Tómlegur fataskápur keisarans

Ingi Tómasson formaður skipulags og byggingarráðs gagnrýnir í grein í Hafnfirðing fulltrúa Viðreisnar og Samfylkingar í skipulags og byggingarráði og bæjarráði. Hann finnur þeim þrennt til foráttu: (1) að benda á litla uppbyggingu í bænum, (2) að gagnrýna „nánast öll uppbyggingaráform sem lögð eru fram“ og (3) ómálefnalega gagnrýni.

Skoðum nánar þessi þrjú atriði.

1. Lítil uppbygging í Hafnarfirði

Frá því Sjálfstæðisflokkurinn tóku við stjórntaumum í Hafnarfirði eftir kosningar 2014 hefur fjöldi íbúða í byggingu í bænum helmingast á meðan hann tvöfaldaðist í nágrannasveitafélögunum Kópavogi og Garðabæ. Allan þennan tíma hefur Ingi Tómasson verið formaður skipulags og byggingarráðs.

Ef ekkert er byggt þá þurfa ungir Hafnfirðingar að bregða búi og koma sér upp húsnæði í öðrum bæjarfélögum. Afleiðingin er minni tekjur í bæjarsjóð og þar með færri tækifæri til þess að bæta bæinn okkar. Á þetta hefur verið bent á og því verður haldið áfram.

2. Öll uppbygging gagnrýnd

Ingi fullyrðir að gagnrýnd séu „nánast öll uppbyggingaráform sem lögð eru fram“. Ef fundargerðir Hafnarfjarðarbæjar eru skoðaðar þá sést að fulltrúar Viðreisnar og Samfylkingar hafa stutt nær öll uppbyggingarverkefni sem kynnt eru. Deilumál má telja á fingrum annarrar handar. Kenningin er því athyglisverð en engin gögn styðja hana.

3. Ómálefnaleg gagnrýni

Tillaga að deiliskipulagi við Gjóturnar var gerólík faglega unnu rammaskipulagi fyrir þróunarsvæðið Hraunin. Fulltrúar C og S í skipulags- og byggingarráði bentu á þetta á fundi og lögðu til að haldin yrði kynningarfundur um nýja skipulagið, það var fellt. Gildi rammaskipulagsins var óljóst, þá var lagt til að rammaskipulaginu væri samþykkt bæjarstjórn. Það var einnig fellt.

Í kjölfarið kom Skipulagsstofnun með 30 atriða áfellisdóm yfir skipulagsferlinu þar sem hún tók undir öll atriði sem fulltrúar Viðreisnar,  Samfylkingar og, í nokkrum tilfellum, Bæjarlistans höfðu bent á. Gagnrýnin hafði með öðrum orðum verið fagleg og réttmæt.

Tilraunum okkar til þess að beina meirihlutanum aftur á beinu brautina var ítrekað hafnað en geta meirihlutans til þess að axla ábyrgð á gjörðum sínum er takmörkuð. Þess í stað skrifa þau greinar í blöðin þar sem minnihlutanum er fundið allt til foráttu. Í grein Inga dugir ekki að uppnefna pólitíska andstæðinga sína Þórð heldur eru þeir einnig kallaðir Ragnar. Þegar ofangreint er skoðaðar má velta því fyrir sér hvort barnið í sögu H.C Andersen um nýju fötin keisarans sé ekki réttari lýsing á umræddum fulltrúum flokkanna. Lesendur mega giska hver keisarinn er.

Jón Ingi Hákonarson, fulltrúi Viðreisnar í bæjarstjórn

Óli Örn Eiríksson, fulltrúi Viðreisnar í skipulags- og byggingarráði Hafnarfjarðar

Greinin birtist fyrst í Hafnfirðingi 5. febrúar 2020