Brexit – Hvað nú?

Dóra Sif Tynes

Síðar í dag, miðvikudag, er gert ráð fyrir að breska þingið staðfesti svonefnd útgöngulög sem innleiða útgöngusamning Bretlands úr Evrópusambandinu (ESB). Samningurinn verður síðan borinn undir þing Evrópusambandsins til staðfestingar miðvikudaginn 29. janúar. Ef allt fer sem fram horfir mun Bretland því ganga úr ESB föstudaginn 31. janúar.

Útgöngusamningur Bretlands felur í sér að Bretland hættir að vera aðildarríki ESB. Bretland mun því ekki eiga fulltrúa í stofnunum ESB, svo sem ráðherraráði eða framkvæmdastjórn, og breskir þingmenn á Evrópuþinginu láta af störfum. Við tekur hins vegar ellefu mánaða aðlögunartímabil þar sem Bretland telst vera de facto aðili að innri markaði ESB. Á þessu tímabili verða því engar breytingar á viðskiptum breskra aðila á innri markaðnum og að sama skapi njóta EES-borgarar réttinda innri markaðarins í Bretlandi. Hvað tekur við að loknu aðlögunartímabilinu er hins vegar óljóst.

Boris Johnsson forsætisráðherra hefur lýst því yfir að aðlögunartímabilið verði ekki framlengt og útgöngulögin kveða á um að ríkisstjórninni sé óheimilt að óska eftir framlengingu. Johnsson hefur líka lýst því yfir að Bretar muni ekki stefna að aðlögun eða samræmingu breskrar löggjafar við löggjöf ESB. Það virðist því vera ljóst að viðskipti við breska aðila sem hingað til hafa farið fram á grundvelli meginreglna innri markaðarins munu taka verulegum breytingum í lok þessa árs. Útganga Breta úr ESB mun hafa veruleg áhrif á öll viðskipti íslenskra og breskra aðila hvort heldur er í Bretlandi eða hér á landi.

Að því er varðar frjálsa för fólks eða réttindi til dvalar í Bretlandi (sem og rétt breskra þegna til dvalar í aðildarríkjum ESB eða EFTA) mælir útgöngusamningurinn fyrir um rétt til dvalar að uppfylltum tilteknum skilyrðum þar sem menn öðlast ýmist ótímabundinn rétt til dvalar vegna fyrri búsetu (e. settled status) eða forrétt (e. pre-settled status). EFTA-ríkin sem aðild eiga að EES-samningnum, Ísland, Noregur og Liechtenstein, hafa gert samning við Bretland sem speglar þessi ákvæði útgöngusamningsins. Hins vegar er talið að ríflega milljón EESborgara eigi enn eftir að sækja um staðfestingu á þessum réttindum. Það er því brýnt fyrir alla íslenska aðila sem búsettir eru í Bretlandi að huga sem fyrst að því að sækja um staðfestingu á þessum réttindum og breskir þegnar á Íslandi þurfa að gæta að staðfestingu á dvalarleyfi hér á landi.

Vöruviðskipti við Bretland munu taka verulegum breytingum. Bretar ganga bæði úr tollabandalagi ESB og innri markaðnum og þurfa því að semja við bæði ESB og Ísland um tolla og markaðsaðgang. Þótt vilji manna standi til þess að vöruviðskipti geti orðið eins hnökralaus og kostur er, þá er einsýnt að útgangan mun kalla á nýja ferla, til dæmis að því er varðar tollafgreiðslu. Þetta mun hafa veruleg áhrif á íslensk fyrirtæki sem hafa nýtt sér Bretland sem fyrsta stopp inn á innri markaðinn.

Að því er varðar þjónustuviðskipti er staðan enn snúnari. Fríverslunarsamningar sem taka til þjónustuviðskipta hafa til þessa verið langan tíma í smíðum sbr.  meðal annars  fríverslunarsamningur ESB og Kanada. Það verður því að teljast ólíklegt að Bretar og ESB nái að semja um markaðsaðgang fyrir þjónustu á þeim stutta tíma sem er til stefnu. Bresk fyrirtæki sem veita þjónustu á innri markaðnum samkvæmt starfsleyfi í einu ríki, eins og fjármálafyrirtæki og vátryggingafyrirtæki, standa því frammi fyrir miklum áskorunum. Að sama skapi þurfa íslenskir aðilar sem nýta sér þjónustu slíkra fyrirtækja að ganga úr skugga um að viðskiptin samræmist íslenskum lögum sem innleiða viðeigandi EES-reglur. Þá þarf að huga að ýmsum sérlögum eins og til dæmis lögum um persónuvernd enda byggir afhending persónuupplýsinga til breskra aðila í dag á samræmdri EES-löggjöf.

Einnig má nefna að fjármagnsflutningar á milli Íslands og Bretlands munu taka breytingum. Þannig munu breskir aðilar ekki eiga almennan rétt til að kaupa fasteignir á Íslandi heldur þurfa að fara að ákvæðum laga um fasteignakaup útlendinga utan EES og sækja sér heimild ráðherra til slíkra viðskipta. Um fjárfestingar íslenskra aðila í Bretlandi mun fara eftir breskum lögum.

Það er því að mörgu að huga. Ellefu mánuðir eru ekki lengi að líða.

Höfundur er meðeigandi hjá Advel lögmönnum.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. janúar 2020