22 apr Nei, það þarf ekki að loka öllu til frambúðar
Það vantar ekki vondu hugmyndirnar. Um allan heim er fólk að segja að við „þurfum að búa okkur undir að framvegis…“ og svo kemur einhver hræðileg hugmynd.
Auðvitað þurfum við tímabundið að grípa til aðgerða til sporna við útbreiðslu veirunnar. En við eigum ekki gagnrýnislaust og varanlega gefa frá okkur allt sem er gagnlegt, fallegt og gott.
Til varnar ferðalögum
Búið er að loka fyrir flest ferðalög og verið að undirbúa okkur undir að þegar þau verði opnuð á ný muni þau vera vesen: framvísa þurfi sóttvarnarskírteinum og svo framvegis. Af hverju? Af hverju viljum við láta af hendi ferðafrelsið svona auðveldlega?
Löngu fyrir COVID-19 töldu sumir að við værum að ferðast of mikið, aðallega af umhverfisástæðum. Umhverfismál eru mikilvæg en mengun af völdum ferðalaga er verkfræðilegt vandamál. Þegar ísskápar reyndust eyðileggja ósonlagið bjuggum við til betri ísskápa, við hættum ekki að kæla mat.
Ferðalög gera okkur mennsk: ekkert annað hjarðdýr slappar af með því að fara í tvær vikur á yfirráðasvæði annarra hjarða. Ferðalög eru skemmtileg. Ferðalög víkka sjónarhorn fólks. Um leið og þessu ástandi lýkur á bara að opna allt á ný.
Til varnar fólksflutningum
Flest stjórnvöld, þar með talið þau íslensku, hvetja eigin borgara til að „koma heim“, og reyna að hjálpa þeim í því með ýmsum úrræðum. Í einhverjum tilfellum er verið að hvetja fólk í raun til að fara „að heiman“. Fólk sem hefur búið erlendis svo árum skiptir er sótt og sett á hótel.
Innflytjendur verða afgangsstærð. Rætt er um að opna á nauðsynlega fólksflutninga til dæmis vegna skorts á vinnuafli. Margir fara að hugsa: „Er ekki bara fínt að stjórna þessu aðeins meira? Af hverju eigum við svo að lækna fullt af útlendingum í næsta faraldri?“
Það þarf að tryggja frjálsa flutninga fólks innan EES áfram og útvíkka sambærileg gagnkvæm réttindi í samningum við fleiri lönd. Ekki að herða reglurnar til frambúðar.
Til varnar frjálsum viðskiptum
Þegar eyríki lenda í krísum vakna upp draumórar um að eyríkið geti með einhverju móti orðið „sjálfbært“ um matvælaframleiðslu og aðrar nauðsynjar. Hér á landi hefur þessi skoðun þegar komið fram bæði í formi mjúkrar hvatningar um að „velja íslenskt“ sem og í harðari yfirlýsingum um að tollar væru hin fínasta hugmynd.
Það eru engar líkur á því að við komumst fyrr út úr kórónukreppunni með því að borða meiri kartöflur og minni hrísgrjón. Engin þjóð hefur orðið rík með því að girða sig af með tollamúrum. Auðvitað má huga að raunverulegu matvælaöryggi í kreppum, hin gjöfulu fiskimið okkar hljóta að koma inn í þá mynd, en í ljósi þess að matvælaskortur hefur ekki orðið vandamál í þessum faraldri hér (frekar hitt) þarf ekki tolla til að leysa óraunveruleg vandamál í framtíðinni.
Til varnar borgum
Borgir vaxa um allan heim. Í borgum er auðveldara að finna vinnu og auðveldara að finna starfsfólk. Þess vegna vilja margir búa í borgum, sem getur skapað vandræði þegar faraldrar blossa upp. Það gætir nú ákveðinnar þórðargleði hjá sumum andstæðingum þéttra borga. Birtar eru myndir af farþegum í neðanjarðarlestum með hæðnislegum athugasemdum um að þétting byggðar og almenningssamgöngur séu klárlega hluti af vandamálinu.
Singapúr, Hong Kong, Brúnei og fleiri borgríki hafa höndlað faraldurinn vel.
Á Íslandi búa flestir íbúar nálægt höfuðborginni. Þéttleiki auðveldar skilvirka skimun, sem virðist vera mjög árangursrík leið til að sporna við útbreiðslunni. Í stuttu máli er engin ástæða til að fórna öllu því góða sem borgir bjóða upp á bara út af COVID.
Til varnar lýðræði
Sumum líkar sú mynd að í Wuhanhéraði hafi hlutirnir ekki verið teknir neinum vettlingatökum og að það hafi virkað. Reynt er að stilla því upp á móti Ítölum, sem lentu fyrst í faraldrinum í Evrópu og vissu varla hverju von var á. Víða verður reynt að herða tökin með vísan í þetta fordæmi: Lýðræðið ráði ekki við þetta. Fjölmörg dæmi frá rótgrónum lýðræðisríkjum, eins og Íslandi, afsanna þetta.
Þegar kemur að stoðum lýðræðisins er eðlilegt að gera tímabundnar breytingar, heimila stöku fjarfundi og flytja ef til vill einhverjar kosningar um nokkra mánuði. En það er engin ástæða til að gera grundvallarbreytingar á gangverki lýðræðisins eða fara að leita að valkostum við það.
Lýðræðisleg samfélög hafa náð mjög langt. Tímabundinn ótti okkar við dauðann má ekki verða til þess að við breytum öllu, og skellum í lás. Nei, það þarf ekki að loka öllu til frambúðar
Höfundur er borgarfulltrúi fyrir Viðreisn.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. apríl 2020