29 feb Öflugra eftirlit með Reykjavíkurborg
Einföldum kerfið til að einfalda lífið fyrir íbúa Reykjavíkur og þá sem starfa í kerfinu. Það er markmið meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur. Á síðasta ári réðumst við í töluverðar skipulagsbreytingar til að ná þessum markmiðum og nú höldum við áfram í að einfalda, skýra og skerpa.Eitt skrefið í þessa átt, sem samþykkt var í borgarráði á fimmtudag, var að sameina á einum stað eftirlitsaðila Reykjavíkurborgar; Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar, umboðsmann borgarbúa og persónuverndarfulltrúa. Markmiðið með þessari sameiningu er að einfalda og um leið styrkja starfsemi og skipulag þeirra aðila sem sinna eftirliti með starfsemi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar. Jafnframt breikkar faglegur grunnur starfsemi eftirlitsaðilanna með samvinnu fleiri sérfræðinga og á fleiri sviðum.
Með sameiningu eftirlitsaðila getur farið fram öflugara starf en hjá smáum og dreifðum einingum. Sameiningin býður upp á betri yfirsýn yfir stöðu mála sem snúa að málefnum Reykjavíkurborgar og auknum möguleikum fyrir fyrirbyggjandi eftirlit sem getur leiðbeint stjórnendum og starfsmönnum.
Frá og með 1. júní mun starf þessara eftirlitsaðila heyra undir Innri endurskoðun, enda er slíkt í góðu samræmi við þann staðal sem starfsreglur innri endurskoðunar byggjast á. Verkefnum eftirlitsaðila á að sinna með óháðum hætti, og heyra beint undir æðsta stjórnunarstig. Innri endurskoðandi heyrir nú þegar beint undir borgarráð og nýtur faglegs sjálfstæðis gagnvart öllum stjórnmálamönnum og stjórnsýslu borgarinnar.
Í þessum breytingum er mikilvægt að enn verður tekið á móti ábendingum og athugasemdum frá borgarbúum. Eftir að breytingarnar eru gengnar í gegn þurfa borgarbúar hins vegar ekki að velkjast í vafa um hvaða eftirlitsaðili með Reykjavíkurborg henti best til að taka á móti slíkum ábendingum.
Það er mikilvægt að starfsemi umboðsmanns borgarbúa verði áfram sýnileg í sameinaðri starfsemi og aðgengileg borgarbúum. Því verður óskað eftir samstarfi við umboðsmann Alþingis við mótun á verklagi til að tryggja stuðning og aðstoð við einstaklinga sem leita til innri endurskoðanda vegna athugasemda.
Með sameiningu eftirlitsaðila erum við að greiða úr flækjustigi, sem getur hægt á þjónustu, og sköpum tækifæri til hagræðingar. Þá hagræðingu er hægt að nýta til að efla enn frekar starfsemi eftirlitsaðila Reykjavíkurborgar. Með núverandi fyrirkomulagi er hætta á að margir aðilar séu að sinna sama verkefni eða að einhverju sé ekki sinnt vegna óvissu um hver eigi að sinna því.
Við viljum einfaldara og skilvirkara eftirlitskerfi í þágu borgarbúa, með því að styrkja innra eftirlit Reykjavíkurborgar.
Höfundur er formaður borgarráðs og oddviti Viðreisnar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. febrúar 2020