveg skýra með öðru en hreinu útlendingahatri. Fólk er einfaldlega hrætt við að illa muni ganga að hækka laun ef það verður auðvelt að flytja inn fullt af fólki sem sættir sig við lægri laun.
En engu að síður er þessi afstaða vanþroskuð. Með henni er verkalýðshreyfingin að hunsa hagsmuni framtíðarumbjóðenda sinna. Sem er álíka gáfulegt og að berjast gegn því að ungt fólk komi inn á vinnumarkaðinn, af því að það getur lækkað laun þeirra sem fyrir eru.
Það er ekki þannig að öll verkalýðshreyfingin sé á þessari skoðun. Þegar ákveðið var að fella niður hömlur á flutninga fólks frá nýjum ríkjum ESB árið 2006 var ASÍ í heild sinni fremur jákvætt umsögnum sínum en mörg félög voru hörð í andstöðu sinni. Ætli harðasta andstaðan hafi ekki komið frá Verkalýðsfélagi Akraness.
Í umsögnum um frumvarpið fann VLFA því flest til foráttu. Þegar frjáls för launafólks frá löndum Mið- og Austur-Evrópu var samþykkt á Alþingi birtist frétt á vef Verkalýðsfélags Akranes: „Svartur dagur íslenskra launþega staðfestur með lögum frá Alþingi í dag“. Hvorki meira né minna.
Sá sem leitt hefur þetta félag heitir Vilhjálmur Birgisson. Hann var nú kosinn 1. varaforseti Alþýðusambands Íslands. Hann naut í þeirri baráttu sérstaks stuðnings Gunnars Smára Egilssonar og annarra Sósíalista. Helsti andstæðingur frjálsar farar verkafólks er þar með kominn í forystusveit verkalýðshreyfingarinnar. Hvort þetta sé „svartur dagur“ fyrir útlendinga sem hyggjast flytja til Íslands á eftir að koma í ljós. En líkur eru á því að þeir sem vilji breyta útlendingalögum í frjálsræðisátt megi eiga von á meiri andstöðu af hálfu verkalýðshreyfingarinnar en áður. Þökk sé sósíalistum.
Höfundur er borgarstjórnarfulltrúi Viðreisnar. Greinin birtist í Kjarnanum 28. október 2018.