Lýðheilsa hinsegin fólks

Að undanförnu hefur umræðan um hinsegin fólk verið áberandi, í kjölfar sjónvarpsþáttanna Svona fólk og nú síðast um Trans börn. Þessir þættir sýna að þótt við höfum tekið mörg og merk framfaraskref þá er markinu ekki náð. Markmiðið hlýtur að vera að veruleiki hinsegin fólks sé sambærilegur veruleika annarra í okkar mjög svo gagnkynhneigða heimi. En því fer nú því miður fjarri. Lífssögur barna og ungmenna tala sínu máli. Þær snerta okkur og vekja upp samkennd og stuðning. Það er gott að búa í samfélagi sem bregst þannig við, þar sem víðsýni og jafnrétti ræður för. En þeirri afstöðu verður að fylgja eftir með athöfnum.

Mikilvægi og máttur fræðslunnar

Hinsegin veruleiki er annar veruleiki. Þeir sem ekki tilheyra honum fá seint skilið hann til fulls.
Við vitum hins vegar að fræðsla bætir lýðheilsu og skiptir þannig óendanlega miklu máli. Hún breytir viðhorfum, heldur þeim vakandi og hefur áhrif á hegðun einstaklinga, sem saman mynda samfélagið og þoka málum áfram til rétts vegar. Þar nægja ekki orðin tóm, þar þarf aðgerðir.
Við verðum að huga betur að lýðheilsu hinsegin fólks. Ég hef sagt það áður og segi það enn og læt ekki deigan síga fyrr en við sameinumst um að tryggja hinsegin fólki jafn góðan aðbúnað og öðrum, sem byggja samfélag okkar.

Viljinn skiptir máli en breytingarnar felast í framkvæmdinni

Í annað sinn legg ég fram tillögu sem lýtur að líðan hinsegin fólks. Fyrri tillaga mín fjallaði um nauðsyn þess að bjóða upp á fræðslu um hinsegin málefni. Fræðslu sem byðist öllu starfsfólki Garðabæjar svo samfélagið allt fengi tækifæri til þess að umvefja hinsegin veruleika með ákveðna þekkingu að vopni. Nú fylgi ég þeirri tillögu eftir með því að hvetja til þess í bæjarráði að fyrri tillaga verði tekin alla leið og þær aðgerðir sem farið hefur verið í í kjölfar fyrri tillögu verði rýndar og endurmetnar, með það að leiðarljósi að gera betur.

Við verðum einfaldlega að gera betur ef við meinum eitthvað með því þegar við segjumst ætla að vera til staðar og styðjandi fyrir hinsegin einstaklinga, börn og ungmenni sem standa í þeim sporum að endurskilgreina sig og takast á við samfélagið sem býður þeim upp á takmarkaðar upplýsingar, skilning eða getu til að mæta þeim eins og þau eru.

Þess vegna legg ég fram tillöguna því ég trúi því að eftir því sem við ræðum málin betur og greinum stöðuna hverju sinni þá þokumst við nær því að tryggja lýðheilsu hinsegin fólks af alvöru.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. febrúar 2020