27 apr Sveitarfélögin mega ekki lamast
Þegar á móti blæs er horft til hins opinbera til að standa þétt við bakið á fólkinu í landinu. Ríkisstjórnin hefur nú kynnt 20 aðgerðir til varnar, verndar og viðspyrnu og er þar margt gott að
finna þótt öllum sé ljóst að þetta er ekki í síðasta sinn sem ríkisstjórnin stígur fram og kynnir aðgerðapakka.
Borgarstjórn kynnti í lok mars 13 aðgerðir um frestun, niðurfellingu og lækkun gjalda; sveigjanleika í innheimtu; stuðning við ferðaþjónustu, nýsköpun, skapandi greinar, þekkingargreinar, menningu, listir, íþróttir og viðburðahald; markvissar vinnumarkaðsaðgerðir; auknar fjárfestingar og átak í uppbyggingu fjölbreytts og hagkvæms húsnæðis.
Aukin þjónusta sveitarfélaga
Sveitarfélögin, líkt og ríkisvaldið, vilja standa sig á þessum erfiðu tímum í því að styðja við fólk og fyrirtæki, veita framúrskarandi þjónustu og halda uppi atvinnustigi. Það er hlutverk sveitarfélaganna að veita mikilvæga nærþjónustu, nú sem aldrei fyrr.
Sveitarfélögin hafa lýst áhuga á að auka framkvæmdir sínar, fara í víðtækar aðgerðir til að stuðla að félagslegri virkni, efla
menningu, íþróttir og bjóða upp á stuðning við þann stóra hóp sem missir vinnuna. Að auki mun fjöldi atvinnulausra og minni tekjur íbúa þýða verulega aukin útgjöld vegna fjárhagsaðstoðar og sérstakra húsaleigubóta.
Ekki bara hægt að bregðast við með lántökum
Sveitarfélögunum er þó mun þrengri stakkur skorinn en ríkinu þegar kemur að hugsanlegri tekjuöflun til að standa bæði undir hríðfallandi tekjum og auknum kröfum um að auka þjónustu og framkvæmdir, og lækka álögur sínar.
Samtök sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sendu fjármálaráðherra minnisblað fyrr í mánuðinum, þar sem fram koma áhyggjur sveitarfélaganna af getu sinni til að taka þátt í viðnámi, auka þjónustu, vinnumarkaðsaðgerðum eða framkvæmdum, verði efnahagslegum áhrifum faraldursins velt yfir á sveitarfélögin. Hættan er sú að sveitarfélögin verði
lömuð til langs tíma, eigi þau einungis að bregðast við með stóraukinni skuldsetningu.
Sveitarstjórnarráðherra á villigötum
Sigurður Ingi Jóhannsson sveitarstjórnarráðherra hélt því fram í pontu Alþingis í síðustu viku, að þau sveitarfélög sem skilað hefðu hagnaði á undanförnum árum gætu vel tekið á sig það högg sem nú skellur á.
Viðbrögð hans, og sá aðgerðapakki sem kynntur var af ríkisstjórninni sem sérstakur stuðningur við sveitarfélögin, sýna mikið skilningsleysi á þeim brimskafli sem er að skella á þeim. Hafi sveitarfélag á undanförnum árum skilað afgangi, líkt og sveitarstjórnarráðherra lýsti, mun sá afgangur vera fljótur að hverfa til að halda rekstri þess á floti á þessu ári.
Næsti aðgerðapakki ríkisstjórnarinnar hlýtur að sýna vanda sveitarfélaganna meiri skilning. Ég skora á ríkisvaldið að huga bæði að almennum stuðningi við öll sveitarfélög í landinu og sértækum stuðningi við þau sveitarfélög þar sem algjört hrun hefur orðið á atvinnugreinum, líkt og við sjáum á nokkrum stöðum s.s. í Skútustaðahreppi, í Mýrdal og á fleiri stöðum.
Sú leið sem Samtök sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu leggur til í minnisblaði til fjármálaráðherra er skynsamleg um leið og hún er uppbyggileg. Tillagan gengur út á að ríkið leggi fram 137.000 kr. á íbúa í hverju sveitarfélagi fyrir sig, sem mun leiða til þess að sveitarfélög geti haldið öflugu þjónustu- og framkvæmdastigi í gegnum þennan brimskafl sem við erum öll saman í.
Útkoman yrði betri fyrir alla, sveitarfélög til skamms tíma og ríkið til lengri tíma.
Höfundur er formaður borgarráðs og oddviti Viðreisnar.
Greinin birtisti í Morgunblaðinu 27. apríl 2020