14 okt Miðbær Hafnarfjarðar – Vel skal vanda það sem lengi á að standa
Núverandi vinnuferli við nýtt miðbæjarskipulag hefur ekki fengið góðar viðtökur hjá bæjarbúum og þarf meirihluti bæjarstjórnar að axla ábyrgð á því hversu mikil tortryggni hefur komið upp í ferlinu. Tortryggnin er að mörgu leiti skiljanleg þar sem bæjarbúar hafa mátt búa við þá stöðu að ítrekað koma fallegar hugmyndir upp úr skipulagssamkeppnum, aðalskipulagi og rammaskipulagi sem er svo gerbreytt á seinni stigum. Má hér til dæmis nefna höfuðstöðvar Hafró við Fornubúðir og deiliskipulag við Gjóturnar.
Það þarf að bregðast við því ástandi sem nú er komið upp og langar mig að leggja fram tvær tillögur þess efnis: A) Núverandi ferli verði stöðvað, vinnubrögð endurskoðuð og nýtt ferli sett í gang. B) Unnin verði heildstæð miðbæjarstefna og á grunni hennar unnið skipulag
- Núverandi ferli stöðvað
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar þarf að horfast í augu við stöðu verkefnisins og hefja upp á nýtt raunverulegt samráðsferli sem byrjar hjá bæjarbúum. Til viðbótar við íbúa þarf einnig að ræða við fyrirtæki í miðbænum og gesti bæjarins. Það ætti bæði að safna efni á vefnum Betri Hafnarfjörður en einnig að halda vinnustofur þar sem farið er yfir hvaða gildi eiga að vera í forgrunni í miðbænum, hverjir eru uppáhaldsstaðir íbúa í miðbænum, helstu kosti miðbæjarins um leið og skoðað er hvað bæjarbúar vilja meira frá miðbænum sínum. Þessar vinnustofur ættu bæði að vera opnar fyrir alla bæjarbúa en líka ákveðnar vinnustofur með útvöldum hópum eins og verslunareigendum, eldri borgum og námsmönnum (menntaskóla, grunn og leikskóla). Samhliða þessu upphafs samráðsferli muni verði gerðar nokkrar úttektir á lykilþáttum varðandi skipulag miðbæjarins:
a. Úttekt á núverandi skipulagsheimildum, eldri byggingum í miðbænum og verndargildi þeirra
b. Úttekt á stöðu verslunar og þjónustu í miðbænum (fermetrar verslunarrrýmis, veltu, fjölda sæta á veitingastöðum)
c. Samgöngugreining (umferðartalning, bílastæðabókhald)
d. Umhverfisgreining (loftgæði í miðbænum, lífríki læksins, o.s.frv.)
- Miðborgarstefna sem skipulag er hluti af frekar en stakt skipulag
Þróun sögulegra miðbæja er mun flóknara viðfangsefna en hægt er að útfæra í alfarið í rammaskipulags og deiliskipulagsáætlunum. Þess vegna tel ég mikilvægt að unnin verði miðborgarstefna upp úr samráðsferlinu sem lagt er til að farið verði af stað með.
Slík stefna þarf að hverfast í kringum framtíðarsýn fyrir miðbæ Hafnarfjarðar sem gæti hljómað eitthvað á þessa leið:
Miðbær Hafnarfjarðar er lifandi, fjölbreyttur og skemmtilegur staður til að búa, starfa og heimsækja
Upp úr framtíðarsýn sambærilegri þessari væru lögð fram markmið sem væru skilgreind í nokkrum málaflokkum sem endurspegla hugmyndafræði, framtíðarsýn og gildi Hafnarfjarðar eins og hann birtist í samráðsferlinu.
Markmiðin væri almenns eðlis en mótast af skoðunum almennings, tillögum embættismanna, sérfræðinga, haghafa miðbæjarins, alþjóðlegum áherslum og samþykktri stefnu bæjaryfirvalda.
Markmið stefnunnar ættu að skipt í undirmarkmið sem gætu litið svona út:
A: Umhverfi – miðbær Hafnarfjarðar á að vera fallegur, hreinn og sögulegur
Hér er vísað í mikilvægi fallegrar náttúru, góðrar umgengni og hinnar sögulegu víddar sem er svo mikilvæg í gömlum miðbæjum. Það mætti setja markmið um loftgæði í miðbænum, lengd göngu- og hjólastíga, fjölda gesta í grænum svæðum.
B: Menning – Skemmtileg og vel tengd við sína sögu og menningu
Bæjarbúar vilja flestir að miðbærinn sé skemmtilegur staður í góðu sambandi við sínar sögulegu rætur. Hér mætti skoða hvort miðbærinn ætti að hafa sérstök „gömul“ götuskilti og ljósastaura. Það er einföld aðgerð sem setur svip á svæðið.
C: Velferð – Öruggur, aðgengilegur staður; fyrir alla
Íbúar og gestir miðbæjarins eiga að vera öruggir, aðgengi á að vera gott og allir eiga að vera velkomnir – svæði eiga ekki að vera lokuð af frá almenningi.
D: Samgöngur – Auðratað, gangbært og vel tengdur
Góðir miðbæir eru þannig að gestir eiga auðvelt með að fara leiðar sinnar, þeir eru frábærir fyrir gangandi vegfarendur og þangað eru góðar samgöngutengingar. Hraðbrautir eiga ekki heima í miðbæjum. Tryggja þarf að miðborgin flæði vel yfir í næstu þróunarreiti borgarlínu eins og Hafnarsvæði og Hraunin. Sérstaklega er mikilvægt að tengja miðbæinn vel við Flensborgarbryggju. Miðbærinn á að liggja vel við strandlengjunni og til móts við hið nýja spennandi svæði sem er nú í rammaskipulag. Þetta bætir tengingu miðbæjarins við sjóinn og sjávarmenningu bæjarins.
E: Atvinna – Miðstöð fjölbreyttrar atvinnustarfsemi
Markmiðum um atvinnustarfsemi mætti svo brjóta niður í markmið varðandi verslun, ferðaþjónustu og fleira.Í kjölfar markmiðasetningar ætti að setja upp aðgerðaráætlun þar sem lagðar eru fram fjármagnaðar, tímasettar aðgerðir með skýrum ábyrgðaraðilum innan og utan bæjarkerfisins.
Allar aðgerðir eru þá settar upp til þess að ná skilgreindum markmiðum úr stefnumótunarvinnunni.
Á þessum tímapunkti ferilsins væri mjög við hæfi að leggja fram allar fyrirliggjandi skýrslur, niðurstöður úr samráðsferlinum og halda opna hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag miðbæjar Hafnarfjarðar. Vel mætti hugsa sér að úr opnu hugmyndasamkeppninni yrðu valdar þrjár hugmyndir sem væri þá unnið áfram með í opnum vinnustofum með bæjarbúum og væri svo besta tillagan valin úr því ferli.
Það er mín trú að í jafn stórum málum og framtíðaruppbyggingu miðbæjar Hafnarfjarðar sé mikilvægt að rasa ekki um ráð fram heldur taka vönduð, örugg skref fram á við í góðri sátt við íbúa, rekstraraðila, gesti og aðra hagsmunaaðila.
Óli Örn Eiríksson,
Varamaður í Skipulags- og byggingarráði fyrir hönd Viðreisnar.