Stafræn þjónusta nú og til framtíðar

Stafræna byltingin er á fleygiferð og hana fær ekkert stöðvað. Allt okkar umhverfi ber þess merki. Ólíklegustu þættir í daglegu lífi hafa í einu vetfangi umbreyst langt umfram það sem fólk með fjörugasta ímyndunarafl hefði getað gert sér í hugarlund.

Töfrar stafrænnar þróunar felast í tækifærunum sem hún færir okkur til að bjóða upp á enn betri þjónustu. Flestir eiga auðvelt með að sjá fyrir sér breytingar sem eru að verða á þjónustu sem t.d. styttir umsóknarferli og dregur úr fyrirhöfn einstaklinga sem og þeirra sem starfa við að veita slíka þjónustu. Þá er oft rætt um einföldun kerfa með tilkomu stafrænu byltingarinnar, þar sem hægt er að fækka skrefum og laga umhverfi þannig að tækninni að einstaklingar geti nýtt hana í gegnum tölvu eða hvaða snjalltæki sem er. Velferðartækni er nýtt stef í þjónustu sem býr yfir þeim göldrum að skapa tækifæri til betri og öflugri þjónustu til einstaklinganna sjálfra. Talmeinakennsla, kvíðanámskeið og alls kyns ráðgjöf og kennsla fer nú fram í gegnum alnetið með stuðningi kerfa sem búa svo um hnúta að jafnast á við að sitja til móts við sérfræðing í viðtalsherbergi þar sem fullur trúnaður ríkir.

Það sem meira er, með því að nýta velferðartækni gefst tækifæri til þess að mæta hópi í þjónustu sem hvað mest þarf á slíkri þjónustu að halda. Aukin samskipti við eldri borgara, sem eiga erfitt með að fara út af heimili sínu, er enn einn möguleikinn til betri þjónustu, þar getur náðst betri tenging við einstaklinga, innsýn í þarfir þeirra, en ekki síður eftirfylgni með athöfnum daglegs lífs þeirra sem þarfnast leiðsagnar eða stuðnings í formi samtala yfir alnetið.

Þá hef ég ekki minnst á þann galdur sem slík tækni færir okkur í hinum dreifðu byggðum til bættrar þjónustu þar sem skortir sérhæft fagfólk á hinum ýmsu sviðum. Þvílík lyftistöng sem tæknin getur orðið litlum samfélögum, einstaklingum sem þurfa á sérfræðiþjónustu að halda hvort sem það tengist heilbrigðisþjónustu, stuðningi við börn og ungmenni í námi eða almennri viðtalsmeðferð einstaklinga sem annars hefðu ekki tök á að nálgast slíka þjónustu nema með mikilli fyrirhöfn eða kostnaði. Bætt aðgengi allra er hér ekki innantómt slagorð.

Nú er tækifærið. En til þess þarf vilja, örlitla framsýni og dug þeirra sem fara með ákvarðanir fyrir samfélagið allt.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 28. janúar 2020