Tilfinningin sem ræður í dag er þjáning

Þegar hið opinbera svíkur loforð láta flestir sér fátt um finnast. Þannig eru stjórnmálin segja menn. Virkur í athugasemdum lætur eitthvað ljótt frá sér fara, en fæstir taka eftir því. Honum finnst allt ómögulegt hvort sem er. En Virkur er ekki bara einhver einn karl sem situr á nærbuxunum og skrifar það ljótasta sem honum dettur í hug á hverjum degi. Nýleg könnun sýnir að 65% landsmanna telja að margir eða nánast allir stjórnmálamenn á Íslandi séu viðriðnir spillingu. Almenningur býst ekki við að slíkt fólk standi við loforð.

Formaður VR, stærstu launþegasamtakanna með 35 þúsund félaga að baki sér, býr sig undir átök og hefur pantað gult vesti frá Frakklandi, einkennisbúning þeirra sem hafa barist við lögreglu í París undanfarnar vikur. Í pistli formanns Eflingar kom fram að kjarni kjarabaráttunnar væri einfaldur: „Að vinnuaflið geti lifað mannsæmandi og góðu lífi og hafi völd í samfélaginu.“

Lítill áhugi er á björtu hliðunum. Tölur Hagstofunnar sýna að kaupmáttur launa hefur aldrei verið meiri, skuldir og vanskil heimila talsvert minni en t.d. árið 2004, áður en útrásarvíkingarnir og ímynduð afrek þeirra voru nánast orðin trúarbrögð. Atvinnuleysi hefur minnkað ár frá ári og er innan við 3%.

Neikvæðu fréttirnar eru að verðbólgan hefur ekki verið meiri í fjögur ár og ríkisstjórnin telur sér það til tekna að hafa aukið útgjöld mikið. Það er svo gott að gefa eigur almennings og auðvitað vilja stjórnmálamenn fá hrós fyrir.

Fyrirsögn þessarar greinar kemur úr nýlegu viðtali við Stefán Jón Hafstein í Ríkisútvarpinu. Líklega á hann kollgátuna. Margir hafa það skítt og mörgum finnst þeir hafa það skítt meðan lítill hópur lifi í vellystingum. Lífskjarakönnun Hagstofunnar bendir til þess að um 30% þjóðarinnar eigi erfitt með að ná endum saman og eigi ekki fyrir óvæntum útgjöldum. Þessi tala skýrir það hvers vegna margir eru ósáttir við sinn hlut, jafnvel þó að þjóðin standi að mörgu leyti vel, bæði í sögulegu samhengi og alþjóðlegum samanburði.

Mér fannst ég finna til

Sigurður Grímsson þótti efnilegt skáld fyrir næstum heilli öld. Hann gaf út ljóðabókina Við langelda árið 1922 og hreifst af Ólafi Friðrikssyni, fyrsta alvöru kommúnista Íslandssögunnar. Sigurður sagði um hann: „Hann var brennandi í andanum – og prédikaði sósíalisma alls staðar, þar sem hann gat komið því við. Það var líf í tuskunum, þar sem hann kom. Eldur í æðum. Við hrifumst af þessu, eins og lög gera ráð fyrir og drógumst ósjálfrátt að honum. Svo kom að því að við stofnuðum Jafnaðarmannafélag Íslands.“

En Sigurður hvarf fljótt af trúnni og fékk fyrir glósur vinstri manna sem hæddust að ljóðlínu hans: „Mér fannst ég finna til“. Sigurður lét sér fátt um finnast og rifjaði upp gamla tíma: „Manni leið aldrei vel ef maður gat ekki fundið sorgina einhvers staðar. Samt voru engir hamingjusamari en þessi ungu, sorgbitnu skáld.“

Því rifja ég upp söguna af Sigurði Grímssyni að hending hans lýsir vel tilfinningum margra um þessar mundir. Ekki bara fólks á Íslandi heldur víða um heim. Fyrir réttum tíu árum skrifaði ég: „Ofuraflið sem leysist úr læðingi þegar innbyrgð reiði brýst út getur valdið íslensku þjóðfélagi slíkum skaða að enginn hefur áður kynnst slíku hér á landi.“ Reiðin var mikil á árunum 2008-9 og hún hefur kraumað undir niðri síðan. Hún getur blossað upp þegar minnst varir.

Tugþúsundir mættu á Austurvöll vorið 2016 eftir að þáverandi forsætisráðherra gerði Ísland frægt um víða veröld með því að kannast ekki við fyrirtæki sitt sem skráð er í Panama. Hann hrökklaðist úr embætti, en einu og hálfu ári síðar var hann mættur á Alþingi við sjöunda mann. Þá taldi rúmlega einn af hverjum tíu Íslendingum best að fela honum, meðreiðarsveinum og -mey hans að leiða þjóðina.

 

Ári síðar mætti hann á Klausturbarinn með gamanmál um fjarstadda alþingiskonu: „Það voru ýmsir sem sögðu ‘take one for the team’ en Beggi var ekki til“ sagði Sigmundur Davíð og uppskar hlátur félaga sinna í K-6 hópnum.

Um fyrrverandi vinkonu sína segir hann af alkunnu lítillæti: „Ég er búinn að láta þessa konu yrða á mig aftur og aftur“ og bætti síðar við: „Henni er ekki treystandi og hún spilar á karlmenn eins og kvenfólk kann.“

Ég hef löngum talið að virðing Alþingis væri í raun mæld með virðingu þess sem minnsts álits nýtur. Alþingi er ekki hátt skrifað þessa dagana.

Þess vegna eru margir reiðir

Stundum get ég ekki annað en brosað þegar okkar ágæti forsætisráðherra talar um samráð ríkisstjórnarinnar við verkalýðshreyfinguna. Í ræðu sagði hún að „eitt af forgangsmálum mínum sem forsætisráðherra [var] að slá nýjan tón í samskiptunum og sýna strax að þessi ríkisstjórn hafi skýran vilja til að hlusta eftir óskum og áhyggjum bæði verkalýðshreyfingarinnar og fulltrúa atvinnurekenda og bregðast við þeim eins og helst er unnt.“ Ekki fara sögur af því að verkstjóri ríkisstjórnarinnar hafi fjallað um það þegar ljósmæður og BHM fundu sig knúin til þess að „lýsa undrun og vanþóknun á ummælum heilbrigðisráðherra“ eins og gerðist í kjaradeilunni síðastliðið vor.

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, forvera Katrínar og arftaka míns sem fjármálaráðherra, hafði ekki starfað lengi þegar boðað var til fundar með forystu verkalýðshreyfingarinnar á Þingvöllum. Bæði fyrir og eftir þetta átti ég mikil samskipti við þennan hóp, enda eðlilegur hluti af starfi fjármálaráðherra. Ég sendi reyndar ekki út fréttatilkynningu í hvert skipti, en samskiptin voru síður en svo neitt leyndarmál; ég birti til dæmis á FB mynd af mér með formanni BSRB og forseta ASÍ við Öxará. En sumir stjórnmálamenn hafa þá skemmtilegu kenningu að sagan byrji með sér.

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar var skammlífasta meirihlutastjórn sögunnar. En hún náði samt að funda með verkalýðsforystunni.

Þó að samskiptin við forystu verkalýðsfélaga hafi verið ágæt, leyndi það sér ekki að undirrót óánægju og biturðar í hreyfingunni var ákvörðun Kjararáðs um að hækka laun þingmanna um tugi prósenta. Um 44,3% á einu bretti árið 2016. Um það hefur síðan verið deilt hvort hækkunin hafi verið réttmæt eða ekki, til dæmis með því að bera laun þingmanna saman við laun forystu verkalýðsfélaga eða skoða launabreytingar yfir lengri eða skemmri tíma.

Vandinn við þessa miklu hækkun Kjararáðs var einmitt það að hún var mikil á einu bretti og miklu meiri en þær tölur sem almennir launþegar höfðu sjálfir séð. Engu máli skipti hvort launin eftir hækkun væru sanngjörn eða ekki, skaðinn var skeður. Fólk lét sér líka fátt um finnast þegar þingmenn ákváðu einhliða að draga úr starfstengdum greiðslum og skeytir lítt um að þingfararkaup hefur ekki hækkað síðan 2016.

Ummæli sumra þingmanna hafa ekki hjálpað, þegar þeir ögra almenningi beinlínis. Þingmaður VG, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, taldi eðlilegt að styrkur frá þinginu ætti að standa undir fjárfestingum hennar í íbúð: „Ég fæ í kringum 180 þúsund á mánuði því ég held tvö heimili og það dugar ekki fyrir afborgunum af lánum af þeirri íbúð sem ég fjárfesti hér í 2013.“

Það er gráglettni örlaganna að hefði Kjararáð ákveðið að hækka launin í takt við launavísitöluna frá upphafi árs 2016 til dagsins í dag og ekki hefði komið til áðurnefndrar skerðingar á starfstengdum greiðslum til þingmanna væru kjör þingmanna svipuð því sem nú er, en reiðin myndi ekki krauma undir.

Við hlustum því við erum góð

Aðalvandi ríkisstjórnarinnar er hún sjálf. Með ítrekuðum yfirlýsingum um að hún ætli að leggja mikið til málanna í samningaviðræðum á vinnumarkaði hefur hún í raun fært samningsmarkmiðin til. Stærstu verkalýðsfélögin vilja „hafa völd“ í samfélaginu og ætla að sækja þau völd til ríkisstjórnarinnar í verkalýðsbaráttunni nú eftir áramót. Fjármálaráðherra reynir að draga í land og segir að kannski geri ríkisstjórnin ekkert, á sama tíma og forsætisráðherrann hefur samtalið og „hlustar eftir óskum og áhyggjum“.

Jafnframt því sem forsætisráðherra gefur í skyn að nóg svigrúm sé í ríkisfjármálum til þess að gera margt fyrir verkalýðsfélögin situr samgönguráðherra ekki auðum höndum. Hann vill taka lán sem verður „minnst 50 til 60 milljarðar króna“ og stefnt er að því að þau verði borguð að loknum verktíma sem yrði í fyrsta lagi 2024.

Í fjárhagsáætlun þeirri sem ég lagði fram vorið 2017 var sérstaklega stefnt að því að minnka umfang ríkisins á kjörtímabilinu og lækka skuldir. Núverandi ríkisstjórn hefur þegar ákveðið að tefla á tæpasta vað, svo mjög að VG hafði forgöngu um að skera niður áætlað framlag til öryrkja svo hægt væri að lækka veiðigjöld á útgerðina. Ætla má að væntanlegur pakki til samninga á vinnumarkaði muni kosta einhverja tugi milljarða. Ofan á þetta á svo að taka lán til vegaáætlunar, en auðvitað ekki að taka veggjöld á móti, eins og gefið hefur verið í skyn. Það stefnir því allt í að ríkið verði rekið með halla og safni skuldum í góðærinu.

Ég mun halda áfram með United

Í Washington situr hálfgalinn forseti einn í Hvíta húsinu og tístir í gríð og erg. Það væri í sjálfu sér í lagi ef hann léti þar við sitja, en hann reisir á sama tíma múra umhverfis Bandaríkin og einangrar þannig það ríki sem áður var í forystu fyrir frjálsum viðskiptum. Og allstór hluti Ameríkana og ritstjóri á Íslandi láta sér vel líka.

Forsætisráðherra Breta er ekki galinn, en fær í hendur það verkefni að gera ríkið valdalaust í samfélagi þjóðanna og skerða lífskjör almennings í leiðinni. Leiðtogi stjórnarandstöðunnar er sósíalisti af gamla skólanum sem lætur sér vel líka að fylgjast með Bretum verða annars flokks. Hér á landi eru svo stjórnmálamenn sem sjá í niðurlægingu Breta ýmis tækifæri, þó að enginn viti enn hver þau eru.

Vinstri popúlistar víða um heim hafa sameinast undir merkjum þeirra Bernie Sanders, sem vildi verða forsetaefni Demókrata í Bandaríkjunum, og Yanis Varoufakis, fyrrverandi fjármálaráðherra Grikkja. Þekktustu liðsmenn þeirrar hreyfingar eru Julian Assange (sem studdi reyndar Trump), Noam Chomsky, Cynthia Nixon og Katrín Jakobsdóttir. Þessi hreyfing hafnar endurbótastefnu (e. reformism), sem hefur verið leið jafnaðarmanna til sósíalisma, gagnstæð byltingarstefnunni.

Heimurinn er sem sé að pólariserast í hægri og vinstri lýðskrumara. Það er ekki bara foringi VG á Íslandi sem gengur í slíka hreyfingu, Sjálfstæðisflokkurinn ákvað fyrir nokkrum árum að ganga úr Evrópusamtökum hófsamra íhaldsflokka þar sem Kristilegir demókratar Angelu Merkel hafa ætíð verið og færði sig til yfir í samtök hægri öfgaflokka.

En foringjarnir þurfa lítið að óttast. Sauðtryggir flokksmenn fylgja sínu liði óháð stefnunni. „Ég mun halda áfram með United eins og ég mun halda mig við Sjálfstæðisflokkinn“, sagði einn stuðningsmaður um jólin.

Allt er þetta uggvænlegar fréttir fyrir venjulegt fólk á Íslandi, fólk sem finnst það ekki brýnasta verkefnið að auka hagnað útgerðarinnar eða koma í veg fyrir það að fólk á Íslandi fái ódýrari mat. Fólk sem vill hafa stöðugan gjaldmiðil, en ekki krónu sem getur sveiflað til milljörðum úr einum vasa í annan eins og auga væri deplað.

Horfur eru ekki góðar fyrir þá sem vilja að Ísland verði samkeppnishæft ríki þar sem stöðugleiki og sanngjarnar leikreglur gildi. Ríkisstjórnin undir forystu VG hefur tekið að sér að verja hag þeirra sem mest hafa haft milli handanna. Á sama tíma vill verkalýðshreyfingin hækka laun um ákveðna krónutölu, talsvert umfram hagvöxt, en það er ávísun á frekari verðbólgu. Jafnframt vill hún afnema verðtryggingu, án þess þó að leggja til leið sem tryggir stöðugleika, lægri vexti eða ódýrari matvæli.

Er einhver von?

Ég var spurður að því á Þorláksmessu hvort frjálslyndu öflin í samfélaginu væru ekki of dreifð. Vissulega er það ekki sérstaklega til þess að auka stöðugleikann hve margir flokkar sitja á Alþingi. Ég get vel viðurkennt það, þó að ég hafi lagt mitt af mörkum til þess að fjölga þeim.

Hinn hálfgalni Bandaríkjaforseti gleður suma landa sína, og einn ritstjóra á Íslandi.

Segja má að flokkarnir á Alþingi skiptist í stórum dráttum í þrennt: Framsóknarflokkana þrjá sem nú mynda ríkisstjórn gegn umbótum, frjálslynda fylkingu þriggja flokka, Viðreisnar, Pírata og Samfylkingar, sem vilja breytingar á kerfum með mismunandi áherslum þó og tvo flokka sem einkum virðast hverfast um foringja sína. Skylt er að geta þess að innan Sjálfstæðisflokksins eru líka nokkrir frjálslyndir, en margir þeirra féllu út í síðustu kosningum, en þó ekki allir. Jafnframt hefur Samfylkingin snúið sér meira til vinstri að undanförnu en áður, líklegast vegna þess að hún sér þar tómarúm eftir að VG gekk formlega í Framsóknarfylkinguna. Ekki er ólíklegt að Sósíalistaflokkurinn fái hljómgrunn hjá þeim hluta vinstri manna sem ekki sættir sig við að vera uppfyllingarefni.

Er einhver von til þess að frjálslyndi hópurinn nái áhrifum eða völdum á næstunni? Meðan flokksmenn í VG una því að flokkurinn sé brjóstvörn sægreifanna eru allar líkur á því að ríkisstjórnin sitji út kjörtímabilið. Því er það spurningin hvort útlit sé fyrir breytingar þegar þar að kemur. Reynslan gefur ekki góð fyrirheit, hún bendir til þess að miklu auðveldara sé að fá fólk upp á móti einhverju en með. Þó að meirihluti þjóðarinnar vilji taka upp annan gjaldmiðil og líti á fiskimiðin við Ísland sem sameign þjóðarinnar, þá hefur United-heilkennið á endanum haft yfirhöndina og stór hluti kjósenda leitar heim á sinn bás. Þangað vill klárinn sem hann er kvaldastur.

Stjórnmálabarátta vinnst samt ekki með því að líta stöðugt um öxl. Nýlega birtist viðtal við Heseltine lávarð, fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra Breta, þar sem hann talar um hvernig hans kynslóð, í dapurlegri fortíðarhyggju, spillir fyrir komandi kynslóðum. Á Íslandi höfum við séð það sama gerast. Menn sem gætu verið virtir hugsuðir, elder statesmen, eyða allri sinni orku í að halda í kerfi sem leiðir til minni velsældar.

Vonin er að ungt fólk taki höndum saman við víðsýnt fólk af eldri kynslóðum og saman sköpum við samfélag sem þar sem lögð er áhersla á almannahag og sérhagsmunir látnir lönd og leið. Ég er bjartsýnismaður og hef trú á því að heimurinn fari batnandi, þó að syrti um stund.

Höfundur er fyrsti formaður Viðreisnar og fyrrverandi fjármálaráðherra. Greinin birtist á Kjarnanum 30.12.2018