24 apr Snjallborgin Reykjavík
Alls staðar í borgarkerfinu hefur starfsfólk þurft að bregðast hratt við að undanförnu, læra á nýja tækni og nýta hana í að veita mikilvæga þjónustu, með takmarkanir sóttvarna í huga. Þegar þessu ástandi lýkur verða eflaust margir því fegnir að hitta annað fólk í stað fjarfunda á skjá, fá að faðma aftur vini og ættingja og hittast á skemmtilegum mannamótum. Við munum líka taka með okkur lærdóma um hvað við getum rafvætt af þjónustu borgarinnar.
Reykjavík er vel undirbúin fyrir aukna rafvæðingu. Því var hægt að bregðast hratt við með velferðartækni til að auka þjónustu. Veitt er félagsleg heimaþjónusta með skjáheimsóknum, á sama hátt eru samskipti félagsráðgjafa Barnaverndar og unglinga í fóstri efld og íbúum hjúkrunarheimila auðveldað að spjalla við aðstandendur.
Félagsstarf var rafvætt, þegar loka þurfti félagsmiðstöðvunum. Nú er tæknin notuð til að syngja saman, kenna spænsku og keppa í skák. Félagsmiðstöðvar ungmenna eru þeim eldri ekki eftirbátar og halda uppi öflugu félagsstarfi á samfélagsmiðlum.
Reykjavíkurborg vill vera leiðandi sem snjöll þjónustuborg. Til þess hafa ferlar verið einfaldaðir, gerðir rafrænir. Við settum á fót nýtt þjónustu- og nýsköpunarsvið til að leiða rafrænar þjónustubreytingar, þvert á öll svið borgarinnar í anda nútímalegrar þjónustustefnu. Við höfum líka ákveðið að veita auknu fjármagni í snjallvæðinguna.
Dæmi um frábæra rafræna lausn er umsókn um fjárhagsaðstoð, sem heppnaðist svo vel að vefkerfið var nú í mars valið af Samtökum vefiðnaðarins sem vefkerfi ársins 2019. Önnur lausn er í farvatninu eru snjallari umsóknir til að einfalda til muna öll samskipti vegna skipulags- og byggingamála.
Starfsmenn borgarinnar hafa geta brugðist hratt við í að veita meiri rafræna þjónustu, því undirbúningurinn hefur verið fyrir hendi. Við munum halda áfram að þróa snjallborgina Reykjavík, læra af því sem vel hefur heppnast á undanförnum vikum og halda áfram að einfalda líf borgarbúa.
Höfundur er formaður borgarráðs