29 okt Hún snýst nú samt
Um sumar staðreyndir er ekki lengur deilt. Jörðin er hnöttótt og snýst umhverfis sólu. Sá sem heldur öðru fram er ekki tekinn alvarlega. En ýmsar aðrar staðreyndir eru umdeildar, en staðreyndir engu að síður. Of miklar launahækkanir valda verðbólgu. Á það hefur ítrekað verið sýnt fram á. Óteljandi rannsóknir fræðimanna liggja fyrir á þessu sambandi launahækkana og verðlags. Engu að síður hefur ný forysta verkalýðshreyfingarinnar hafnað þessu sambandi. Kallar það „viðbjóðslegan hræðsluáróður“, „orðræðu spunameistara auðvaldsins“, „margtuggna og örþreytta söguskoðun sem standist ekki“.
Það er svo sem ekkert nýtt að það taki vísindamenn talsverðan tíma að ná fram almennri viðurkenningu á uppgötvunum sínum og rannsóknum. Við töldum til að mynda lengi vel jörðina vera miðpunkt alheimsins. Kópernikus og Galíleó sýndu hins vegar fram á að jörðin snérist um sólu en ekki öfugt. Hin síðarnefndi var þó þvingaður af páfa til að afneita þeim staðhæfingum sínum opinberlega en muldraði um leið í barm sér þessi frægu orð: „Hún snýst nú samt“. Ísak Newton rak svo smiðshöggið á sólmiðjukenninguna með kenningu sinni um þyngdarlögmálið. Engu að síður eru til skoðanakannanir sem sýna að um fjórðungur Bandaríkjamanna trúi því að sólin snúist um jörðu. Raunar sýna kannanir einnig að um 2% trúi því enn að jörðin sé flöt. Þó svo fjórðungur Bandaríkjamanna trúi ekki sólmiðjukenningunni er hún engu að síður margsönnuð staðreynd. Sama hversu flöt jörðin kann að virðast okkur á yfirborði hennar vitum við að hún er það ekki.
Verkalýðshreyfingin er mjög mikilvægt afl. Sterk verkalýðshreyfing á Norðurlöndunum er ein megin ástæða þess að jöfnuður er þar mjög mikill í alþjóðlegum samanburði og kaupmáttur sömuleiðis. Í öllum þessum löndum er verkalýðshreyfingin eitt valdamesta hreyfiafl samfélagsins, líkt og hér á landi. Í þessum löndum átta forystumenn verkalýðshreyfingarinnar sig glögglega á ábyrgð sinni þegar kemur að efnahagslegum stöðugleika. Kaupmáttur verði best aukinn jafnt og þétt yfir löng tímabil og ekki sé síður mikilvægt að vinnumarkaðurinn stuðli að stöðugleika, lágri verðbólgu og lágu vaxtastigi. Þannig sé best unnið að hagsmunum launþega, enda grefur verðbólga undan kaupmætti og kostnaðinn af háu vaxtastigi þekkjum við allt of vel.
En svo er því ekki farið hér á landi. Ábyrgðarleysi verkalýðsforystunnar hér er algert. Margsönnuðum efnahagslegum staðreyndum er hafnað með órökstuddum staðhæfingum og ráðist að hverjum þeim sem andmælir með fúkyrðum og svívirðingum. Hvernig stendur á því að forysta verkalýðshreyfingarinnar leyfir sér að hafna þeirri staðreynd að launahækkanir hafi áhrif á verðbólgu, án þess að gera einu sinni minnstu tilraun til að færa sönnur fyrir máli sínu? Þetta samband launa og verðlags er ekki einhver áróður atvinnurekenda. Þetta er niðurstaða endalausra rannsókna hagfræðinga, erlendra sem innlendra. Norræn verkalýðsfélög draga ekki þessa staðreynd í efa heldur þvert á móti hampa ábyrgð sinni í þessum efnum og semja ekki um launahækkanir sem ógna verðstöðugleika. Þau vita sem er að launþegar bera á endanum kostnaðinn af ábyrgðarleysinu.
Það má auðvitað líka velta fyrir sér hvers vegna samtök atvinnurekenda tala um mikilvægi efnahagslegs stöðugleika en neita að ræða kostnaðinn af krónunni. Við borgum 200 milljarða á ári fyrir hana. Flest fyrirtæki sem það mega eru löngu búin að segja skilið við krónuna. Samt styðja helstu hagsmunasamtök í atvinnulífinu það að almenningur skuli áfram búa við þennan rándýra gjaldmiðil. Það er hins vegar efni í aðra grein.
Höfundur er varaformaður Viðreisnar. Greinin birtist í Kjarnanum 29. október 2018